Wednesday 26 December 2007

Gleðileg jól

Margt og mikið hefur gerst síðustu tvær vikur eða svo.

- Fór í fyrsta próf hér í útlöndum. Skrýtið að svara á ensku og prófið var líka allt öðruvísi en þau sem ég hef farið í áður. Við fengum fræðigrein um akstur háskólastúdenta undir áhrifum áfengis og síðan áttum við að búa til íhlutun, hverju við myndum vilja breyta, af hverju og hvernig. Semsagt kapphlaup við tímann að skrifa eins mikið og maður gat. Líka skrýtið að prófa ekki bara í þekkingu á efninu heldur líka hversu hugmyndaríkur maður er. Sjáum til hvernig þetta fer.

- Skilaði stóra kynlífsverkefninu. Verkefnið sem við erum búin að vinna að síðan í haust og kennslustundin okkar var hluti af. Það var blóð, sviti og tár í þrjá daga. Í lokin var ferlíkið yfir 50 síður, barasta eins og ágætis BA verkefni...

- Steinunn kom! Stanslaus dagskrá og stuð.

- Fórum á pöbbinn að hitta Grikki, elduðum nautasteik með piparostssósu, fórum til Amsterdam í skítakulda að skoða m.a. Begijnhof og rauða hverfið (hver að verða síðastur), í partý ti Grikkjanna, til Antwerpen, Belgíu að skoða jólamarkaðinn, skautasvellið, smakka á bjórnum og kaupa minjagripi, til den Haag að versla í jólamatinn og kaupa Prins Polo í pólsku búðinni, bjuggum til plokkfisk og buðum Hollendingum upp á hann og graflax, gerðum alvöru heitt súkkulaði, fengum okkur graut með slátri, elduðum frábæran jólamat, opnuðum jólakortin og jólapakkana, borðuðum kornflexmarengs, sandköku með karmellukremi og smákökur, lásum jólabækurnar og fórum með hangikjöt til jólaboð til Grikkjanna.
Svona svo fátt eitt sé nefnt. Gæti verið að við höfum borðað mikið?

- Grikkirnir dönsuðu ægilega þjóðlega og flókna dansa við gríska tónlist. Við Steinunn settum Stuðmenn á og tókum stuðmannahoppið af mikum móð. Ég veit ekki alveg hvað Grikkjunum finnst um "traditional" íslenska dansa!

- Fékk fullt af skemmtilegum jólakortum og jólagjöfum. Ég á alveg einstaklega fyndna ættingja það er víst. Hvern vantar ekki Vilko kakósúpu, kjötsúpu, mjólkurkex, íslenskt nammi í miklu magni, jólatónlist, laufabrauðsservíettur og myndir af ættingjunum? Ég er allavega mjög ánægð með þetta allt saman.

- Það komust ekki allir pakkar á leiðarenda fyrir jólin. Kannski ekki svo slæmt, núna hefur maður líka nýarsgjafir! Vona að þetta berist nú samt áður en við förum til Þýskalands.

- Næst á dagskrá er að kíkja á útsölu(r) á morgun og undirbúa sig fyirr Þýskalandsferðina.

Saturday 15 December 2007

Jólakort

Fyrstu kortin komu í hús í dag!
Það er alltaf gaman að fá póst, sérstaklega jólakort. Það kemur ekki mikið af pósti inn um lúguna hér, þegar maður fær enga reikninga og engan ruslpóst þá er ekki mikið eftir!

Annað kortið var með nýja laufabrauðsfrímerkinu. Ég er mjög ánægð með þetta frímerki, þjóðlegt og flott. En hvernig er með frímerkjasafnarana þegar frímerkin eru límmiðar? Þá er ekki hægt að klippa út, setja í bleyti, pressa og raða inni í frímerkjabókina. Það er/var einn þáttur af aðfangadagskvöldi heima hjá mér, að passa að engin frímerki enduðu í ruslinu með umslögunum.

Annað sem mér finnst skemmtilegt er að skoða skriftina á umslaginu og velta fyrir mér hver hefur sent kortið. Ég þekki orðið nokkuð margar skriftir, sérstaklega hjá "gömlum" vinum og nánum ættingjum. Sumir (*hóst* Jón *hóst*) skilja ekkert í þessu og vilja bara rífa upp umslagið og skoða kortið. Það er alveg bannað. Það á að safna kortunum saman á góðan stað og opna öll á aðfangadagskvöld. Og ekki gleyma að klippa út frímerkin!

Best að lesa aðeins meira um kenningar og hvernig í ósköpunum maður eigi að fá fólk til að gera það sem það ætti að gera...

Tuesday 11 December 2007

Bömmer

Ég fór með skóna mína til skósmiðsins. Það var komið rifa meðfram sólanum, í gegnum leðrið og efnið undir líka. Yndæli skósmiðurinn sagði að það væri ekki hægt að gera við þetta.
Skórnir sem eru svo góðir vetrarskór, svona reimaðir ökklaskór svo maður blotnar síður en í venjulegum. Nauðsynlegt í bleytunni, það er sko nóg af henni hér í Hollandi.
Nú á ég enga almennilega vetrarskó, ekki get ég farið í gönguskónum í skólann - Grikkirnir eru nógu hissa á að maður gangi í vind/regnjakka.
Semsagt, ég neyðist til að kaupa nýja skó. Hentar ágætlega að útsölurnar voru að byrja!

Bömmer númer tvö er að jólamarkaðirnir í Þýsklandi eru samviskusamlega búnir 23.12. Allavega þeir sem eru í akstursfæri héðan. Þeir sem eru opnir eftir jól eru langtlangt í burtu, Hamburg, Berlín...
Ég var búin að hlakka svo til að fara á jólamarkað eftir jólin þegar við förum til Þýskalands. Svekkelsi.

Til að bæta upp allan þennan bömmer og byggja mig upp fyrir próflestur ætla ég að elda pasta með piparostsósu. Mmmm.

P.S. ég er búin að geyma ostinn frá því í september (takk Eva). Kannski kominn tími til að nota hann? sérstaklega þar sem mamma bætti á birgðirnar.

Saturday 8 December 2007

Sinterklaas

Sinterklaas kvöldið var áhugavert. Við klæddum okkur í betri fötin og áttum von á sparimat.
En húsráðendur voru bara voða "kasúal" og við fengum súpu og böku. Eftir matinn var skipst á að opna gjafir, sá sem fékk síðustu gjöf valdi hver fengi að opna næst. Þetta var allt voða rólegt, einn pakki í einu, dótið skoðað, tekin mynd og sungið "dank u Sinterklaasje" eða "takk Sinterklaas". Allar gjafir eru frá Sinterklaas, börnin fá ekki gjafir frá afa og ömmu eða frænda og frænku og sjá foreldrarnir um öll gjafakaup. Við fengum þessa fínu klossa frá gamla manninum, ásamt hollenskum bjór, súkkulaðistaf (allir fá sinn upphafsstaf) og tösku sem Marielle saumaði.
Hægt er að sjá myndir frá kvöldinu á síðunni hans Jóns.

Í dag fór ég í bæinn í jólagjafaleiðangur og sá að það er búið að taka allar Sinterklaas skreytingarnar niður og hefðbundnari skreytingar komnar í staðinn. Ég sá meira að segja jólasvein! Sinterklaas er sko ekki jólasveinninn. Það er mjög mikilvægt að rugla þeim ekki saman hér í Hollandi. Mjög mikilvægt.
Þeir sem vilja ítarlegri skýrslu um hollenskar jólahefðir geta fengið greinargerð senda í tölvupósti eða með jólakortinu sínu:)

Wednesday 5 December 2007

næstum Þorláksmessa

Í dag er gjafadagurinn mikli 5. des þegar Sinterklaas gefur öllum gjafir. Í tilefni af því var opið lengur í búðunum í gær (ég geri ráð fyrir að það sé tenging þarna á milli). Ég ákvað því að rölta niður í bæ og átti von á smá Þorláksmessustemmingu, allir á fullu að kaupa gjafir og svona. Neinei það var engin örtröð og það fólk sem ég sá var ekkert með fangið fullt af gjöfum með æðisglampa í augum að ná í búðirnar fyrir lokun.
Í sárabót sá ég Sinterklaas sjálfan og hóp af Pietum. Meira að segja lúðrasveit skipuð Piet-um. Get ekki ímyndað mér að það sé þægilegt að spila með allt þetta svarta meik á sér.

Í gær skrapp ég í búð hér stutt frá til að kaupa jólakort (já ég KEYPTI jólakort) og þá var bara verið að gefa jólapappír. Ég ætlaði að kaupa svoleiðis og var búin að taka tvær rúllur en sá svo að þær voru gefins. Fannst fyrst frekja að taka tvær rúllur en ákvað svo bara að fá báðar. Sé í anda búðir á Íslandi gefa jólapappír á Þorláksmessu. Hollendingarnir eru greinilega svo skipulagðir að þeir eru ekkert að kaupa pappír á síðustu stundu.

Á eftir förum við til Marielle og Wim til að halda upp á Sinterklaas. Allir koma með eina gjöf, allar settar í poka og síðan dregur maður eina gjöf. Gjöfin er sko frá Sinterklaas. Það er ekki nóg að koma með gjöf heldur þarf maður að yrkja eina vísu um þann sem þú gefur gjöf. Við erum bara fjögur svo ég er búin að berja saman tvær rímur um þau hjónakorn. Enda komin af hagmæltu fólki.

Fyrir þá sem eru búnir að föndra jólakortin og bíða í ofvæni eftir að geta sent mér eitt (Kata ég veit að þú ert búin að vera sveitt með glimmertúbuna) þá kemur hér heimilisfangið okkar:

Morsweg 39
2312 AB Leiden
The Netherlands

Sunday 2 December 2007

Brussel

Skellti mér til Brussel um helgina með nokkrum íslenskum hnátum. Mikið talað og mikið hlegið. Við þrömmuðum um bæinn og sáum ýmsar merkilegar byggingar sem ég veit nú lítið um og kíktum að sjálfsögðu á Manneken Piss. Það er vatnsbrunnur, pissandi strákur sem er eitt helsta ferðamannadæmið þarna. Guttinn á víst líka um 200 búninga, t.d. jólasveinabúning og fótboltabúning. Því miður var hann ekki í neinum búningi núna en þegar hann fer í búning pissar hann bjór!

Margt annað var brallað, ekki hægt að nefna allt en:
Belgískur bjór, súkkulaðibúðir, belgískar vöfflur, súkkulaðigosbrunnur, ýtnir þjónar, sturta á topp 5 listanum yfir verstu sturturnar, súkkulaðismakk, ljót blá jólaskreyting, hindberjabjór, súkkulaðikaup, alkóhólistar, perrabjörn, gluhwein, rok og rigning, fabíó, númer átta, bjór í kwak glasi og já ég vil fá meiri ost.
Borðuðum kvöldmat hjá kampavínsgaurnum. Þar fengum við fáranlega þjónustu hjá Skúla fúla sem henti hnífapörunum á borðið, kunni ekki að leggja á borð, fengum engar munnþurrkur, reyndi að stinga hnífi í augað á Rúnu, reynid að vera með "fyndin" trikk við Önnu, nennti lítið við okkur tala, fannst kellingarnar á næsta borði skemmtilegri, gleymdi pöntun, missti hnífapör í gólfið í gríð og erg, slædaði eftir gólfinu, drakk bjór ótæpilega og kyssti Unu. Síðan var hann fúll yfir að fá ekki þjórfé!

