Wednesday 31 October 2007

Vei

Seinni einkunnin er komin (úr áfanganum sem ég þurfti að vera með kynninguna í) og hún var ekkert síðri en sú fyrri! Ég fer að ofmetnast hérna með þessu áframhaldi. Gott að byrja bara á toppnum og þá þarf ég ekkert að sanna neitt meira fyrir sjálfri mér meir. Gott plan:)

Nýju kúrsarnir byrjuðu í gær og dag, allt komið á full swing. Í morgun var líka fundur um lokaritgerðina og internship-ið sem við eigum að gera. Ég er alveg jafn óviss með hvað ég ætla að skrifa um, maður fær ekki að velja heldur eru bjóða kennararnir upp á ákveðin viðfangsefni. Það er pressa að velja sem fyrst, annars gæti maður setið uppi með efni sem maður hefur engan áhuga á. En ég veit ekki alveg hvað ég vil, ekki frekar en fyrri daginn.

Þetta intership er frekar flókið. Við eigum að finna fyrirtæki eða stofnun til að fá að vera lærlingar hjá en fyrir þá sem tala ekki hollensku er það frekar hæpið. Okkur var ráðlagt að leita eða einhverju tengt rannsóknum (þar er kannski hægt að gera e-ð á ensku) eða skutlast til heimalandsins og gera þetta þar.
Humm eini gallinn er að við þurfum að vera amk 7 vikur í svona lærlingsdæmi. Líka ósanngjarnt að neyðast til að fara úr landi til að uppfylla kröfurnar í náminu. Lausn skólans er að bjóða upp á tvo rosa praktíska kúrsa í stað lærlingstöðunnar. Ég er enn að pæla (alveg síðan í morgun!) hvað ég eigi að gera. Hvað ætli sé best?

Mamma og pabbi koma á morgun! Ég er búin að útbúa stíft ferðaplan fyrir pabba og viða að mér ýmsum fróðleiksmolum um Leiden. Síðan fæ ég dót úr geymslunni góðu og pottþétt nóg af íslensku góðgæti. Þetta verður ljúf helgi.

Sunday 28 October 2007

Tíminn stóð í stað

Í nótt var skipt yfir í vetrartíma. Við vorum stödd á lestarstöðinni í Delft klukkan þrjú í nótt og þá stoppuðu klukkurnar. Síðan fylgdist ég með klukkunum á lestarstöðvunum á leiðinni og alltaf var hún þrjú. Þegar við komum til Leiden var klukkan ennþá þrjú.
Gaman að græða einn klukkutíma og í tilefni af því svaf ég aðeins lengur í morgun. Það verður líklega ekki eins gaman í vor þegar maður tapar klukkutímanum.

Í gær fórum við til Rotterdam og tókum túristarúnt. Löbbuðum hring um borgina og fórum í siglingu um höfnina sem er sú stærsta í heimi. Enda engin smásmíði, þvílíkt magn af gámum og risaflutningaskipum. Rotterdam er allt öðruvísi en Leiden og Amsterdam, mikið af háhýsum og bara öll nútímalegri. Svo vantar ekki búðirnar, fórum t.d. í 11. hæða bókabúð. Að vísu var þetta 11 pallar en ekki alveg heilar hæðir. En samt alltaf skemmtilegt að koma í stórar bókabúðir.
Áður en við fórum heim kíktum við á kaffihús með Ingu Auðbjörgu og fengum nýjustu fréttir.
Fyrst við vorum á lestarrúntinum þá fórum við um kvöldið til Delft í afmælispartý hjá Rúnu. Mikið stuð og gleði.

