Wednesday 29 August 2007

Loksins hjól!


Í dag opnaði ég bankareikning og keypti hjól.

Við vorum búin að fara í nokkrar hjólabúðir en ég fann ekkert sem hentaði, Hollendigar er flestir hávaxnir en ég nú frekar lágvaxin þannig að flest notuð hjól eru of stór fyrir mig! Einn bauð mér barnahjól í gær!

En þetta hjól er mjög fínt, með körfu framan á, engum gírum og bæði fót- og handbremsum! Svo hjóluðum við í búðina og ég hjólaði heim með matinn í körfunni. Það tekur smá tíma að verða öruggur í umferðinni, sumir virðast bara æða áfram án þess horfa mikið í kringum sig.
Kallinn sem á búðina sem við keyptum hjólin í var mjög hress. Síminn hringdi og hann sagði okkur eftir símtalið að blaðið væri að reyna að selja honum auglýsingu en hann vildi sko ekki auglýsa. Hann hefði nóg að gera og vildi alls ekki fleiri kúnna. Sagði okkur líka að hann hefði átti ennþá stærri hjólabúð sem hefði náð alveg að verslunargötunni en núna væri hann bara með verkstæðið og selur nokkur hjól þar. Hann er sko 67 ára, er ekki með neitt internet eða gsm og engar kortamaskínur, tekur bara við reiðufé. Peninginn setur hann bara í rassvasann og í vikulokin er vasinn bólginn og allar stelpurnar vilja klappa honum á rassinn (eins og hann orðaði það sjálfur). Svo gaf hann okkur 2 evrur í afslátt svo við gætum keypt okkur ís! skemmtilegur kall:)
Á morgun er mæting kl. 8 hjá mér á Introduction day. Hef ekki þurft að vakna svona snemma síðan ég flutti hingað! Það er prógramm allan daginn, meðal annars allir boðnir velkomnir af rektor, fyrirlestur um hollenska menningu og göngutúr um borgina. Svo er bátaferð og heimsókn á safn á föstudaginn.
Á mánudaginn eigum við að mæta í stadthuis og skrá okkur inn í borgina, Jón mætir í fyrsta fyrirlesturinn og ég fer á upplýsingafund og í tölfræðipróf.
Í næstu vikur fæ ég líka bankakort og Jón bankareikninginn sinn. Þá ættum við að geta sótt loksins um netið. Það tekur svo 3 vikur að fá netið heim. Þetta kemur allt með kalda vatninu:)

Sunday 26 August 2007

Hvað er búið að gerast?

Fimmtudagur

Vöknuðum 3:30 um nóttina, kláruðum að setja síðustu plöggin í töskur. Sumt var nefnilega enn að þorna um nóttina. Brunuðum niður í Furugrund og settum það sem komst ekki með í geymsluna.
Síðan fórum við að sækja Braga, pabba Jóns, sem skutlaði okkur út á völl.

Loksins græddi maður á öllum þessum ferðalögum Jóns! Hann er með silfurkort og keypti makakort handa mér í afmælisgjöf. Þar með fengum við 10 kg auka á mann og svo auðvitað aðgang að Saga lounge!
Það var mjög ljúft, ókeypis matur og drykkur, dagblöð, leðursófar og tölvur. Maður gat setið með flatköku með hangikjöti í annarri og nýpressaðan appelsínusafa í hinni, lesið Moggann í síðasta skiptið þangað til einhvern tímann og fylgst með bankaliði og sýslumönnum. Jæja bara einum sýslumanni en hann fékk sér sko bjór í morgunmat! Ferskur.

Maður hefði getað sötrað kampavín þarna en ég ákvað frekar að lifa daginn af eftir 3 tíma svefninn. Já klámkóngur Íslands var þarna líka. Greinilega allt merkilega fólkið.

Eftir fína flugferð tóku Marielle og Wim, skátavinir Jóns, ásamt börnum (sem gáfu mér blóm jej) á móti okkur á Schipol.
Aftur græðir maður á þessum ferðalögum Jóns. Jón og Marielle fór með lestinni en ég og Wim settum farangurinn í bílinn þeirra og héldum eftir hraðbrautinni til Leiden. Vorum fljót að finna íbúðina, lögðum bílnum og fórum að hitta hin leigumiðluninni. Þar gekk allt smurt fyrir sig, Jón skrifði undir pappíra og borgaði peninga. Í staðinn fengum við húslykla og vín (aftur jej).

Eftir að hafa skoðað íbúðina og kvatt hollensku vini okkar kom leigusalinn. Hann var hinn kátasti en sagðist þurfa að koma aftur daginn eftir með „inventory list“ til að fara yfir hvað ætti að vera í íbúðinni.
Það er allt til alls í íbúðinni, handklæði, rúmföt og meira að segja tannburstar og tannkrem!

Síðan ákváðum við að kíkja aðeins í bæinn. Þarna er klukkan að verða fimm og því ákveðið að stoppa á kaffihúsi og fá sér snarl.
Þegar við komum aftur heim ákváðum við að leggja okkur aðeins en vöknuðum ekki fyrr en klukkan tíu. Þá var orðið dimmt og lítið að gera en að horfa á hollensku veðurfréttirnar, taka upp úr einni tösku eða svo og fara bara aftur að sofa.


Föstudagur

Fyrsta verkefni dagsins var að taka upp úr töskum og skoða betur inn í skápana.
Leigusalinn kom og fór yfir listann sinn. Listinn var á hollensku svo við bara treystum því að þetta hafi allt verið rétt. Gaurinn fór vel yfir allt og leiðrétti það sem hafði breyst frá síðasta leigjanda. Hér er allt talið með, kranar, klósettið og meira að segja gólfefnið.