Kynfræðsla

Á fimmtudaginn fór hópurinn minn í Rijnlands Lyceum og vorum með kynfræðslu fyrir 14 ára bekk. Okkur var sagt að það yrðu 25 krakkar í tímanum en þegar við mættum voru bara 9 krakkar! Fengum nú enga góða skýringu á þessari fækkun en þau sem voru mætt voru hress. Tíminn gekk ágætlega þrátt fyrir smávægilega tæknilega örðugleika og því furðulega dæmi að hárspennan sprakk utan af hárinu á mér.
Strákarnir þóttust vera með allt á hreinu og með munninn fyrir neðan nefið, held að markmiðið hjá þeim hafi verið að gera okkur vandræðalegar. Sem að sjálfsögðu tókst ekki.
Eftir tímann setti ég persónulegt met í setu á kaffihúsi. Held að ég setji ekki nánari upplýsingar um það hér inn...

Monday 26 November 2007

Brennivín

Á laugardagskvöldið bauð ég útlendingahlutanum af bekknum mínum upp á íslenskt góðgæti. Mættir voru að sjálfsögðu Grikkirnir og sú ameríska/hollenska/indónesíska en stelpan frá Brasilíu komst ekki.
Ég dróg fram brennivín og tópas, harðfisk og smjör og nammi. Það er sko til nóg af nammi hér! Mamma stóð sig vel í útflutningnum:) Ég náði ekki einu sinni að leyfa þeim að smakka á öllu. Þau fengu draum, rís, lakkrískonfekt, nóakropp og kúlusúkk og viðbrögðin voru: "taktu þetta í burtu áður en ég klára allt" og "þetta nammi er ávanabindandi"!
Það sem kom mér nú á óvart var hvað þeim fannst brennivínið gott. Flestum fannst það miklu betra en tópasið. Ég er nú heldur ekki vön að fólk biðji um meira brennivín.

Ég fékk líka að smakka á "þeirra" drykk, Ursus. Reyndar ekki grískur drykkur en víst mjög vinsæll þar og er aulýstur sem "the surprise from Iceland" og á flöskunni stendur "based on the original icelandic recipe". Reyndar er drykkurinn framleiddur hér í Hollandi og minnti helst á krækiberjasaft. Kannski er þetta bara gömul íslensk uppskrift, hver veit?
Nú á ég rúmlega hálfa flösku og allir sem koma í heimsókn mega smakka!

Jón útbjó líka lagalista til að leyfa gestunum að heyra íslenska tónlist. Hvað ætli sé mest lýsandi fyrir íslenska tónlist: Björk, Þursaflokkurinn, Nýdönsk, Baggalútur, Ampop, Mugison eða Helgi og hljóðfæraleikararnir?
Ég komst að því þegar ég skoðaði íslensku tónlistina sem ég er með í tölvunni að það vantar alveg nýjustu hljómsveitirnar. Verð að bæta úr þessu, gengur ekki að vera ekki með það nýjasta þegar maður er í útlöndum að reyna kynna íslenska tónlist fyrir fólki.

Saturday 24 November 2007

Sinterklaas

Jólasveininn kom til Leiden í dag.
Formlega kom hann til landsins síðasta laugardag og var það víst sýnt í sjónvarpinu. Sá gamli getur að sjálfsögðu ekki verið á mörgum stöðum í einu og kom því í dag með viðhöfn til bæjarins.
Jólasveininn kemur frá Spáni á skipi með svörtu aðstoðarmönnunum sem allir heita Piet. Um hádegið var þéttskipað við síkið og allir að bíða eftir hersingunni. Fyrst komu litlir bátar og svo stærri bátur með jólasveininum og félögum. Á bátnum var líka lúðrasveit skipuð Piet-um og fullt af fólki var á sínum bátum að fylgja þessu eftir.
Allir veifuðu á fullu og mér fannst merkilegt að allir krakkarnir kölluðu á Piet og voru mörg klædd í Piet búninga (svipað og hirðfífl). Hann er greinilega merkilegri en sá gamli.
Síðan komu allir á land og greinilega einhver dagskrá að fara að byrja en ég nennti nú ekki að hanga yfir því. Svo er líka hægt að heimsækja jólasveininn og Piet í húsinu þeirra niðri í bæ fram að 5. des en þá er aðalgjafadagurinn.

Ég gleymdi myndavélinni en hringdi í Jón og hann kom hlaupandi en náði því miður fáum myndum af gleðinni. Sjáum til hvort þær rati inn á netið eða hvort ég reyni að finna aðrar myndir til að sýna múnderinguna á liðinu.

Sunday 18 November 2007

Verður Íslendingum kalt?

Brandari vikunnar hjá Grikkjunum var þegar ég sagði að mér væri kalt. Það fannst þeim ótrúlegt, ég er nú frá Íslandi! Þau eru búin að væla mikið yfir kuldanum en ég hef ekki haft yfir miklu að kvarta. Maður kann að klæða sig. Þennan daginn klæddi ég mig kannski ekki alveg nógu vel og var þess vegna aðeins kalt. Bara aðeins.
Eins gott að þau sjái mig ekki stundum á kvöldin þegar ég fer í ullarmokkasíurnar og undir teppi til að hlýja mér.
Ég er nefnilega vel útbúin innan sem utandyra. Eva kom með bútasaumsteppið frá mömmu og mamma kom með ullarmokkasíur sem Gunna systir prjónaði handa henni fyrir útlegðina í Nottingham. Greinilega nauðsyn fyrir Íslendinga í útlöndum í köldum húsum með einfalt gler.

Í dag var stór dagur. Pönnukökupannan var dregin fram og skellt í nokkrar pönnsur í fyrsta skipti hér á Morsweg. Það tók nefnilega smá tíma að verða sér út um jafn exótísk hráefni eins og lyftiduft og vanilludropa.
Markmiðið er að verða nokkuð fær pönnukökubakari áður en ég kem heim. Í heimilisfræði lærði ég nefnilega bara tveggja manna pönnukökubakstur en ég hef ekki alltaf Ingu hjá mér svo ég verð að læra að gera þetta sjálf.

Aðalverkefni síðustu viku var að búa til myndband um öruggt kynlíf og æfa efnið sem við munum nota í prógramminu okkar. Á morgun þurfum við svo að kynna allt fyrir kennurunum. Eftir eina og hálfa viku munum við standa fyrir framan heilan bekk af 14 ára unglingum og fræða þau um öruggt kynlíf. Fjör? án efa. Stressandi? pottþétt.

Tuesday 13 November 2007

Mígandi rigning

Í dag var mígandi rigning. Svona eins og kemur í hellidembu nema þetta stóð yfir í allan dag.
Hjólaði heim úr skólanum og þurfti að skipta um buxur. Þurfti síðan að mæta aftur í tíma og enn var rigning.
Á minni stuttu leið urðu buxurnar mínar svo blautar að ég var alvarlega að hugsa um að fara úr þeim og vera á brókinni í tímanum. Í staðinn sat ég í þrjá tíma með buxurnar límdar við lærin.
Buxurnar þornuðu hægt og rólega og voru nokkurn veginn þurrar þegar ég hjólaði aftur heim.
Hrollurinn náði lengst inn í bein svo það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að fara í heita sturtu, síðan í ullarsokka og hita vatn í kakóbollann.

Spurning um að kaupa sér hlífðarbuxur?

Friday 9 November 2007

Stormur

George sagði mér í fyrradag að það væri búið að gefa út stormviðvörun. Grikkirnir voru stressaðir yfir þessu en ég hélt náttúrulega kúlinu, öllu vön sko. Enda virðist sem vonda veðrið sé aðallega á Englandi.
Í nótt var samt versta veður síðan ég kom, ég meira að segja vaknaði við lætin. Afar óvenulegt en kannski spilaði einfalt gler inni í. Í morgun bættist svo haglél við.

Að hjóla í roki er ekki skemmtilegt. Áðan var svo mikið rok að ég hreyfðist varla á hjólinu og svo mikil rigning að ég þurfti að skipta um buxur þegar ég kom heim. Þvílíkt ástand!

Áætlunin "að aðlagast hollensku samfélagi" gengur ágætlega. Síðustu tvo daga hefur Jón komið heim með hollensk fríblöð og ég reyni að fatta um hvað greinarnar eru. Mun samt halda mig áfram við mbl.is til að fylgjast með gangi heimsmálanna (eða buitenland nieuws upp á hollenskuna).
Ég er ekki enn alveg búin að ná sögunni af svörtu hjálparsveinum hollenska jólasveinsins. Hvernig byrjaði þetta eiginlega? Ég hef engin svör fengin frá þeim Hollendingum sem ég hef spurt um þetta dæmi. Núna þegar jóladótið er byrjað að streyma í búðirnar þá brosa svartir hjálparsveinar í hálfgerðum miðaldahirðfíflabúningi við manni við jólagóssið. Kannski er bara ósanngjarnt að allir jólasveinar og hjálparliðið í kringum hann séu hvítingjar.
Einnig er mikilvægt að fylgjast með sportinu. Núna er æsispennandi skautahlaupskeppni í sjónvarpinu. Merkilegt íþrótt þar sem menn hlaupa hring eftir hring á skautum og rass- og lærvöðvar eru klárlega málið. Ætli þeir eigi erfitt með að finna buxur sem passa?

Thursday 8 November 2007

Vel af sér vikið

Í gær mætti ég samviskusamlega klukkan eitt í skólann. Enginn annar var mættur. Ég fór að pæla hvort tíminn hafi verið færður í aðra stofu en fann ekkert um það á töflunni. Eftir smá bið og ráf til að athuga hvort ég myndi sjá einhvern ákvað ég að hringja í Eleni M. og spyrja hvar allir væru eiginlega.
Kennarinn sagði okkur víst í síðustu viku að þessi tími yrði færður frá eitt til klukkan fimm! Gott hjá mér. Ekkert annað að gera en að hjóla aftur heim. Gaman að eyða aðeins tímanum í vitleysu.

Eftir tímann þótti (Grikkjunum) tilvalið að kíkja á barinn. Fórum á stað sem heitir því skemmtilega nafni WW sem á hollensku er borið fram vei vei. Hljómar svoldið bjánalega. Vei vei.

Á barnum voru meðal annars jólin plönuð hjá okkur sem fara ekki heim. Við erum fjórar, 2 grískar, 1 brasilísk og ég ásamt því allar erum við með gesti. Held að þetta verði um 13 manns í heildina. Við ætlum að slá saman í jólaveislupartý með öllu tilheyrandi, grískum, brasilískum og íslenskum jólamat, drykkjum og skrauti. Það verður sko fjör!

Tuesday 6 November 2007

Sælan á enda

Mamma og pabbi fóru heim til Íslands í morgun.
Þau mættu spræk á Schipol á fimmtudaginn með grunsamlega margar og stórar töskur. Ég átti von á góðu en það sem kom upp úr töskunum fór fram úr öllu sem mér hefði dottið í hug. Mér dettur ekki einu sinni í hug að reyna að telja upp allt það sem er núna í hillum, skúffum og skápum hér á Morsweg.
Íslenskur matur og dagblöð glöddu mig mest, líka þæfðar ullarmokkasíur og spil, auka yfirhafnir og gönguskór koma sér vel en skólabækur og tölfræðiglósur skiptu minnstu máli. Allavega þessa dagana.
Því verður ekki neitað að minni kæru stórfjölskyldu finnst gott að borða. Það skein í gegn í þessari mögnuðu sendingu að heiman. Það er alveg ljóst að hér verða mjög svo gleðileg jól!