Á föstudeginum hélt Ana, brasilíska bekkjarsystir mín, upp á afmælið sitt. Grikkirnir mínir fóru að tala um hvort ég gæti ekki einhvern tíma komið með "traditional" íslenska tónlist og kennt þeim "traditional" dansa. Semsagt gömludansana. Ég er ekki mjög spennt fyrir að hoppa í skottís svo ég fór að pæla hvað ég með mína danshæfileika gæti dansað í staðinn. Inga Auðbjörg kom með þá frábæru hugmynd að kenna þeim stuðmannahoppið, það er svoldið traditional.
Ég ákvað að bera þessa hugmynd undir Rúnu og Línu í afmælinu á laugardaginn. Mér til mikillar undrunar höfðu þær og Una aldrei heyrt um stuðmannahoppið. Ég neyddist því til að kynna þennan gleðidans fyrir þeim og tók nokkur hopp um salinn. Það vakti mikla gleði og stelpurnur spreyttu sig líka á hoppinu góða.
Kannt þú stuðmannahoppið?

Wednesday 24 October 2007

Fyrr má nú vera

Það er byrjað að setja upp jólaskreytingar í bænum! Stórar skreytingar yfir aðalgötunni, svona sem eru strengdar á milli húsanna svipað og eru á Laugaveginum. Jólin eru skemmtileg og allt það en mér finnst full snemma verið að setja upp aðalskreytingarnar.

Kuldinn er farinn að bíta í kinnarnar, ég er búin að draga fram kápuna og ullarvettlingana frá ömmu. Hollendingar virðast ekki nota vettlinga, hef séð einn og einn með hanska en engann með svona ullarvettlinga. Kannski eins gott að ég tók ekki ullarhúfuna líka.
Áðan fórum við í bæinn og fórum meðal annars í íþróttabúð og mér til mikillar gleði fann ég skíðadeildina! Frekar skondið í flatasta landi heims og ennþá fyndnara hér undir sjávarmáli :Þ Ætli Hollendingar fari mikið á skíði? Ég veit að þeir eiga manngerðar brekkur og meira segja innhúss.

Fyrsta einkuninn komin í hús og hún var góð!

Sunday 21 October 2007

engisprettufaraldur haraldur

Að vísu bara tveir sniglar.
Skruppum út í gærkvöldi og hittum nokkra Grikki og þegar við komum heim voru tveir feitir sniglar í kapphlaupi á eldhúsgólfinu. Verst er að ég sá ummerki um óboðna gesti um daginn en fann þá ekki, spurning hvort þeir hafi verið í felum eða fyrri gestirnir farið út og þessir verið nýjir?
Við kíktum á stað sem heitir Linkse Kerk (vinstri kirkjan) og er víst hangout fyrir fólk eins og grænmetisætur og fólk sem klæðist ekki leðri (eins og Vera orðaði það). En staðurinn var áhugaverður. Frekar lítill og fullt af plöntum, næstum eins og að vera heima hjá einhverjum. Allir sem vinna þarna eru sjálfboðaliðar, allt lífrænt (já bjórinn líka) og er staðurinn svona non-profit dæmi, enginn græðir - ætli peningarnir fari ekki í að styrkja e-ð málefni.

Ég er sannarlega ekki hrakfallabálkurinn í bekknum.Eleni P. hafði tekist að hjóla fyrir bíl og var öll skökk og marin en fór samt út á lífið, seigt í þessum Grikkjum.

Er eiginlega alveg búin með Final Paper í Basic Theraputic Skills, sendi það inn í kvöld og þá eru tveir áfangar búnir, vúhú.

Það styttist óhugnalega í að mamma og pabbi koma sem þýðir að það er að koma nóvember. Ég sem er nýkomin og kann enn ekki hollensku. Hvað verður um allan þennan tíma?

Thursday 18 October 2007

Tengd

Já loksins er heimilið formlega nettengt. Fórum líka og keyptum e-ð tæki sem gerði router-inn að þráðlausu apparati til að losna við langar snúrur um alla íbúð.

Ein gríska stelpan spurði af hverju ég væri í "svona" jakka um daginn. Ég var sko þennan daginn í bláa Cintamani regnstakknum mínum sem mér hefur ekki fundist neitt undarleg klæði fyrr. Ég sagði að það væri af því ég hefði haldið að það væri að fara rigna þegar ég fór út um morguninn. Eitthvað fannst henni skrýtið að vera í sérstökum hlífðarfatnaði. Það hefur örugglega ekki bætt úr að ég var líka með Cintamani bakpoka undir bækurnar mínar og henni líklega fundist ég útbúin til fjallgöngu.

