Wednesday 10 December 2008

Seinni hluti

get víst ekki gert æsispenntum lesendum það að draga lok sögunnar lengur...

- vaknaði rúmlega sex á fimmtudagsmorgun og skundaði út á Schipol. Eftir fjögurra klukkutíma ferðalag með flugvél, rútu og lest kom ég til Bangor í Wales. Eftir smá labb um bæinn fann ég gististaðinn. Í þessum blessaða bæ eru sko brekkur! smá viðbrigði eftir flata Holland.

- eftir check-in þá ákvað ég að skoða bæinn betur. Ansi lítill bær, 13 þús íbúar + 10 þús stúdentar frá öllum heiminum, það leyndi sér ekki. Mikið af ungu fólki allstaðar á röltinu - gisti að vísu nálægt háskólanum - og auglýsingum um húsnæði fyrir stúdenta.
Á leiðinni út á hina frægu bryggju bæjarins kom þetta rosalega haglél og síðan hellidemba. Ég var akkúrat á einhverri íbúagötu og því engin búð eða pöbb til að leita skjóls í. Skemmtilegt þegar maður er í pilsi og opnum skóm! Með bleytuna lekandi úr hárinu og gegnblauta skó sem skvampaði í þegar ég labbaði endaði ég í Mark&Spencer, keypti smátterí í kvöldmatinn og hrökklaðist upp á hótel.

- Gleymdi að sjálfsögðu að setja skóna á ofninn og byrjaði daginn því á að eyða góðum tíma að þurrka skóna með hárþurrka - mikið fjör.
Mætti svo hálftíma of snemma í viðtalið (svona just in case ég myndi villast) sem var svo hálftíma of seint! Gerði mitt besta að sýna snilli mína í viðtalinu sem var tvíþætt. Fyrst tala við aðalfólkið og svo við hinar þrjár konurnar sem vinna við prógrammið. Allir voða kammó og spurðu um allt milli himins og jarðar, t.d. hvort ég hefði persónulega áhuga á mat. U já og byrjaði svo að lýsa sterkum fjölskylduhefðum en komst aðeins á hálan ís þegar ég fór að lýsa haustslátrun og sláturgerð - kannski ekki alveg mín sterka hlið að lýsa þessu á ensku án þess að hljóma of brútal.

- Konurnar þrjár sögðu að ég yrði bara að kíkja út á bryggju svo ég þorði ekki annað en að hlýða og skundaði af stað. Sá sko ekki eftir því, dásamlegt að fá smá rok á sig og horfa út á sjóinn og á fjöllin. Almennilegt landslag loksins. Kvöldið áður eftir haglélsárásina og hundbleytuna fannst mér þetta alveg glataður bær en þarna hlóðust inn stigin.

- Strunsaði til baka til að ná lestinni - rétt missti auðvitað af henni. Komst nú samt til Liverpool eftir lestarskipti í Chester en þá var flugrútan alltof sein og föstudags-seinniparts-umferðin alveg í hámarki og því allt of sein miðað við áætlun á völlinn. Flýtti mér í gegnum öll check til að bíða ár og öld við hliðið - auðvitað hellings seinkun á fluginu.

- Svo bara pakka draslinu fyrir flugið heim. Með örfá aukakíló í töskunni og hellings of mikið í flugfreyjutöskunni förum við á völlinn. Kát konan í check-in-inu og allt fór í gegn án athugasemda. Jess.
Ég hef virkað ægilega ósjálfbjarga á flugfreyjuna því hún leiddi mig nánast að sætinu mínu, setti allt dótið mitt og kápuna upp í hólfið og færði kallinn sem hafði sest í sætið mitt. Beið bara eftir að hún spennti á mig beltið.

- Eftir að hafa hitt nokkra vini og ættingja fyrir sunnan og mikið át var brunað norður strax á sunnudeginum. Mér til mikillar gleði var allskonar veður á leiðinni, vont skyggni, hríð og læti. Það fannt ekki öllum í bílnum það jafn skemmtilegt.