Það væri hægt að skrifa en margar síður um það sem var gert um helgin en hér kemur stutt skýrsla:
Á föstudaginn héldu hjónin ein til Rotterdam á meðan við lærðum.
Á laugardag stóð ég fyrir skoðunarferð um Leiden. Fórum meðal annars á markaðinn þar sem pabbi smakkaði hráa síld með lauk að hætti infæddra en Jón læt sér nægja síld í brauði. Að sjálfsögðu var imprað á helstu sögulegum staðreyndum og þróun atvinnulífs hér. Hver hefur ekki gaman af því?
Á sunnudaginn fórum við til Amsterdam, kíktum í Begjinhof, sáum elsta hús borgarinnar, sigldum um síkin og heimsóttum Önnu Frank safnið.
Á mánudag var slæpst hér í Leiden og kíkt í nokkrar búðir.
Svo var að sjálfsögðu farið á veitingahús eins oft og kostur var á smakkað á ýmsum kræsingum, t.d. ítölskum, grískum, indónesískum, tælenskum, hollenskum og argentínskum.
Það verður erfitt að fara aftur í spaghettí-ið!

Allt gott tekur víst enda en núna get ég þá bara farið að setja mig í stellingar fyrir næsta gest!

Wednesday 31 October 2007

Vei

Seinni einkunnin er komin (úr áfanganum sem ég þurfti að vera með kynninguna í) og hún var ekkert síðri en sú fyrri! Ég fer að ofmetnast hérna með þessu áframhaldi. Gott að byrja bara á toppnum og þá þarf ég ekkert að sanna neitt meira fyrir sjálfri mér meir. Gott plan:)

Nýju kúrsarnir byrjuðu í gær og dag, allt komið á full swing. Í morgun var líka fundur um lokaritgerðina og internship-ið sem við eigum að gera. Ég er alveg jafn óviss með hvað ég ætla að skrifa um, maður fær ekki að velja heldur eru bjóða kennararnir upp á ákveðin viðfangsefni. Það er pressa að velja sem fyrst, annars gæti maður setið uppi með efni sem maður hefur engan áhuga á. En ég veit ekki alveg hvað ég vil, ekki frekar en fyrri daginn.

Þetta intership er frekar flókið. Við eigum að finna fyrirtæki eða stofnun til að fá að vera lærlingar hjá en fyrir þá sem tala ekki hollensku er það frekar hæpið. Okkur var ráðlagt að leita eða einhverju tengt rannsóknum (þar er kannski hægt að gera e-ð á ensku) eða skutlast til heimalandsins og gera þetta þar.
Humm eini gallinn er að við þurfum að vera amk 7 vikur í svona lærlingsdæmi. Líka ósanngjarnt að neyðast til að fara úr landi til að uppfylla kröfurnar í náminu. Lausn skólans er að bjóða upp á tvo rosa praktíska kúrsa í stað lærlingstöðunnar. Ég er enn að pæla (alveg síðan í morgun!) hvað ég eigi að gera. Hvað ætli sé best?

Mamma og pabbi koma á morgun! Ég er búin að útbúa stíft ferðaplan fyrir pabba og viða að mér ýmsum fróðleiksmolum um Leiden. Síðan fæ ég dót úr geymslunni góðu og pottþétt nóg af íslensku góðgæti. Þetta verður ljúf helgi.

Sunday 28 October 2007

Tíminn stóð í stað

Í nótt var skipt yfir í vetrartíma. Við vorum stödd á lestarstöðinni í Delft klukkan þrjú í nótt og þá stoppuðu klukkurnar. Síðan fylgdist ég með klukkunum á lestarstöðvunum á leiðinni og alltaf var hún þrjú. Þegar við komum til Leiden var klukkan ennþá þrjú.
Gaman að græða einn klukkutíma og í tilefni af því svaf ég aðeins lengur í morgun. Það verður líklega ekki eins gaman í vor þegar maður tapar klukkutímanum.

Í gær fórum við til Rotterdam og tókum túristarúnt. Löbbuðum hring um borgina og fórum í siglingu um höfnina sem er sú stærsta í heimi. Enda engin smásmíði, þvílíkt magn af gámum og risaflutningaskipum. Rotterdam er allt öðruvísi en Leiden og Amsterdam, mikið af háhýsum og bara öll nútímalegri. Svo vantar ekki búðirnar, fórum t.d. í 11. hæða bókabúð. Að vísu var þetta 11 pallar en ekki alveg heilar hæðir. En samt alltaf skemmtilegt að koma í stórar bókabúðir.
Áður en við fórum heim kíktum við á kaffihús með Ingu Auðbjörgu og fengum nýjustu fréttir.
Fyrst við vorum á lestarrúntinum þá fórum við um kvöldið til Delft í afmælispartý hjá Rúnu. Mikið stuð og gleði.

Á föstudeginum hélt Ana, brasilíska bekkjarsystir mín, upp á afmælið sitt. Grikkirnir mínir fóru að tala um hvort ég gæti ekki einhvern tíma komið með "traditional" íslenska tónlist og kennt þeim "traditional" dansa. Semsagt gömludansana. Ég er ekki mjög spennt fyrir að hoppa í skottís svo ég fór að pæla hvað ég með mína danshæfileika gæti dansað í staðinn. Inga Auðbjörg kom með þá frábæru hugmynd að kenna þeim stuðmannahoppið, það er svoldið traditional.
Ég ákvað að bera þessa hugmynd undir Rúnu og Línu í afmælinu á laugardaginn. Mér til mikillar undrunar höfðu þær og Una aldrei heyrt um stuðmannahoppið. Ég neyddist því til að kynna þennan gleðidans fyrir þeim og tók nokkur hopp um salinn. Það vakti mikla gleði og stelpurnur spreyttu sig líka á hoppinu góða.
Kannt þú stuðmannahoppið?

Wednesday 24 October 2007

Fyrr má nú vera

Það er byrjað að setja upp jólaskreytingar í bænum! Stórar skreytingar yfir aðalgötunni, svona sem eru strengdar á milli húsanna svipað og eru á Laugaveginum. Jólin eru skemmtileg og allt það en mér finnst full snemma verið að setja upp aðalskreytingarnar.

Kuldinn er farinn að bíta í kinnarnar, ég er búin að draga fram kápuna og ullarvettlingana frá ömmu. Hollendingar virðast ekki nota vettlinga, hef séð einn og einn með hanska en engann með svona ullarvettlinga. Kannski eins gott að ég tók ekki ullarhúfuna líka.
Áðan fórum við í bæinn og fórum meðal annars í íþróttabúð og mér til mikillar gleði fann ég skíðadeildina! Frekar skondið í flatasta landi heims og ennþá fyndnara hér undir sjávarmáli :Þ Ætli Hollendingar fari mikið á skíði? Ég veit að þeir eiga manngerðar brekkur og meira segja innhúss.

Fyrsta einkuninn komin í hús og hún var góð!

Sunday 21 October 2007

engisprettufaraldur haraldur

Að vísu bara tveir sniglar.
Skruppum út í gærkvöldi og hittum nokkra Grikki og þegar við komum heim voru tveir feitir sniglar í kapphlaupi á eldhúsgólfinu. Verst er að ég sá ummerki um óboðna gesti um daginn en fann þá ekki, spurning hvort þeir hafi verið í felum eða fyrri gestirnir farið út og þessir verið nýjir?
Við kíktum á stað sem heitir Linkse Kerk (vinstri kirkjan) og er víst hangout fyrir fólk eins og grænmetisætur og fólk sem klæðist ekki leðri (eins og Vera orðaði það). En staðurinn var áhugaverður. Frekar lítill og fullt af plöntum, næstum eins og að vera heima hjá einhverjum. Allir sem vinna þarna eru sjálfboðaliðar, allt lífrænt (já bjórinn líka) og er staðurinn svona non-profit dæmi, enginn græðir - ætli peningarnir fari ekki í að styrkja e-ð málefni.

Ég er sannarlega ekki hrakfallabálkurinn í bekknum.Eleni P. hafði tekist að hjóla fyrir bíl og var öll skökk og marin en fór samt út á lífið, seigt í þessum Grikkjum.

Er eiginlega alveg búin með Final Paper í Basic Theraputic Skills, sendi það inn í kvöld og þá eru tveir áfangar búnir, vúhú.

Það styttist óhugnalega í að mamma og pabbi koma sem þýðir að það er að koma nóvember. Ég sem er nýkomin og kann enn ekki hollensku. Hvað verður um allan þennan tíma?

Thursday 18 October 2007

Tengd

Já loksins er heimilið formlega nettengt. Fórum líka og keyptum e-ð tæki sem gerði router-inn að þráðlausu apparati til að losna við langar snúrur um alla íbúð.

Ein gríska stelpan spurði af hverju ég væri í "svona" jakka um daginn. Ég var sko þennan daginn í bláa Cintamani regnstakknum mínum sem mér hefur ekki fundist neitt undarleg klæði fyrr. Ég sagði að það væri af því ég hefði haldið að það væri að fara rigna þegar ég fór út um morguninn. Eitthvað fannst henni skrýtið að vera í sérstökum hlífðarfatnaði. Það hefur örugglega ekki bætt úr að ég var líka með Cintamani bakpoka undir bækurnar mínar og henni líklega fundist ég útbúin til fjallgöngu.

Í gær fóru ég, nokkrir Grikkir og fleiri Hollendingar út að borða til að fagna áfangalokum. Fólk var hresst en sumir ekki jafn hressir í tíma kl. 9 í morgun.
Ég gerði tvennt í fyrsta skipti á hjólinu í gær, hjólaði í pilsi og hjólaði heim af barnum. Það er ægilega þægilegt að hjóla svona á nóttinni, engir bílar og fólk að þvælast fyrir manni!

Tuesday 16 October 2007

Fiskur

Síðasta kvöldmáltíðin áður en við fluttum út var steiktur fiskur með nýjum íslenskum kartöflum að hætti Braga, pabba Jóns. Síðan þá hef ég ekki borðað fisk.
Í dag ætlaði ég að bæta úr því og hjólaði í Albert Hein (sem er fínasta/dýrasta verslunarkeðjan hér) því mér leist ekki á fiskinn sem ég sá í Digros (búðin sem ég fer venjulega í). Ég hafði líka frétt að þar væri hægt að fá íslenskan fisk. Það var sko rétt en helv... dýr var hann, tæpar 21 evrur kílóið! til samanburðar kosta kjúklingabringur 7,5 evrur kílóið. Þannig að ég get keypt 3 kíló af bringum eða 1 kíló af íslenska fisknum. Svo ég keypti kjúklingabita í matinn (ennþá ódýrara ;). Núna skil ég enn betur af hverju Rúnar Óskars dröslaði heilu frosnu fiskiblokkunum hingað frá Íslandi.

Í dag var síðasti tíminn í Basic Theraputic Skills, bara final paper eftir og á morgun er síðasti tíminn í Paradigms and Controversies in Health Psychology. Í tilefni af því er stefnan að hitta nokkra Grikki á eftir og fara svo út að borða á morgun með jú Grikkjunum og nokkrum Hollendingum. Ég er svo mikill minnihluti! ekki bara útlendingur heldur líka í minnihlutahópi á meðal útlendinganna...