Í gær fóru ég, nokkrir Grikkir og fleiri Hollendingar út að borða til að fagna áfangalokum. Fólk var hresst en sumir ekki jafn hressir í tíma kl. 9 í morgun.
Ég gerði tvennt í fyrsta skipti á hjólinu í gær, hjólaði í pilsi og hjólaði heim af barnum. Það er ægilega þægilegt að hjóla svona á nóttinni, engir bílar og fólk að þvælast fyrir manni!

Tuesday 16 October 2007

Fiskur

Síðasta kvöldmáltíðin áður en við fluttum út var steiktur fiskur með nýjum íslenskum kartöflum að hætti Braga, pabba Jóns. Síðan þá hef ég ekki borðað fisk.
Í dag ætlaði ég að bæta úr því og hjólaði í Albert Hein (sem er fínasta/dýrasta verslunarkeðjan hér) því mér leist ekki á fiskinn sem ég sá í Digros (búðin sem ég fer venjulega í). Ég hafði líka frétt að þar væri hægt að fá íslenskan fisk. Það var sko rétt en helv... dýr var hann, tæpar 21 evrur kílóið! til samanburðar kosta kjúklingabringur 7,5 evrur kílóið. Þannig að ég get keypt 3 kíló af bringum eða 1 kíló af íslenska fisknum. Svo ég keypti kjúklingabita í matinn (ennþá ódýrara ;). Núna skil ég enn betur af hverju Rúnar Óskars dröslaði heilu frosnu fiskiblokkunum hingað frá Íslandi.

Í dag var síðasti tíminn í Basic Theraputic Skills, bara final paper eftir og á morgun er síðasti tíminn í Paradigms and Controversies in Health Psychology. Í tilefni af því er stefnan að hitta nokkra Grikki á eftir og fara svo út að borða á morgun með jú Grikkjunum og nokkrum Hollendingum. Ég er svo mikill minnihluti! ekki bara útlendingur heldur líka í minnihlutahópi á meðal útlendinganna...

Friday 12 October 2007

Innbrot

Í fyrrakvöld var brotist inn hjá stelpu sem er með mér í einum áfanga. Hún var að koma heim og sá tvo menn standa í herberginu sínu, kallaði e-ð til þeirra (bölvaði víst) og þá stukku þeir út um gluggann með fartölvuna hennar og myndavélina. Hún var skiljanlega í miklu sjokki í gær í skólanum. Úff greyið, öll verkefnin og allt í tölvunni.

Í kjölfarið heyrði ég fleiri innbrotssögur frá því í sumar og fyrravetur. Niðurstaðan úr sögunum var að það er verst að búa á jarðhæð, gaurarnir geta bara brotið gluggann og teygt sig í dótið.
Hressandi þar sem við búum á jarðhæð með risaglugga sem allir glápa inn um þegar þeir ganga um götuna. Við erum líka svo miklir Íslendingar að nokkru sinnum hefur gleymst að læsa bakdyrunum. En til að komast að þeim þarf maður að vísu að klifra upp á þak á öðru húsi og ganga smá eftir þakinu og klifra svo niður í portið okkar. Vona að enginn nenni að stunda það.
Ég er nú samt ekki algjör auli, passa alltaf að ganga frá tölvunni svo hún sjáist ekki frá glugganum þegar ég fer út og svo drögum við fyrir ef við förum út eftir kvöldmat svo það sjáist ekki að enginn er heima. Síðan held ég að umferðin fæli hugsanlega þjófa frá. Vonum það allavega, ég ætla ekki að verða nein taugahrúga yfir mögulegum innbrotum.