Okkur líst mjög vel á leigusalann, hann útskýrði allt mjög vel og þegar hann heyrði í tónlist af hæðinni fyrir ofan sagði hann að við ættum að láta vita af öllu veseni svo hann gæti hringt og kvartað. Svo kom hann líka með vínflösku hana okkur (meira jej).
Stelpan á leigumiðluninni sagði okkur líka að hann væri mjög almennilegur, kom með köku handa þeim þegar þau leigðu út íbúðina fyrir hann.

Þannig að tvær vínflöskur bíða þeirra sem koma fljótlega í heimsókn! Og svo er Jón að sjálfsögðu byrjaður að skanna bjórmarkaðinn.

Eftir hádegið fórum við á skrifstofu háskólans hér til að fá upplýsingar. Ég skráði að ég væri mætt og fékk kort af bænum, upplýsingabækling um praktíska hluti, upplýsingar um hvenær ég á að mæta á fund og fallegan poka merktan skólanum.
Ég þurfti meira að segja að gefa upp email hjá fjölskyldunni minni svo skólinn gæti látið vita að ég væri komin og heil á húfi. Kannski hafa ekki allir efni á að hringja heim.

Eftir þetta var labbað meira, skoðað aðeins á lestarstöðinni og öll aðalverslunargatan gengin meðal annars.
Síðan fengum við þá góðu hugmynd að fara í bíó. Fundum bíó og keyptum miða á Simpsons. Stutt var í sýninguna svo við ákváðum að fá okkur hollenskan hamborgara. Á myndinni í sjoppunni leit hann eðlilega út með grænmeti og svona. En það var líklega hamburger special því okkar var bara með sósu og hökkuðum hráum lauk. Hérna er hamborgari heldur ekki úr hakki heldur kjötfarsi. Þetta var nú ekki vont en heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Bíóið var mjög skemmtilegt. Húsið er í 70‘s stíl og lítið verið gert til að nútímavæða það. Mjög lítill halli er í salnum og sætini gömul.
Skemmtilegast var þó tjaldið fyrir framan bíótjaldið sjálft. Það var brúnt með 70‘s rósamynstri og krumpaðist upp þegar myndin byrjaði. Það var mjögl lítið um auglýsingar og ég sá bara einn með popp. Hins vegar var fólk með kaffi og konfekt og bjór.

Á leiðinni heim stoppuðum við á hverfispöbbnum og fengum okkur einn bjór. Mjög lítill og fyndinn staður, þar er t.d. Star Wars kúluspil. Þegar við fórum kvöddu kallarnir, sem voru að spila á spil við barborðið, okkur.

Um kvöldið hélt einhver maður fyrir okkur fyrir vöku (mjög stutt þó). Hann var að að selja Viagra (meðal annars) og var greinilega að kalla á fólk sem gekk hjá. Lætin í gaurnum. Ég sofnaði þó fljótt en Jón vaknaði upp við hann um nóttina. Við höfum ekki orðið vör við hann aftur sem betur fer. Kannski ekki fyrirmyndarnágranni!



Laugardagur

Fórum með lestinni til Amsterdam að hitta Fjalar og Sigrúnu sem voru í sumarfrí.

Við gengum mikið um miðborgina og fórum meðal annars á markað og á sýningu í bókabúðinni BookieWookie sem íslensk kona á. Þetta var sýning þar sem hver listamaður sendi eitt póstkort. Sum voru mjög sniðug.

Að sjálfsögðu fundum við pönnukökuhús og fengum okkur pönnuköku. Ég fékk með súkkulaði og bönunum. Mjög gott.

Á röltinu um Amsterdam sáum við fullt af búðum og öðru skemmtilegu og ég er orðin nokkuð lunkin að þefa uppi kaffihúsin. Skrítin reykelsi Eva?!

Eftir kvöldmat ætluðum við að fara á rosa flottan skemmtistað sem heitir Club 11 og er á 11. hæð á nútímalistasafninu Stedelijk. Nema ég hélt að staðurinn væri á Rijksmusem og teymdi liðið hringinn í kringum safnið og fundum ekki neitt. Ó jæja. Það er nú líklegt að maður eigi eftir að fara aftur til Amsterdam enda mjög skemmtileg borg.

Sunnudagur

Fórum í stórmarkaðinn og drösluðumst heim með dótið. Maður má nú bara kaupa eins og maður getur borið. Enginn bíll til að henda pokunum í.

Skemmtilegt að reyna að átta sig á vörumerkjunum og hvað er besta tegundin af t.d. jógúrt. Maður prófar sig bara áfram með þetta. Prófuðum t.d. að kaupa litlar vöfflur sem reyndust vera ógeðslega sætar. Nektarínurnar voru aftur á móti mjög góðar. Kannski er best að halda sig við ávextina. Þeir eru allavega alltaf mjög girnilegir. Svo keypti ég gulrætur með grasinu og öllu. Það er ekkert hægt að fá nokkrar, neinei frekar svona tuttugu. En þær eru mjög góðar svo ég japla á þessu í vikunni.

Ég fór í fyrsta skipti ein út úr húsi! Jón var heima að vinna í tölvunni og ég rölti í bæinn. Venjulega er allt lokað á sunnudögum en í dag er Koopzondagen og þá er opið í búðunum. Ég keypti hollensk-enska orðabók og rölti nýja götu á leiðinni heim.

Ég held að þetta sé orðið alveg nógu langt. Á morgun fer Jón á fund í sínum skóla og ég býst við að fara með til að sjá háskólasvæðið og svo fer ég á fund á þriðjudaginn. Á fimmtudaginn og föstudaginn er nýnema prógramm hjá mér svo það er nóg framundan.