Friday 12 October 2007

Innbrot

Í fyrrakvöld var brotist inn hjá stelpu sem er með mér í einum áfanga. Hún var að koma heim og sá tvo menn standa í herberginu sínu, kallaði e-ð til þeirra (bölvaði víst) og þá stukku þeir út um gluggann með fartölvuna hennar og myndavélina. Hún var skiljanlega í miklu sjokki í gær í skólanum. Úff greyið, öll verkefnin og allt í tölvunni.

Í kjölfarið heyrði ég fleiri innbrotssögur frá því í sumar og fyrravetur. Niðurstaðan úr sögunum var að það er verst að búa á jarðhæð, gaurarnir geta bara brotið gluggann og teygt sig í dótið.
Hressandi þar sem við búum á jarðhæð með risaglugga sem allir glápa inn um þegar þeir ganga um götuna. Við erum líka svo miklir Íslendingar að nokkru sinnum hefur gleymst að læsa bakdyrunum. En til að komast að þeim þarf maður að vísu að klifra upp á þak á öðru húsi og ganga smá eftir þakinu og klifra svo niður í portið okkar. Vona að enginn nenni að stunda það.
Ég er nú samt ekki algjör auli, passa alltaf að ganga frá tölvunni svo hún sjáist ekki frá glugganum þegar ég fer út og svo drögum við fyrir ef við förum út eftir kvöldmat svo það sjáist ekki að enginn er heima. Síðan held ég að umferðin fæli hugsanlega þjófa frá. Vonum það allavega, ég ætla ekki að verða nein taugahrúga yfir mögulegum innbrotum.

Í kjölfar jólapælinganna ákvað ég að spyrja tvær hollenskar bekkjarsystur mínar hvað væri hollenskur jólamatur og hvort það væru jólahlaðborð hér. Þær komu alveg af fjöllum með jólahlaðborðið (you know buffet with christmas food), Jón benti mér líka á að þetta er danskur siður. Það virðist heldur ekki vera neinn spes jólamatur hér, sumir borða hálfgert raclette, grill þar sem hver eldar sína bita en þeim datt ekkert í hug sem flestir hefðu á borðum.
Jón kom með þá pælingu að matur væri ekki svo mikið "issue" hjá Hollendingum, matur væri bara matur, ekki athöfn eins og oft hjá okkur (sérstaklega um jól og aðrar hátíðir). Kannski er það málið, útskýrir allavega allt þetta brauð með osti. Hvað er með þetta brauð með osti. Þetta er sko standard nesti í öll mál hjá Hollendingum.

Á morgun ætla Marielle og Wim að kíkja í heimsókn og spila við okkur. Það færir stuðstuðulinn aðeins upp á við, síðustu tvo laugardagskvöld hef ég verið að læra. Ég ætla líka að spyrja þau um hollenska jólamatinn og komast til botns í þessu máli.

Wednesday 10 October 2007

jólin

Í síðustu viku sá ég jóladót í V&D (magsín hér í Leiden) og líka á mánudaginn í IKEA. Undarlegt alveg. Áðan var ég svo að tala við Steinunni um flugið hennar hingað um jólin og þá fór ég að pæla hvað það væri margt sem ég myndi ekki gera í fyrsta skipti núna um jólin og þá væntanlega margt annað sem ég geri í fyrsta skipti.

Þetta verður í fyrsta skipti á ævinni sem ég verð ekki hjá mömmu og pabba og litla bróður og hitti ekki stóra bróður og frú.
Í fyrsta skipti í mjög mörg ár sem ég geri, fæ eða verð ekki:
- á Akureyri
- fæ skötu hjá Sigrúnu og Baldvin á Þorláksmessu
- hitti systur mömmu og co í kaffi á aðfangadagskvöld
- skreyti í Vestursíðunni
- föndra jólakort
- baka smákökur
- geri konfekt
- skoða brjálaðar jólaskreytingar
- sker út laufabrauð
- fæ laufabrauð yfirhöfuð
- fæ heimabakaðar smákökur
- fæ sandköku með karmellu
- fæ kornflexmarengs
- fæ heimagert konfekt
- fæ the jólamat með því sem tilheyrir
- fæ hangikjöt úr sveitinni eins og það er best (ekki úr búð)
- fer til Húsavíkur
- hitti hinar ömmurnar og afann
- hitti allt hitt fólkið á förnum vegi í jólastússi

En ég mun hlusta á jólamessuna klukkan sex, búa til heitt kakó, vona að ég fái einhvern jólapakka og helst líka jólakort og skal lesa einhverja bók fram á nótt á aðfangadagskvöld!

Tuesday 9 October 2007

Gleðigleðigleði

Ég er búin með kynninguna mína!
Tíminn var í gær og ég var fyrri af tveimur að kynna. Ég var mjög stressuð og gleymdi nú að segja sumt en í heildina var það bara ágætt held ég. Umræðurnar á eftir tóku á meiri smáatriðum en ég bjóst við en ég gat svarað öllu og umræðurnar voru mjög líflegar. Á eftir sögðu stelpurnar sem voru viðræðendurnir (?, er þetta orð? discussants) að það hefði verið mjög erfitt að finna e-ð til að setja út á og þess vegna hefðu þær þurft að draga líka upp smáatriði. En það var bara gaman að fá að ræða niðurstöðurnar sínar svona. Þá fékk ég líka tækifæri til að segja sumt að því sem ég hafði ekki tíma til að segja í kynningunni. Þótt ég hefði verið komin með leið á þessu efni (hafa sálfræðilegar íhlutanir/meðferðir áhrif á lífslíkur fólks með langvinna sjúkdóma eða hafa þær einungis áhrif á gæði lífs? og ég talaði um krabbamein) undir lokin þá er þetta mjög áhugavert. Ég þurfti að skera mikið niður af efninu sem ég var upphaflega með.

Kennarinn sagði að þetta hefði verið fínt hjá mér en ég yrði að passa að reyna ekki að koma of mikið af upplýsingum á framfæri, þá gæti maður t.d. farið að tala of hratt. Hún sagði líka að ég yrði að passa öndunina, ég hefði greinilega verið að passa að tala ekki of hratt og líka verið stressuð svo stundum hefði verið eins og ég þyrfti að draga djúpt andann til að slaka aðeins á. Allt satt og rétt og við vorum sammála að það væri mest reynsluleysinu að kenna.

Ég tók samt eftir að kennarinn var alltaf að skrifa e-ð á meðan ég var að kynna en þegar stelpan á eftir mér var að kynna sitt þá skrifaði hún mjög lítið. Síðan talaði kennarinn bara við mig eftir tímann ekki hina (ekki svo ég tæki eftir). Spurning hvort það sé gott eða vont. Ég er að minnsta kosti svo ótrúlega glöð að þetta sé búið. Núna eru allir á taugum yfir sínu en ég er búin! Vúhú

Til að fagna þessum gleðiáfanga á tók ég lestina til Jóns sem var í skólanum og við fórum í IKEA í Amsterdam. IKEA í höfuðborg þessa milljónalands er svipað að stærð og IKEA á litla Íslandi! Ég var búin að gera rosalista með því sem vantaði og svo fleiru sem mig langaði í. Keypti nú ekki nærri því allt sem var á listanum, það eru takmörk fyrir því sem maður getur borið heim. Hátíðarkvöldverðurinn var kjötbollur með brúnni sósu og við keyptum líka kjötbollur, til að hafa með heim, á sænska matartorginu.

Aðalfréttirnar eru samt að mamma og pabbi eru að koma í heimsókn 1. nóvember! Það verður sko ótrúlega gott að fá þau og ég verð að tala við Grikkina mína um skipulagningu til að ég geti verið sem mest laust þessa helgi. Nú hefst ægileg skipulagning og að sjálfsögðu er ég byrjuð að hugsa um listann yfir það sem ég ætla að biðja um að fá úr geymslunni góðu.

Smá drama í lokin: gríska stelpan sem ætlaði að hætta en hætti við, er núna hætt. Hún flýgur víst heim í dag. Leiðinlegt en örugglega betra fyrir hana. Vona bara að henni líði betur.

Saturday 6 October 2007

Sól

Þá er sól og blíða í dag. Tókum smá pásu frá tölvunni áðan og röltum niður í bæ í góða veðrinu.

Tilgangurinn var að fara í símabúðina og kvarta yfir að netið sem átti að byrja að virka á fimmtudaginn er ennþá ekki í lagi. En við gleymdum bréfinu heima og vorum því ekki með klantnummer.
Við pöntuðum net í gegnum Orange en fyrst þurfti kpn (ríkissímafyrirtækið) að opna eða tengja línuna. Það átti að gerast á fimmtudaginn og Jón þorði ekki út úr húsi allan daginn en enginn kom. Enda efast ég um að þeir þurfi e-ð að koma inn í íbúðina. Síðan ætla þeir að koma 17. okt til að mæla línuna. Ekki veit ég hver tilgangurinn er með því.
Best er svo að orange er búin að senda okkur tvo routera! held nú að einn sé nóg. Mínusinn er að þetta virðist ekki vera þráðlaust apparat. Við góðu vana fólk gerðum bara ráð fyrir því! best að fá netið til að virka áður en maður fer að vesenast í að gera þetta þráðlaust.

Hausverkur helgarinnar er að klára kynninguna sem ég á að flytja á mánudaginn og æfa hana í drep. Ég æfði mig aðeins áðan til að sjá hvað hún er löng hjá mér núna. Ég gafst upp þegar ég var búin að tala í 20 mín. Að hugsa sér, ég gafst upp á að tala! þetta er mun erfiðara á ensku og með fullt af erfiðum orðum. Ég þarf að tala í 30-40 mín á mánudaginn svo það er eins gott að æfa sig. Greyið Jón og nágrannarnir þurfa líklega að hlusta nokkru sinnum á predikuninna (var sko úti áðan að æfa mig).

Svo þarf ég líka að skila inn skýrslu í therapista áfanganum. Núna erum við byrjuð að taka hvort annað í viðtöl og eigum að tala um eigin vandamál. Tíminn var tekinn út á band og ég er búin að vera hlusta á sjálfa mig tala við "sjúklinginn" minn og skrifa orðrétt niður fyrir skýrsluna. Ég þyki víst afar þolinmóður og rólegur þerapisti, fólk róast niður við að tala við mig. Það segja allavega krakkarnir sem hafa verið hjá mér í "tíma".
Haha þið sem haldið að það séuð alltaf læti í mér!

Friday 5 October 2007

Hátíð í bæ

Í vikunni var Leiden Ontzet, hátíð til að fagna því að spænsku herinn fór (fyrir löngulöngu síðan). Ballið byrjaði á þriðudagseftirmiðdag. Bærinn var fullur af tívolítækjum af öllum stærðum og gerðum og sölubásum með öllu mögulegu, t.d. sokkum, nammi, pottaplöntum og meira að segja klósettsetum! Var að hugsa að kaupa eina handa Möggu með höfrungamyndum.