Í kjölfar jólapælinganna ákvað ég að spyrja tvær hollenskar bekkjarsystur mínar hvað væri hollenskur jólamatur og hvort það væru jólahlaðborð hér. Þær komu alveg af fjöllum með jólahlaðborðið (you know buffet with christmas food), Jón benti mér líka á að þetta er danskur siður. Það virðist heldur ekki vera neinn spes jólamatur hér, sumir borða hálfgert raclette, grill þar sem hver eldar sína bita en þeim datt ekkert í hug sem flestir hefðu á borðum.
Jón kom með þá pælingu að matur væri ekki svo mikið "issue" hjá Hollendingum, matur væri bara matur, ekki athöfn eins og oft hjá okkur (sérstaklega um jól og aðrar hátíðir). Kannski er það málið, útskýrir allavega allt þetta brauð með osti. Hvað er með þetta brauð með osti. Þetta er sko standard nesti í öll mál hjá Hollendingum.

Á morgun ætla Marielle og Wim að kíkja í heimsókn og spila við okkur. Það færir stuðstuðulinn aðeins upp á við, síðustu tvo laugardagskvöld hef ég verið að læra. Ég ætla líka að spyrja þau um hollenska jólamatinn og komast til botns í þessu máli.

Wednesday 10 October 2007

jólin

Í síðustu viku sá ég jóladót í V&D (magsín hér í Leiden) og líka á mánudaginn í IKEA. Undarlegt alveg. Áðan var ég svo að tala við Steinunni um flugið hennar hingað um jólin og þá fór ég að pæla hvað það væri margt sem ég myndi ekki gera í fyrsta skipti núna um jólin og þá væntanlega margt annað sem ég geri í fyrsta skipti.

Þetta verður í fyrsta skipti á ævinni sem ég verð ekki hjá mömmu og pabba og litla bróður og hitti ekki stóra bróður og frú.
Í fyrsta skipti í mjög mörg ár sem ég geri, fæ eða verð ekki:
- á Akureyri
- fæ skötu hjá Sigrúnu og Baldvin á Þorláksmessu
- hitti systur mömmu og co í kaffi á aðfangadagskvöld
- skreyti í Vestursíðunni
- föndra jólakort
- baka smákökur
- geri konfekt
- skoða brjálaðar jólaskreytingar
- sker út laufabrauð
- fæ laufabrauð yfirhöfuð
- fæ heimabakaðar smákökur
- fæ sandköku með karmellu
- fæ kornflexmarengs
- fæ heimagert konfekt
- fæ the jólamat með því sem tilheyrir
- fæ hangikjöt úr sveitinni eins og það er best (ekki úr búð)
- fer til Húsavíkur
- hitti hinar ömmurnar og afann
- hitti allt hitt fólkið á förnum vegi í jólastússi

En ég mun hlusta á jólamessuna klukkan sex, búa til heitt kakó, vona að ég fái einhvern jólapakka og helst líka jólakort og skal lesa einhverja bók fram á nótt á aðfangadagskvöld!

Tuesday 9 October 2007

Gleðigleðigleði

Ég er búin með kynninguna mína!
Tíminn var í gær og ég var fyrri af tveimur að kynna. Ég var mjög stressuð og gleymdi nú að segja sumt en í heildina var það bara ágætt held ég. Umræðurnar á eftir tóku á meiri smáatriðum en ég bjóst við en ég gat svarað öllu og umræðurnar voru mjög líflegar. Á eftir sögðu stelpurnar sem voru viðræðendurnir (?, er þetta orð? discussants) að það hefði verið mjög erfitt að finna e-ð til að setja út á og þess vegna hefðu þær þurft að draga líka upp smáatriði. En það var bara gaman að fá að ræða niðurstöðurnar sínar svona. Þá fékk ég líka tækifæri til að segja sumt að því sem ég hafði ekki tíma til að segja í kynningunni. Þótt ég hefði verið komin með leið á þessu efni (hafa sálfræðilegar íhlutanir/meðferðir áhrif á lífslíkur fólks með langvinna sjúkdóma eða hafa þær einungis áhrif á gæði lífs? og ég talaði um krabbamein) undir lokin þá er þetta mjög áhugavert. Ég þurfti að skera mikið niður af efninu sem ég var upphaflega með.