Veitingastaðir og barir voru búnir að tjalda fyrir utan staðina og margir buðu upp á tónlistaratriði, og svo auðvitað mat og bjór. Svo voru líka matar- og bjórvagnar sem tengdust engum veitingastöðum út um allt. Á þriðjudagskvöldið röltum við aðeins um en mannmergðin var ótrúleg og erfitt að stoppa og sjá atriðin. Flestar hljómsveitirnar voru cover bönd svo við þekktum oftast lögin. Skemmtilegt var þó þegar hollensku slagararnir byrjuðu og allir sungu með nema við. Ég var þó fljót að ná einu lagi, viðlagið var svona: dansi, dansi, dansi, dansi. Ekki flókið það.

Við sáum skrúðgöngu og mér finnst alltaf gaman að horfa á góða skrúðgöngu. Þessi var nú skondin, öll möguleg félög voru í göngunni, íþróttafélög, skátar, lúðrasveitir og einhverjir klúbbar sem ég fattaði nú ekki hvað var. Það var greinilegt að margir lögðu mikið í sitt atriði, íþróttafélögin voru gjarnan í búningum með dót tengt sinni íþrótt. Borðtennisfélagið rúllaði t.d. borðtennisborði með sér í göngunni og fimleikastelpur stukku allskonar stökk. Þetta voru aðallega krakkar og unglingar og þjálfararnir þeirra. Skemmtilegt að hafa allskonar hópa með en þessi ganga var líka mjög löng, við sáum bara part.

Á miðvikudaginn var fjör allan daginn. Þrátt fyrir verkefnaskil var ekki hægt að sleppa því að fara aðeins í bæinn um daginn. Samkvæmt hefðinni á maður að borða haring (síld) og hvítt brauð því það var það eina sem var til þegar Spánverjarnir fóru (eða hvort nágrannarnir komu með þetta, man þetta ekki alveg). Ef maður er Leiden búi þá fær maður svona góðgæti frítt en við hin þurfum að borga. Við lögðum nú ekki í þetta, prófaði oliebollen í staðinn. Það er eins og ástarpungur í útliti en ekki jafn gott. Svo fengum við líka í fyrsta skipti franskar í pappírskeilu með góðri slumpu af majónesi með. Það er sko ekta hollenskt!

Að sjálfsögðu þurftum við að kíkja aðeins í tívolí. Við fórum í parísarhjólið og fengum ágætis útsýni yfir bæinn. Eftir það „fundum“ við aðra skrúðgöngu í miðbænum. Þessi var enn flottari en kvöldið áður. Ég gat þó ekki áttað mig á hvaða fólk var í göngunni, leit út eins og einhverjir leikklúbbar. Á undan hverju atriði keyrði bíl með skilti sem stóð á hvert þema atriðsins var, t.d. sound of music, 007, vikudagarnir, framtíðin, dans og svo fleira, sumt skildi ég nú ekki. En þetta var rosalega flott og mikið lagt í búningana, ég reyndi að taka myndir (heppnaðist misvel, maður sá mis mikið fyrir aftan þessa hávöxnu Hollendinga) og set þær seinna á netið. Svo voru aðvitað lúðrasveitir á milli. Ein var ótrúlega flott, við erum að tala um sexfaldar raðir, 18 trompeta, 4 pikkaló, 12 flautur og 6 túbur! (Og svo auðvitað fullt af öðrum hljóðfærum en bara svona til að lúðrasveitanördin skilji hvað ég er að meina) Magnað! En fyndnast fannst mér að þegar sveitin stoppaði þá drógu þeir bara upp sígó og nesti. Smá pása.

Um kvöldið hélt fjörið áfram og við kíktum aðeins, fundum út að það var best að vera hér í næstu götu þar sem er fullt af veitingastöðum. Þar voru bönd að spila og ekki eins hrikalega troðið eins og í miðbænum. Þið takið bara frá 2.-3. október á næsta ári og komið á Leiden Ontzet!

Monday 1 October 2007

Eigðu góðan mánuð

Á Grikklandi óskar maður fólki góðs mánaðar, fyrsta hvers mánaðar. Þetta lærði ég í dag. Grikkir óska manni allskonar góðs, t.d. ef maður er að fara í bað þá segir maður eigðu gott bað (að vísu hafa engir Grikkir verið viðstaddir þegar ég fer í bað). En þeir segja svona barasta við öll möguleg tækifæri. Skemmtilegt!
Á laugardaginn fór ég aftur á sjúkrahúsið að leita að bókasafninu. Fann það eftir langa göngu um gangana sem ég rata ekki um. Fór í einhverja lyftu þar sem fólkið hneykslaðist á mér fyrir að taka lyftuna upp á næstu hæð (þetta skildi ég á hollensku) en ég sá engan stiga en gat ekki svarað fyrir mig svo ég brosti bara!
Á eftir fór ég í búðina og þar var gömul kona að spjalla við alla í röðinni og kinkaði kolli til mín af og til, var greinilega að bíða eftir að ég myndi leggja orð í belg. En ég bara brosti. Held að það sé besta ráðið þar til ég get farið að tala við fólk.

Laugardagurinn fór svo í lærdóm fram á kvöld af því við áttum von á gesti á sunnudag.
Á sunnudaginn hittum við Judith, hollenskan skáta sem Jón þekkir, og hún sýndi okkur stóru vindmylluna. Hún vann þar einu sinni svo við fengum frítt inn og einkaleiðsögumann. Ekki slæmt. Síðan kom Inga frá Rotterdam, skoðaði aðeins mylluna og svo fórum við öll á kaffihús.
Inga er skáti frá Íslandi sem er að læra í Rotterdam. Hún er búin að hóta því að koma oft í heimsókn sem er bara hið besta mál. Síðan er nauðsynlegt fyrir okkur að fara í menningarheimsóknir til annarra borga!

Í gær hitti ég líka grísku stelpurnar í hópnum mínum. Þær voru hressar, fékk t.d. að heyra sögur af grísku stelpunni sem ætlaði að hætta en hætti svo ekki og eru greinilega margir orðnir þreyttir að hlusta á vælið í henni (eins og þær orðuðu það). Greyið stelpan...

Framundan eru mikil hátíðarhöld í bænum.
Þann 3.október fyrir löngulöngu síðan losnuðu Leiden-búar við spænska herinn og því er fagnað ógurlega. Um helgina hafa risið tívolítæki og tjöld og það verður greinilega nóg um að vera.
Ég þarf þó að skila verkefni á fimmutdaginn en vonandi gengur það vel svo ég missi ekki af neinu!

Friday 28 September 2007

að hjóla, framhald

Það er svo skemmtilegt hér í Hollandi að það hjóla allir. Þá meina ég fólk á öllum aldri, afar, ömmur, miðaldra bissnesskarlar með skjalatöskur og konur í drögtum og háum hælum.
Fólk reiðir hvort annað líka á öllum aldri, mér finnst skemmtileg tilhugsun að sjá fyrir mér mömmu og systur hennar sitja á bögglaberanum hjá mönnunum sínum!
Hér situr fólk ekki (nema afarlítill minnihluti) klofvega á bögglaberanum heldur á hlið, eins og í söðli.

Þegar Eva kom í síðustu viku þá tók Morgunblaðið með sér í flugvélinni. Þessi moggi er búinn að endast ótrúlega vel. Ég held að ég hafi aldrei lesið sama eintak af dagblaði jafnoft. Enda er ég búin að lesa um ýmislegt sem ég hefði ekki nennt að gera heima, t.d. um fjármálaráðherra Frakklands, fjölbreytileika íslenskra fyrirtækja á Írlandi, innflytjendabókmenntir, lesendabréf og um íslenska fótboltamenn í útlöndum. Stefán Þórðarson er víst að koma heim, ekki vissi ég hver hann var eða að hann væri ekki á Íslandi þessi maður! Það er svo heimilislegt að gera flett mogganum á meðan maður borðar morgun- eða hádegismatinn.

Eva kom líka með harðfisk og smjör. Ég var eiginlega búin að gleyma hvað það væri gott. Ég keypti mjög sjaldan harðfisk heima á Íslandi. Svona fer mann að langa í það sem maður getur ekki fengið!

Ég skilaði enn einu verkefninu í dag. Aldrei friður, ég hef þurft að skila tveimur verkefnum á viku frá því ég byrjaði. Núna er fjórða vika búin og stuttu áfangarnir því hálfnaðir. Eftir rétt rúma viku á ég að kynna verkefnið mitt í einum áfanganum, tala í hálftíma og síðan svara spurningum úr sal í um 15-20 mín. Ég þarf að vera búin að senda gögnin mín og kynninguna mína til spyrjendanna fyrirfram svo þeir geti undirbúið sig. Þetta verður fróðlegt. Ég er fyrst í röðinni og verð því að vera búin með allt fyrst af öllum. Bæði kostur og galli, gott að vera búin en það þýðir að ég verð að vera dugleg um helgina. Kennaranum fannst ég vera búin að finna svo góðar greinar í undirbúningsvinnunni og bað mig um að byrja. Maður segir víst ekki nei við kennarann.

Áðan var ég að leita að grein sem mig vantar fyrir þetta verkefni. Hún er ekki fáanleg á netinu, svo ég fór á bókasafnið. Þá mátti ég ekki fara inn með töskuna mína en ég átti ekki pening til að setja dótið í skápa eins og á að gera. Því fór ég niður í bæ, í hraðbanka, keypti penna sem mig vantaði og aftur í skólann með pening. En þá kom í ljós að tímaritið sem greinin er í er ekki á þessu bókasafni heldur læknanemabókasafninu. Sem betur fer er sú deild stutt frá. Ég hjólaði þangað en þegar ég kom inn í bygginguna þá sá ég að þetta er alvöru sjúkrahús. Allavega ekki bara læknaskóli. Ég rölti um til að leita að bókasafninu. Fann ekkert bókasafn en í staðinn mötuneyti, hárgreiðslustofu, blómabúð, bókabúð og Body Shop. Flott sjúkrahús!

Tuesday 25 September 2007

að hjóla

Hollendingarnir gera allt á hjólinu sínu. Þeir borða, drekka, reykja, tala í símann og halda á regnhlífinni í annrri á meðan þeir hjóla.
Einu sinni sá ég konu hjóla með annan handlegginn í fatla og svo hjóla þeir að sjálfsögðu með bjórinn og matinn heim úr búðinni. Það þykir ekkert tiltökumál að hjóla með nokkur börn á hjólinu, sé oft eitt við stýrið og annað fyrir aftan sætið og sumir eiga spes hjóla með trévagni framan á og hef ég séð mann með þrjú börn og innkaupapoka í slíkum vagni.
Eva sá fólk um helgina flytja dýnu á hjólunum sínum og í dag sá ég stráka ferja innkaupin úr IKEA á hjólinu.

Það er komið haust í Leiden, laufin og hnetuhylkin með göddunum á (veit ekki hvað það heitir) detta af trjánum, það hefur kólnað og rigningin er endalaus. Hlussurigning sem gegnbleytir mann á stuttum tíma. Með haustinu fylgir ný tíska, í dag sá ég nefnilega stelpu í hvítum frystihússtígvélum. Kannski er það eina vitið?

Ingi og Eva fóru heim í gær og enginn lengur til að tala íslensku við nema Jón. Eins gott að við höfum nóg að tala um, ekki hafa áhyggjur af því. Grikkirnir reyna ennþá stundum að tala við mig á grísku, kannski ég fari í grískutíma til að ná öllu slúðrinu.

Eva kom með fullt af dóti svo núna er gestafært (komin vindsæng) og ég get skriðið undir teppið frá mömmu á meðan ég les. Sem er einmitt það sem ég ætla að gera núna!

Saturday 22 September 2007

Takk fyrir batakveðjurnar! held að ekkert hafi borið varanlegan skaða í þessum látum nema greyið hjólið. En það er nú í lagi.
Þið þurfið nú ekki að hafa áhyggjur að ég taki upp hollenska siði þegar kemur að kökum og afmælisboðum. Það yrði nú saga til næsta bæjar (eða lands).

Á fimmtudaginn kom Eva til Leiden og í gær kom Ingi.
Á fimmtudag förum við út að borða með hluta af bekknum mínum og í partý í skólanum. Hinn hlutinn ætlaði að koma en var svo stressaður yfir verkefninu sem við skiluðum í gær að þeir gátu ekki gefið sér tíma til að borða. Greyin. Ég ber mig að sjálfsögðu vel og þykist ekkert stressuð. Vakti bara lengur á miðvikudaginn til að hafa þetta af.

Ein gríska stelpan var mjög hissa að Eva hafi komið alla leið frá Íslandi í heimsókn til mín. Ég vissi ekki hvort ég ætti að vera móðguð en svo komst ég að því að hún hélt að það tæki ægilega langan tíma að komast hingað ALLA leið frá Íslandi. Ísland er jú á hjara veraldar.

Deildinni minni var breytt í skemmtistað á fimmtudaginn. Margt skemmtilegt var í boði, t.d. bítlaband, diskótek, jazzband, póker, karókí, sólstrandarstemming, ódýrir drykkir og ávextir og súkkulaðigosbrunnur! Við (ég, Eva og Jón) skemmtum okkur með tveimur hollenskum stelpum úr bekknum og amerískum vini annarrar þeirra (hinir voru heima að læra). Við hlustuðum á skondnar konur syngja hollenska slagara í karókíinu, dönsuðum við kennara (allir mættu í partý, kennarar, starfsfólk og nemendur) og smökkuðum auðvitað á súkkulaðinu.

Í gær fór ég í hlutverk leiðsögumanns og dró gestina um Leiden en komst að því að ég gat svarað afar fáum spurningum. Held að ég þurfi að bæta úr þessu áður en fleiri mæta á svæðið (nefni engan sérstakan..).

Í morgun fór ég með Evu og Inga á markaðinn og við tókum út fiskinn og sírópsvöfflurnar. Þau tóku svo lestina til Amsterdam, Jón Ingvar er á skátaráðstefnu að kynna íslenskt mót og ég að reyna að gera mitt besta í lærdómnum. Verkefnaskil eftir helgi og engin undanþága þótt maður sé með gesti.

Wednesday 19 September 2007

STÓRSLYS!

Ég lenti í hjólaslysi í gær. Alvöru hjólaslysi meira að segja.
Ég var á leiðinni í skólann, það var smá úði en þegar ég var búin að hjóla nokkra metra bætti hressilega í rigninguna og það var eins og hellt úr fötu. Á leiðinni í skólann þarf ég að fara undir brú og þar var fólk að bíða, hélt greinilega að það myndi stytta upp. Ég ákvað að bíða líka en hugsaði með mér eftir smá stund að ég væri hvort sem er orðin blaut og ákvað því að halda áfram. Í körfunni framan á hjólinu var ég með tösku/poka með bókunum í, bækurnar byrjaðar að blotna svo ég ákvað að reyna að setja plastpoka yfir til að bjarga málunum.
Svo held ég áfram nema þá fýkur plastpokinn af, ég reyni að laga þetta með annarri hendinni en missi stjórn á hjólinu á rennblauta veginum.
(Til að útskýra nánar þá er hjólavegur við hliðina á bílaveginum og vegrið á milli á þessum stað vegna hæðarmismunar, sem sagt hjólavegurinn liggur aðeins ofar en bílavegurinn.)
Ég er nú ekki alveg viss hvað gerðist nákvæmlega en ég flýg yfir vegriðið og niður á bílaveginn með hjólið og allt með mér.
Ég fékk nett panik kast liggjandi þarna í götunni, hélt að ég væri stórslösuð, pottþétt með gat á hausnum og myndi missa af fundinum sem ég var að fara á og tímanum seinna um daginn og hugsaði að ég kynni ekkert að fara til læknis og Jón væri ekki heima og hvað hefði eiginlega gerst ef strætó hefði verið að koma?
Mér tókst þó að skrölta á fætur, reyndi að halda andlitinu (gekk mjög illa), tala við fólkið sem var þarna um að það væri í lagi með mig (fann allavega ekkert blóð og gat labbað) og hjólaði aftur heim þar sem ég var gegnblaut frá toppi til táar. Hjólið mitt rispað, karfan beygluð og fötin skítug og blaut.
Ég rétt hafði tíma til að skipta um föt, reyna að róa sjálfa mig niður og koma mér í skólann til að fara á fund með mentornum mínum, henni Chris.
Þegar ég kom til hennar var ég greinilega ekki búin að ná mér og þegar hún spurði hvernig ég hefði það þá fór ég bara að skæla yfir öllu saman! Laglegur fundur það. En svo spjölluðum við um námið og mín plön um framtíðina og svona. Hún bauðst til að fara með mig til læknis en ég ákvað að þess þyrfti nú ekki.
Þvílíkt drama!

Afleiðingarnar voru hausverkur í allan gærdag, marblettur á löpp, rispa á baki, afar stíf og aum
öxl og myndarleg kúla á haus.

En meira drama, mér var sagt í gær að ein gríska stelpan ætlar að hætta í náminu. Henni finnst þetta svo erfitt og mikið álag. Það er búið að vera mikið af skilaverkefnum og kynningum og henni finnst líka hún ekki geta komið efninu frá sér á ensku eins og hún vill. Hún er hætt að sofa fyrir stressi og ég veit ekki hvað og hvað.
Hún var í viðtölum og e-ð í gær á meðan við vorum í tíma en svo ætluðu nokkrir krakkar að hitta hana og heyra í henni hljóðið. Ég frétti á morgun hvernig þetta mál hefur endað.

Við Jón fórum aftur á móti í afmæli til Wim í gærkvöldi. Hér í Hollandi er ekki verið að troða í mann veitingum, nei, þú færð eina kökusneið. Ég var búin að heyra þetta frá Íslendingum sem búa hér og þetta passaði. Jú svo voru flögur í skál.

Sunday 16 September 2007

helgin

Á föstudaginn fórum við á þjóðhátíð í Delft. Þar hittust um 15 Íslendingar (og 3 Hollendingar), flestir sem búa þar eða eru í skóla þar. Borðuðum og drukkum en þegar liðið byrjaði að syngja Sókrates urðu Hollendingarnir skrýtnir á svipinn og enduðu á því að slökkva á laginu!
Gaman að hitta aðra Íslendinga en væri skemmtilegt að hafa einhverja nær okkur. En aldrei að vita hvort maður hitti þetta lið aftur.

Í gær var sól og blíða svo við röltum niður í bæ á markaðinn. Ég hef ekki séð svona mikið af fólki þar síðan við komum. Lét nægja að kaupa jarðaber og horfa á allt dótið.

Um helgina er síðasta helgin sem er opið í vindmyllunni sem er hér rétt hjá. Við förum upp í hana í gær og í dag var slúttið. Þá kom lúðrasveit að spila og við mættum að sjálfsögðu til að taka hana út. Hún var bara nokkuð góð en vantaði nú svoldið kraft að okkar mati!
Við sáum nú líka lúðrasveit í gær sem var að pakka saman. Það var verið að kynna allskonar félags- og sjálfboðaliðastörf (ef því sem ég best skildi) í bænum og við tókum bækling um sveitina. Sú sveit virðist nú bara kunna marsa og polka. Jón fann aðra á netinu sem okkur líst ágætlega á og bíðum við bara eftir að fá svar við tölvupósti. Kannski megum við vera með!

Næsta fimmtudag ætlar Eva að koma í heimsókn. Á meðan hún verður hjá okkur verður akkúrat mánuður síðan við komum! Það kallar á hátíðarhöld:)
Ég ætla að nýta mér ferðina og fá smá dót úr geymslunni minni. Verst að ég pakkaði öllu svo vel niður, annars hefði verið fínt að fá rifjárn, ausu, desilítramál og önnur smáleg eldhúsáhöld.
Ég ætlaði að vera rosalega dugleg að læra um helgina til að vinna í haginn áður en Eva kemur en það hefur e-ð farið ofan garð og neðan. Ojæja...

Friday 14 September 2007

Er það nú!

Í nótt geymdi ég hjólið mitt fyrir framan húsið en ekki í einka garðportinu okkar eins og venjulega. Þegar ég fór út í morgun var hjólið mitt á sínum stað, var svoldið stressuð um að því yrði stolið, og þá hafði einhver sett tóma bjórdós í körfuna mína! Eins og karfan mín sé einhver ruslakarfa!

Í síðustu búðarferð var tilboð á bjór sem þótti nauðsynlegt að skella sér á. Þegar matnum og bjórnum var púslað í bakpoka og á hjólin kom í ljós að það var svo lint í afturdekkinu hans Jóns að hann gat ekki haft bjórkassann á sínu hjóli. Þá voru góð ráð dýr, átti hann að leiða hjólið heim með kassann á bögglaberanum eða átti ég að reyna að koma kassanum í heilu lagi heim? Einn liður í að samlagast hollensku samfélagi er að geta hjólað heim með bjórinn á bögglaberanum svo ég hefði ekkert val. Ég varð að koma kassanum heim. Til viðmiðunar þá hjólaði Jón með hálfan kassa heim í síðustu bjórkaupum.

Fyrstu metrarnir voru ansi skrykkjóttir og varð ég einu sinni að svína á tvo stráka til að missa ekki jafnvægið. Þeim fannst ég greinilega mjög fyndin og kölluðu e-ð til mín og hlógu ægilega. Mikið vildi ég að ég hefði skilið þá.
En með gríðarlegri einbeitingu komst ég í gegnum þessa þolraun! Um helgina verð ég að smakka á þessum bjór sem kostaði bjór, svita og tár (og minna en þúsund kall).


Í búðinni var líka vikutilboð á kíví. Í okkar súpermarkaði er ekki hægt að velja sér það magn af ávöxtum sem maður vill, maður verður að kaupa eitt kíló í einu. Ef maður vill minna magn í einu þarf maður að fara í fínni búðir til þess. Þess vegna hefur ávaxtaát aukist eftir að ég flutti út, þótt ég kaupi bara eina tegund í einu. Ég þarf að klára kassann áður en allt skemmist og hef því borðað fleiri kíví í vikunni en allavega síðasta hálfa árið til samans.

Það er greinilegt að fólk breytist ekkert mjög mikið við að flytja til annarra landa. Matur er enn mjög mikilvægur hjá mér og Jón er ekki hættur að kaupa bjór.


P.S. ef einhver er í vandræðum með að kommenta þá er auðveldast að haka í "other" hægra megin í glugganum á þá er hægt að skrifa nafnið sitt þar.

P.P.S. ég á mynd af mér með kassann á bögglaberanum en tókst ekki að setja hana hér inn, það bíður betri tíma. Nágrannarnir halda líklega að við séum skrýtin að taka myndir af okkur að koma heim úr búðinni.