Kennarinn sagði að þetta hefði verið fínt hjá mér en ég yrði að passa að reyna ekki að koma of mikið af upplýsingum á framfæri, þá gæti maður t.d. farið að tala of hratt. Hún sagði líka að ég yrði að passa öndunina, ég hefði greinilega verið að passa að tala ekki of hratt og líka verið stressuð svo stundum hefði verið eins og ég þyrfti að draga djúpt andann til að slaka aðeins á. Allt satt og rétt og við vorum sammála að það væri mest reynsluleysinu að kenna.

Ég tók samt eftir að kennarinn var alltaf að skrifa e-ð á meðan ég var að kynna en þegar stelpan á eftir mér var að kynna sitt þá skrifaði hún mjög lítið. Síðan talaði kennarinn bara við mig eftir tímann ekki hina (ekki svo ég tæki eftir). Spurning hvort það sé gott eða vont. Ég er að minnsta kosti svo ótrúlega glöð að þetta sé búið. Núna eru allir á taugum yfir sínu en ég er búin! Vúhú

Til að fagna þessum gleðiáfanga á tók ég lestina til Jóns sem var í skólanum og við fórum í IKEA í Amsterdam. IKEA í höfuðborg þessa milljónalands er svipað að stærð og IKEA á litla Íslandi! Ég var búin að gera rosalista með því sem vantaði og svo fleiru sem mig langaði í. Keypti nú ekki nærri því allt sem var á listanum, það eru takmörk fyrir því sem maður getur borið heim. Hátíðarkvöldverðurinn var kjötbollur með brúnni sósu og við keyptum líka kjötbollur, til að hafa með heim, á sænska matartorginu.

Aðalfréttirnar eru samt að mamma og pabbi eru að koma í heimsókn 1. nóvember! Það verður sko ótrúlega gott að fá þau og ég verð að tala við Grikkina mína um skipulagningu til að ég geti verið sem mest laust þessa helgi. Nú hefst ægileg skipulagning og að sjálfsögðu er ég byrjuð að hugsa um listann yfir það sem ég ætla að biðja um að fá úr geymslunni góðu.

Smá drama í lokin: gríska stelpan sem ætlaði að hætta en hætti við, er núna hætt. Hún flýgur víst heim í dag. Leiðinlegt en örugglega betra fyrir hana. Vona bara að henni líði betur.

Saturday 6 October 2007

Sól

Þá er sól og blíða í dag. Tókum smá pásu frá tölvunni áðan og röltum niður í bæ í góða veðrinu.

Tilgangurinn var að fara í símabúðina og kvarta yfir að netið sem átti að byrja að virka á fimmtudaginn er ennþá ekki í lagi. En við gleymdum bréfinu heima og vorum því ekki með klantnummer.
Við pöntuðum net í gegnum Orange en fyrst þurfti kpn (ríkissímafyrirtækið) að opna eða tengja línuna. Það átti að gerast á fimmtudaginn og Jón þorði ekki út úr húsi allan daginn en enginn kom. Enda efast ég um að þeir þurfi e-ð að koma inn í íbúðina. Síðan ætla þeir að koma 17. okt til að mæla línuna. Ekki veit ég hver tilgangurinn er með því.
Best er svo að orange er búin að senda okkur tvo routera! held nú að einn sé nóg. Mínusinn er að þetta virðist ekki vera þráðlaust apparat. Við góðu vana fólk gerðum bara ráð fyrir því! best að fá netið til að virka áður en maður fer að vesenast í að gera þetta þráðlaust.

Hausverkur helgarinnar er að klára kynninguna sem ég á að flytja á mánudaginn og æfa hana í drep. Ég æfði mig aðeins áðan til að sjá hvað hún er löng hjá mér núna. Ég gafst upp þegar ég var búin að tala í 20 mín. Að hugsa sér, ég gafst upp á að tala! þetta er mun erfiðara á ensku og með fullt af erfiðum orðum. Ég þarf að tala í 30-40 mín á mánudaginn svo það er eins gott að æfa sig. Greyið Jón og nágrannarnir þurfa líklega að hlusta nokkru sinnum á predikuninna (var sko úti áðan að æfa mig).

Svo þarf ég líka að skila inn skýrslu í therapista áfanganum. Núna erum við byrjuð að taka hvort annað í viðtöl og eigum að tala um eigin vandamál. Tíminn var tekinn út á band og ég er búin að vera hlusta á sjálfa mig tala við "sjúklinginn" minn og skrifa orðrétt niður fyrir skýrsluna. Ég þyki víst afar þolinmóður og rólegur þerapisti, fólk róast niður við að tala við mig. Það segja allavega krakkarnir sem hafa verið hjá mér í "tíma".
Haha þið sem haldið að það séuð alltaf læti í mér!

Friday 5 October 2007

Hátíð í bæ

Í vikunni var Leiden Ontzet, hátíð til að fagna því að spænsku herinn fór (fyrir löngulöngu síðan). Ballið byrjaði á þriðudagseftirmiðdag. Bærinn var fullur af tívolítækjum af öllum stærðum og gerðum og sölubásum með öllu mögulegu, t.d. sokkum, nammi, pottaplöntum og meira að segja klósettsetum! Var að hugsa að kaupa eina handa Möggu með höfrungamyndum.

Veitingastaðir og barir voru búnir að tjalda fyrir utan staðina og margir buðu upp á tónlistaratriði, og svo auðvitað mat og bjór. Svo voru líka matar- og bjórvagnar sem tengdust engum veitingastöðum út um allt. Á þriðjudagskvöldið röltum við aðeins um en mannmergðin var ótrúleg og erfitt að stoppa og sjá atriðin. Flestar hljómsveitirnar voru cover bönd svo við þekktum oftast lögin. Skemmtilegt var þó þegar hollensku slagararnir byrjuðu og allir sungu með nema við. Ég var þó fljót að ná einu lagi, viðlagið var svona: dansi, dansi, dansi, dansi. Ekki flókið það.

Við sáum skrúðgöngu og mér finnst alltaf gaman að horfa á góða skrúðgöngu. Þessi var nú skondin, öll möguleg félög voru í göngunni, íþróttafélög, skátar, lúðrasveitir og einhverjir klúbbar sem ég fattaði nú ekki hvað var. Það var greinilegt að margir lögðu mikið í sitt atriði, íþróttafélögin voru gjarnan í búningum með dót tengt sinni íþrótt. Borðtennisfélagið rúllaði t.d. borðtennisborði með sér í göngunni og fimleikastelpur stukku allskonar stökk. Þetta voru aðallega krakkar og unglingar og þjálfararnir þeirra. Skemmtilegt að hafa allskonar hópa með en þessi ganga var líka mjög löng, við sáum bara part.

Á miðvikudaginn var fjör allan daginn. Þrátt fyrir verkefnaskil var ekki hægt að sleppa því að fara aðeins í bæinn um daginn. Samkvæmt hefðinni á maður að borða haring (síld) og hvítt brauð því það var það eina sem var til þegar Spánverjarnir fóru (eða hvort nágrannarnir komu með þetta, man þetta ekki alveg). Ef maður er Leiden búi þá fær maður svona góðgæti frítt en við hin þurfum að borga. Við lögðum nú ekki í þetta, prófaði oliebollen í staðinn. Það er eins og ástarpungur í útliti en ekki jafn gott. Svo fengum við líka í fyrsta skipti franskar í pappírskeilu með góðri slumpu af majónesi með. Það er sko ekta hollenskt!