Sunday 9 September 2007

Ég er hýr og ég er rjóð

Jón er kominn heim! er lagið ekki einhvern veginn svona?
Hann komst klakklaust heim, flaug frá Þýskalandi til Hollands. Það er nú eiginlega bara innanlandsflug:)

Ég er búin að sitja yfir bókunum og reyna að berja saman smá verkefni. Mikið fjör að lesa um af hverju fólk notar ekki smokk. Endalaust hægt að lesa um það skal ég segja ykkur.

Í kvöld var réttur hússins: hakk og spaghettí. Um daginn var tilboð á hakki í búðinni og hagsýna húsmóðirin keypti að sjálfsögðu nokkra bakka og skellti í frost. Svo sullar maður þessu saman við pastasósu úr krukku og volá, fínasta bolognese! En það má fara að íhuga að gera aðra rétti úr hakkinu;)
Hér í útlöndum er líka kvöldmatarumgjörðin flottari en heima á Íslandi. Það er lagt á borð með diskamottum, kveikt á kertum og dinnermúsík. Og vaskað strax upp eftir matinn...

Saturday 8 September 2007

Ein heima

Um helgina er ég ein heim hér í Leiden. Jón fór á skátafund í Þýskalandi svo ég þarf að passa lyklana mína extra vel. Mér hefur nú ekki enn tekist að gleyma þeim neins staðar eins og heima. Stundum skildi ég bara lyklana eftir í skránni í Furugrundinni, það gengur nú ekki hér. Í gær tékkaði ég sérstaklega hvort ég hefði ekki örugglega læst öllum hurðum áður en ég fór að sofa.

Mér leiðist nú ekki þótt ég sé heima. Ég er að reyna að lesa það sem ég ætti að klára í síðustu viku og svo þarf ég að skila verkefni á þriðjudaginn. Það er hópverkefni en ég er núna að vinna að minni spurningu hér heima.
Ég hitti grísku hópfélagana mína í morgun og við skiptum með okkur verkum. Eftir að hafa fengið tölvupóst frá kennaranum sáum við að þetta er stærra verkefni en við héldum eða 5-10 bls. Hvað er málið að þurfa að skila verkefni strax í öðrum tíma?

Grísku stelpurnar er fínar og spyrja um ýmislegt tengt Íslandi. Ein er til dæmis alveg hneyksluð að við skulum synda í útisundlaugum á veturna. Alveg sama þótt vatnið sé heitt, þessi hitamismunur hlýtur að vera hættulegur!
Svo er vodkadrykkurinn Ursus mikið auglýstur í Grikklandi sem "the surprise from Iceland", auglýsingin sýnir fólk dansa og snjóinn fyrir utan. Ég kom nú alveg að fjöllum og hef aldrei séð þennan rauða drykk, það fannst þeim drepfyndið. Hafið þið heyrt um þennan drykk?

Grikkirnir í bekknum er líka alveg að ná nafninu mínu en ein vill endilega kalla mig Al eða Alf. Mér líst nú allavega ekki á Alf, man bara eftir loðinni geimveru í sjónvarpsþætti fyrir löngu sem hét Alf. Best að vera ekkert að tengja sig við svoleiðis...

Í lokin samtal við strák frá Suður-Kóreu:
Hann: what's your name?
Ég: Álfheiður
H: what?
É: Álfheiður
H: ó
H: and where are you from?
É: Iceland
H: Ireland?
É: no, Iceland
H: where is that?
É: it's a small island in the north Atlantic, not far from Greenland
H: ó

Greyið...ég gæti alveg eins hafa sagst heita Maraparasúkulátilí og vera frá Norðurpólnum.

Tuesday 4 September 2007

Brjálað að gera

Núna er allt komin á full swing í skólanum. Kannski fullmikið swing...

Í dag var í fyrirlestur 9-11, annar 11-13, workgroup 13:30-16 svo velcome drink frá 17-19! Fyrst átti meira segja workgroup frá 13-17 en sem betur fer fengum við hálftímapásu í hádeginu og svo stóð vitlaust á netinu að tíminn ætii að vera til fimm.

Í morgun fór ég í Health Promotion and Disease Prevention. Það var skemmtilegur tími en það tekur virkilega á að meðtaka allt á ensku. Maður þarf ennþá meiri athygli en venjulega sem getur verið erfitt 45 mín í einu. Í þeim áfanga eigum við t.d. að búa til okkar eigið fræðsluprógramm sem við förum með inn í skóla. Ég og nokkrar grískar stelpur munum fræða unglinga um öruggt kynlíf (safe sex). Spennandi að gera verkefni sem er notað í alvörunni en ekki bara á blaði sem endar í skúffu hjá einhverjum prófessor.

Síðan fór ég í Basic theraputic skills sem á að kenna manna að vera þerapisti, þ.e. hlusta og humma á réttum stöðum. Nei segi svona. En fyrirlesturinn var mjög klínískt miðaður, sem sagt beint að þeim sem eru í klínískri sálfræði. Sumt sem prófessorinn sagði er nú ekki í samræmi við það sem ég lærði í HÍ en best að fara ekki nánar út í það hér. Nema einhverjir með gríðarlegan áhuga gefi sig fram;)

Eftir hádegi fór í í Basic theraputic skills workgroup. Eins og í öðrum workgroup-um sem ég er í samanstendur hópurinn nokkurn veginn af mér og hópi af Grikkjum. Gaman að því. Í þessum hópi er að vísu líka tveir Hollendingar og ein stelpa frá Brasilíu. Í þessum hópi verður mikið af roleplay og æfingar í að vera sjúklingur og þerapisti. Svo á ég að skrifa dagbók um hvernig ég þróast sem þerapisti og um hvernig gengur í hópnum og stöðu mína í hópnum. Ægilega mikið reflectað. Ekki alveg minn tebolli en maður verður að vera jákvæður og sjá hvernig þetta fer:)

Í velkomin-drykknum hittust nokkrir kennarar og nemendur og spjölluðu. Það var fínt, aðallega erlendir stúdentar sem mættu (sem ég hef hitt áður) og ég hef hitt tvo af fjórum kennurunum. En gott að hitta fólk og þekkja það aðeins betur.

Í gær var upplýsingafundur og stöðupróf í tölfræði.

Það var ekki skylda fyrir mig að mæta í prófið af því það var ekki krafa um að ég tæki undirbúningsnámskeiðið. Okkur var samt ráðlagt að fara til að sjá hvar við stöndum svo ég mætti. Ég er nú ekki búin að fá niðurstöðurnar en Chris, kennari sem ég hitti áðan, sagði að hún hefði fengið þær og að ég hafi fengið 7 eða 7,5 og væri meðal þeirra efstu. Gott hjá mér:)

En prófið var nú ekki erfitt og sumt sem ég hefði átt að geta. Chris sagði að prófið hefði verið einfalt og það væri krafist mun meira af okkur.

Það er svoldið langt síðan ég var síðast í tölfræðiáfanga svo ég er að pæla hvort ég ætti að fara í áfangann. Mér veitir ekki af upprifjuninni en þetta er aukaáfangi sem er tvö kvöld í viku alla önnina. Ég hef svo sem nóg annað að gera en alltaf gott að vera með hlutina á hreinu. Hvað ætti ég að gera?


Það var líka rosaspenna í götunni okkar í gær. Þegar ég fór út kl. 15 var undercover löggan mætt að spjalla við dópistana. Þegar ég kom heim rúmlega 16:30 voru meira af fólki mætt og slökkviliðið líka. Þeir voru nú samt bara á fólksbíl svo ég giska á að þetta hafi verið brunavarnareftirlitið. Svo fór ég í prófið, ennþá fólk á svæðinu og þegar ég kom heim milli sjö og átta var búið að negla fyrir hurðina og löggan að láta nágrannana vita. Þeir sögðu víst Jóni að þeir væru að losa okkur við "óæskilega nágranna".

Ætli lögguhasarinn sé ekki búin í bili...

Á morgun er planið að fara á pósthúsið og sækja það sem ég er að vona að sé bankakortið mitt. Síðan þarf ég að fara og kaupa bækur í skólanum. Þar er ekki hægt að borga með reiðufé, þess vegna er ég ekki búin að redda mér bókum, ekki bara skussaskapur!

Sunday 2 September 2007

Löggan mætt á svæðið

Já tveir löggubílar og mótorhjól takk fyrir.
Við sátum hér í rólegheitum og heyrðum einhver læti og sáum svo gaur koma hlaupandi eftir þakinu á bakvið (fyrir ofan garðportið okkar) og fyrir framan sáum við löggurnar.
Vitum svo sem ekki mikið hvað er um að vera en Jón varð var við einhver læti í nótt hér við hliðina. Kannski var viagra gaurinn með partý.
Núna er löggan búin að vera hér í meira en hálftíma og ég bara vona að liðið í subbulegu íbúðinni verði hreinsað út eða hafi hægt um sig. Ekki að það hafi verið neitt að bögga okkar neitt. Svona fyrir utan viagra söluna.

Á fimmtudag og föstudag voru introduction days. Þá fór ég á kynningu hjá deildinni minni, fyrirlestur um hollenska menningu, bæjarrölt, bátsferð, á safn og á pöbbarölt.
Það var rosalega margir erlendir stúdentar og alltaf verið að skipta í hópa fyrsta daginn og þar af leiðandi var maður alltaf að hitta nýtt fólk. Hitti þó nokkra skemmtilega krakka en bara eina stelpu sem er með mér í sálfræðinni.

Asíukrakkarnir eru mjög áhugasamir um Ísland og spyrja um flóknari hluti en ég get svarað. T.d. um muninn á Evrópusambandinu og EES, af hverju göngum við ekki í Evrópusambandið, af hverju er allt svona dýrt á Íslandi? Hvernig á ég að vita það?

Það var mjög gaman að hitta strák frá Nýfundnalandi eða Newfinnland eins og hann sagði. Greinilega margt svipað þar og á Íslandi. Svo var R.J. frá Kanada í hokkýpeysu og ég að sjálfsögðu þekkti CCM (eða CMM?) og gat byrjað að spjalla um hokký. En ég veit svo sem ekkert um hokký en eins og alltaf þegar ég þarf að tala um íþróttir þá vitnaði ég bara í Steinunni villt og galið (takk Steinunn).

Í gær fórum við á markaðinn og keyptum jarðaber og hindber mmm. Þar er líka hægt að kaupa kjöt og fisk, osta, grænmeti, blóm og efni. Mjög skemmtilegt að rölta þar.

Síðan fórum við og hittum Marielle, Wim og börn (hollenskir skátar sem tóku á móti okkur fyrsta daginn) og sigldum með þeim og bátnum þeirra og svo buðu þau okkur í kvöldmat.
Á bátnum bakaði Marielle pönnukökur handa okkur. Þær voru mun þykkari og feitari (steikt upp úr meiri olíu) en þær íslensku. Ofan á fengum við síróp.
Krakkarnir þeirra, Liselle og Jacco, gefast ekkert upp á að tala við okkur á hollensku. Bara spjalla og spyrja um hitt og þetta. Svo reyndi Liselle að kenna okkur að telja upp á 10. Henni fannst við ekkert sérstaklega sleip í hollenskunni.

Í gærkvöld var svo þvottavélin prófuð í fyrsta skipti. Allt fór vel en það tekur tímana tvo (eða frekar 24) fyrir þvottin að þorna hér. Fyndið að í manualnum með vélinn er tekið fram hvað það fer mikil orka og vatn í hvert þvottkerfi. Enda Hollendinar sparsamir og spá í svona hluti.