Að sjálfsögðu þurftum við að kíkja aðeins í tívolí. Við fórum í parísarhjólið og fengum ágætis útsýni yfir bæinn. Eftir það „fundum“ við aðra skrúðgöngu í miðbænum. Þessi var enn flottari en kvöldið áður. Ég gat þó ekki áttað mig á hvaða fólk var í göngunni, leit út eins og einhverjir leikklúbbar. Á undan hverju atriði keyrði bíl með skilti sem stóð á hvert þema atriðsins var, t.d. sound of music, 007, vikudagarnir, framtíðin, dans og svo fleira, sumt skildi ég nú ekki. En þetta var rosalega flott og mikið lagt í búningana, ég reyndi að taka myndir (heppnaðist misvel, maður sá mis mikið fyrir aftan þessa hávöxnu Hollendinga) og set þær seinna á netið. Svo voru aðvitað lúðrasveitir á milli. Ein var ótrúlega flott, við erum að tala um sexfaldar raðir, 18 trompeta, 4 pikkaló, 12 flautur og 6 túbur! (Og svo auðvitað fullt af öðrum hljóðfærum en bara svona til að lúðrasveitanördin skilji hvað ég er að meina) Magnað! En fyndnast fannst mér að þegar sveitin stoppaði þá drógu þeir bara upp sígó og nesti. Smá pása.

Um kvöldið hélt fjörið áfram og við kíktum aðeins, fundum út að það var best að vera hér í næstu götu þar sem er fullt af veitingastöðum. Þar voru bönd að spila og ekki eins hrikalega troðið eins og í miðbænum. Þið takið bara frá 2.-3. október á næsta ári og komið á Leiden Ontzet!

Monday 1 October 2007

Eigðu góðan mánuð

Á Grikklandi óskar maður fólki góðs mánaðar, fyrsta hvers mánaðar. Þetta lærði ég í dag. Grikkir óska manni allskonar góðs, t.d. ef maður er að fara í bað þá segir maður eigðu gott bað (að vísu hafa engir Grikkir verið viðstaddir þegar ég fer í bað). En þeir segja svona barasta við öll möguleg tækifæri. Skemmtilegt!
Á laugardaginn fór ég aftur á sjúkrahúsið að leita að bókasafninu. Fann það eftir langa göngu um gangana sem ég rata ekki um. Fór í einhverja lyftu þar sem fólkið hneykslaðist á mér fyrir að taka lyftuna upp á næstu hæð (þetta skildi ég á hollensku) en ég sá engan stiga en gat ekki svarað fyrir mig svo ég brosti bara!
Á eftir fór ég í búðina og þar var gömul kona að spjalla við alla í röðinni og kinkaði kolli til mín af og til, var greinilega að bíða eftir að ég myndi leggja orð í belg. En ég bara brosti. Held að það sé besta ráðið þar til ég get farið að tala við fólk.

Laugardagurinn fór svo í lærdóm fram á kvöld af því við áttum von á gesti á sunnudag.
Á sunnudaginn hittum við Judith, hollenskan skáta sem Jón þekkir, og hún sýndi okkur stóru vindmylluna. Hún vann þar einu sinni svo við fengum frítt inn og einkaleiðsögumann. Ekki slæmt. Síðan kom Inga frá Rotterdam, skoðaði aðeins mylluna og svo fórum við öll á kaffihús.
Inga er skáti frá Íslandi sem er að læra í Rotterdam. Hún er búin að hóta því að koma oft í heimsókn sem er bara hið besta mál. Síðan er nauðsynlegt fyrir okkur að fara í menningarheimsóknir til annarra borga!

Í gær hitti ég líka grísku stelpurnar í hópnum mínum. Þær voru hressar, fékk t.d. að heyra sögur af grísku stelpunni sem ætlaði að hætta en hætti svo ekki og eru greinilega margir orðnir þreyttir að hlusta á vælið í henni (eins og þær orðuðu það). Greyið stelpan...

Framundan eru mikil hátíðarhöld í bænum.
Þann 3.október fyrir löngulöngu síðan losnuðu Leiden-búar við spænska herinn og því er fagnað ógurlega. Um helgina hafa risið tívolítæki og tjöld og það verður greinilega nóg um að vera.
Ég þarf þó að skila verkefni á fimmutdaginn en vonandi gengur það vel svo ég missi ekki af neinu!