Wednesday 29 August 2007

Loksins hjól!


Í dag opnaði ég bankareikning og keypti hjól.

Við vorum búin að fara í nokkrar hjólabúðir en ég fann ekkert sem hentaði, Hollendigar er flestir hávaxnir en ég nú frekar lágvaxin þannig að flest notuð hjól eru of stór fyrir mig! Einn bauð mér barnahjól í gær!

En þetta hjól er mjög fínt, með körfu framan á, engum gírum og bæði fót- og handbremsum! Svo hjóluðum við í búðina og ég hjólaði heim með matinn í körfunni. Það tekur smá tíma að verða öruggur í umferðinni, sumir virðast bara æða áfram án þess horfa mikið í kringum sig.
Kallinn sem á búðina sem við keyptum hjólin í var mjög hress. Síminn hringdi og hann sagði okkur eftir símtalið að blaðið væri að reyna að selja honum auglýsingu en hann vildi sko ekki auglýsa. Hann hefði nóg að gera og vildi alls ekki fleiri kúnna. Sagði okkur líka að hann hefði átti ennþá stærri hjólabúð sem hefði náð alveg að verslunargötunni en núna væri hann bara með verkstæðið og selur nokkur hjól þar. Hann er sko 67 ára, er ekki með neitt internet eða gsm og engar kortamaskínur, tekur bara við reiðufé. Peninginn setur hann bara í rassvasann og í vikulokin er vasinn bólginn og allar stelpurnar vilja klappa honum á rassinn (eins og hann orðaði það sjálfur). Svo gaf hann okkur 2 evrur í afslátt svo við gætum keypt okkur ís! skemmtilegur kall:)
Á morgun er mæting kl. 8 hjá mér á Introduction day. Hef ekki þurft að vakna svona snemma síðan ég flutti hingað! Það er prógramm allan daginn, meðal annars allir boðnir velkomnir af rektor, fyrirlestur um hollenska menningu og göngutúr um borgina. Svo er bátaferð og heimsókn á safn á föstudaginn.
Á mánudaginn eigum við að mæta í stadthuis og skrá okkur inn í borgina, Jón mætir í fyrsta fyrirlesturinn og ég fer á upplýsingafund og í tölfræðipróf.
Í næstu vikur fæ ég líka bankakort og Jón bankareikninginn sinn. Þá ættum við að geta sótt loksins um netið. Það tekur svo 3 vikur að fá netið heim. Þetta kemur allt með kalda vatninu:)

Sunday 26 August 2007

Hvað er búið að gerast?

Fimmtudagur

Vöknuðum 3:30 um nóttina, kláruðum að setja síðustu plöggin í töskur. Sumt var nefnilega enn að þorna um nóttina. Brunuðum niður í Furugrund og settum það sem komst ekki með í geymsluna.
Síðan fórum við að sækja Braga, pabba Jóns, sem skutlaði okkur út á völl.

Loksins græddi maður á öllum þessum ferðalögum Jóns! Hann er með silfurkort og keypti makakort handa mér í afmælisgjöf. Þar með fengum við 10 kg auka á mann og svo auðvitað aðgang að Saga lounge!
Það var mjög ljúft, ókeypis matur og drykkur, dagblöð, leðursófar og tölvur. Maður gat setið með flatköku með hangikjöti í annarri og nýpressaðan appelsínusafa í hinni, lesið Moggann í síðasta skiptið þangað til einhvern tímann og fylgst með bankaliði og sýslumönnum. Jæja bara einum sýslumanni en hann fékk sér sko bjór í morgunmat! Ferskur.

Maður hefði getað sötrað kampavín þarna en ég ákvað frekar að lifa daginn af eftir 3 tíma svefninn. Já klámkóngur Íslands var þarna líka. Greinilega allt merkilega fólkið.

Eftir fína flugferð tóku Marielle og Wim, skátavinir Jóns, ásamt börnum (sem gáfu mér blóm jej) á móti okkur á Schipol.
Aftur græðir maður á þessum ferðalögum Jóns. Jón og Marielle fór með lestinni en ég og Wim settum farangurinn í bílinn þeirra og héldum eftir hraðbrautinni til Leiden. Vorum fljót að finna íbúðina, lögðum bílnum og fórum að hitta hin leigumiðluninni. Þar gekk allt smurt fyrir sig, Jón skrifði undir pappíra og borgaði peninga. Í staðinn fengum við húslykla og vín (aftur jej).

Eftir að hafa skoðað íbúðina og kvatt hollensku vini okkar kom leigusalinn. Hann var hinn kátasti en sagðist þurfa að koma aftur daginn eftir með „inventory list“ til að fara yfir hvað ætti að vera í íbúðinni.
Það er allt til alls í íbúðinni, handklæði, rúmföt og meira að segja tannburstar og tannkrem!

Síðan ákváðum við að kíkja aðeins í bæinn. Þarna er klukkan að verða fimm og því ákveðið að stoppa á kaffihúsi og fá sér snarl.
Þegar við komum aftur heim ákváðum við að leggja okkur aðeins en vöknuðum ekki fyrr en klukkan tíu. Þá var orðið dimmt og lítið að gera en að horfa á hollensku veðurfréttirnar, taka upp úr einni tösku eða svo og fara bara aftur að sofa.


Föstudagur

Fyrsta verkefni dagsins var að taka upp úr töskum og skoða betur inn í skápana.
Leigusalinn kom og fór yfir listann sinn. Listinn var á hollensku svo við bara treystum því að þetta hafi allt verið rétt. Gaurinn fór vel yfir allt og leiðrétti það sem hafði breyst frá síðasta leigjanda. Hér er allt talið með, kranar, klósettið og meira að segja gólfefnið.

Okkur líst mjög vel á leigusalann, hann útskýrði allt mjög vel og þegar hann heyrði í tónlist af hæðinni fyrir ofan sagði hann að við ættum að láta vita af öllu veseni svo hann gæti hringt og kvartað. Svo kom hann líka með vínflösku hana okkur (meira jej).
Stelpan á leigumiðluninni sagði okkur líka að hann væri mjög almennilegur, kom með köku handa þeim þegar þau leigðu út íbúðina fyrir hann.

Þannig að tvær vínflöskur bíða þeirra sem koma fljótlega í heimsókn! Og svo er Jón að sjálfsögðu byrjaður að skanna bjórmarkaðinn.

Eftir hádegið fórum við á skrifstofu háskólans hér til að fá upplýsingar. Ég skráði að ég væri mætt og fékk kort af bænum, upplýsingabækling um praktíska hluti, upplýsingar um hvenær ég á að mæta á fund og fallegan poka merktan skólanum.
Ég þurfti meira að segja að gefa upp email hjá fjölskyldunni minni svo skólinn gæti látið vita að ég væri komin og heil á húfi. Kannski hafa ekki allir efni á að hringja heim.

Eftir þetta var labbað meira, skoðað aðeins á lestarstöðinni og öll aðalverslunargatan gengin meðal annars.
Síðan fengum við þá góðu hugmynd að fara í bíó. Fundum bíó og keyptum miða á Simpsons. Stutt var í sýninguna svo við ákváðum að fá okkur hollenskan hamborgara. Á myndinni í sjoppunni leit hann eðlilega út með grænmeti og svona. En það var líklega hamburger special því okkar var bara með sósu og hökkuðum hráum lauk. Hérna er hamborgari heldur ekki úr hakki heldur kjötfarsi. Þetta var nú ekki vont en heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Bíóið var mjög skemmtilegt. Húsið er í 70‘s stíl og lítið verið gert til að nútímavæða það. Mjög lítill halli er í salnum og sætini gömul.
Skemmtilegast var þó tjaldið fyrir framan bíótjaldið sjálft. Það var brúnt með 70‘s rósamynstri og krumpaðist upp þegar myndin byrjaði. Það var mjögl lítið um auglýsingar og ég sá bara einn með popp. Hins vegar var fólk með kaffi og konfekt og bjór.

Á leiðinni heim stoppuðum við á hverfispöbbnum og fengum okkur einn bjór. Mjög lítill og fyndinn staður, þar er t.d. Star Wars kúluspil. Þegar við fórum kvöddu kallarnir, sem voru að spila á spil við barborðið, okkur.

Um kvöldið hélt einhver maður fyrir okkur fyrir vöku (mjög stutt þó). Hann var að að selja Viagra (meðal annars) og var greinilega að kalla á fólk sem gekk hjá. Lætin í gaurnum. Ég sofnaði þó fljótt en Jón vaknaði upp við hann um nóttina. Við höfum ekki orðið vör við hann aftur sem betur fer. Kannski ekki fyrirmyndarnágranni!



Laugardagur

Fórum með lestinni til Amsterdam að hitta Fjalar og Sigrúnu sem voru í sumarfrí.

Við gengum mikið um miðborgina og fórum meðal annars á markað og á sýningu í bókabúðinni BookieWookie sem íslensk kona á. Þetta var sýning þar sem hver listamaður sendi eitt póstkort. Sum voru mjög sniðug.

Að sjálfsögðu fundum við pönnukökuhús og fengum okkur pönnuköku. Ég fékk með súkkulaði og bönunum. Mjög gott.

Á röltinu um Amsterdam sáum við fullt af búðum og öðru skemmtilegu og ég er orðin nokkuð lunkin að þefa uppi kaffihúsin. Skrítin reykelsi Eva?!

Eftir kvöldmat ætluðum við að fara á rosa flottan skemmtistað sem heitir Club 11 og er á 11. hæð á nútímalistasafninu Stedelijk. Nema ég hélt að staðurinn væri á Rijksmusem og teymdi liðið hringinn í kringum safnið og fundum ekki neitt. Ó jæja. Það er nú líklegt að maður eigi eftir að fara aftur til Amsterdam enda mjög skemmtileg borg.

Sunnudagur

Fórum í stórmarkaðinn og drösluðumst heim með dótið. Maður má nú bara kaupa eins og maður getur borið. Enginn bíll til að henda pokunum í.

Skemmtilegt að reyna að átta sig á vörumerkjunum og hvað er besta tegundin af t.d. jógúrt. Maður prófar sig bara áfram með þetta. Prófuðum t.d. að kaupa litlar vöfflur sem reyndust vera ógeðslega sætar. Nektarínurnar voru aftur á móti mjög góðar. Kannski er best að halda sig við ávextina. Þeir eru allavega alltaf mjög girnilegir. Svo keypti ég gulrætur með grasinu og öllu. Það er ekkert hægt að fá nokkrar, neinei frekar svona tuttugu. En þær eru mjög góðar svo ég japla á þessu í vikunni.

Ég fór í fyrsta skipti ein út úr húsi! Jón var heima að vinna í tölvunni og ég rölti í bæinn. Venjulega er allt lokað á sunnudögum en í dag er Koopzondagen og þá er opið í búðunum. Ég keypti hollensk-enska orðabók og rölti nýja götu á leiðinni heim.

Ég held að þetta sé orðið alveg nógu langt. Á morgun fer Jón á fund í sínum skóla og ég býst við að fara með til að sjá háskólasvæðið og svo fer ég á fund á þriðjudaginn. Á fimmtudaginn og föstudaginn er nýnema prógramm hjá mér svo það er nóg framundan.