- Á mánudaginn hringdi svo Pauline frá Bangor University. Þau voru "very impressed", ég var "right on with my message", svör mín við spurningum þeirra var það sem þau voru að leita eftir og ég spurði góðra spurninga. Aftur, "very impressed" (hún endurtók það, ég er ekki bara að monta mig).
En því miður var einn umsækjandi búin að vinna með þetta prógramm í nokkur ár og því var ákveðið að ráða hann vegna reynslunnar EN ég var næst í röðinni (ef ég skildi hana rétt - segjum það bara). Að lokum sagði hún að þau myndu auglýsa stöðu aftur eftir ár eða fyrr og hvatti mig til að sækja aftur um.
Ég er alveg hoppandi glöð með þetta símtal og að ég hafi komið vel fyrir og greinilega ekki bullað svo mikið. Eftir viðtalið var ég nefnilega ekki viss hvernig þetta hefði farið og mundi eftir ýmsu sem ég hefði getað eða átt að segja. Gerði mér engar væntingar um þetta starf svo ég er ansi glöð að hafa fengið viðtal yfir höfuð og líka að hafa gengið svona vel.

- Núna tekur bara við smá leti, konfektgerð, bakstur og almenn gleði. Ætla að fræða bekkinn hennar mömmu um hollensk jól, aðallega Sinterklaas býst ég við og fékk líka smá vinnu á póstinum við að bera út - svona eins og í 1. bekk í MA. Svona fer lífið í hringi :)

Tuesday 9 December 2008

Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwllllantysiliogogogoch station

og þetta er ekki bull heldur lengsta nafn á lestarstöð í heimi! sem er einmitt í Wales. Ástæðan fyrir því að ég bý yfir þessum einskins nýta fróðleik er að ég skrapp til Wales í síðustu viku. Til að gera langa sögu stutta:

- sá auglýst starf við Bangor University í Wales sem var ansi nærri því að vera draumastarfið. Fannst nú ólíklegt að ég fengi einu sinni viðtal þar sem mig vantar reynslu og svona en sótti nú samt um.

- á sama tíma var ég að bíða eftir athugasemdum frá leiðbeinandanum sem var að bíða eftir að fá athugasemdir frá hinum leiðbeinandum (þessum fyrrverandi sem fór í fæðingarorlof og er núna aukaleiðbeinandi). Leið og beið og ég var farin að sjá fram á að ná ekki að klára þetta áður en ég færi heim.

- fæ póst frá Bangor University og ég boðuð í viðtal. Kemstu 5. des? ööö kíki á flugmiðann heim til Ísland, 6. des, umm já ekkert mál. Panta flug til Liverpool fimmtudaginn 4. des og til baka kvöldið 5.des.

- fæ svo loksins póst frá leiðbeinandanum á föstudegi, viku fyrir viðtal. Ég hafði beðið hana að skrifa staðfestingarbréf um að ég væri alveg að klára fyrir LÍN sem voru farnir að anda niður um hálsmálið á mér. Hún sagði að ég skildi bara laga þetta, þetta og þetta og skila þessu bara inn í næstu viku og hún skildi gefa mér einkunina þá til að ég gæti sent námsárangurinn inn. Ö ég þarf þá að skila á miðvikudaginn...

- vinn að ritgerðinni um helgin og fæ svo fund með leiðbeinandanum á mánudeginum til að fá svör við nokkrum spurningum. Hún segist vera búin að ákveða hvað ég fæ í einkunn, ég samt ekki búin með ritgerðina, og segir mér hana og gefur mér umsögn. Segir mér svo að koma bara fyrir hádegi á miðvikudeginum og sýna mér ritgerðina og þá muni hún skrifa undir einkunina, svona ef þetta lýti vel út.

- Á þriðjudagskvöldið fæ ég póst með athugasemdum við málfar, setningaruppbyggingu og svoleiðis frá enskri stelpu, sem ég þekki, sem vinnur við þýðingar. Hún sagði mér að fá ekki áfall þegar ég sæi athugasemdirnar, hún vinni nú við þetta og væri mjög pikkí. En ó mæ god.
Sem betur fer var Jón Grétar búin að lesa þetta fyrir mig líka svo e-ð var ég búin að laga.
Klukkan 5 um nóttina ákvað ég að þetta yrði að duga.

- Eftir þriggja tíma svefn tók ég lestina til Leiden (ó já við vorum flutt til Nieuw Vennep), lestin sem ég ætlaði að taka kom ekki svo ég stóð á pallinum í 40 mín.
Ritgerðin prentuð út, kallinn á prentstofunni gerði ekki alveg eins og ég vildi en hafði ekki tíma né nennu til að röfla.
Eintökunum fjórum hent í kennarann (nei grín). Hún var hress eins og ávallt og sagðist ætla að kíkja á þetta til að athuga hvort hún væri ekki ennþá sammála einkuninni, haha (það fannst mér ekki fyndið).

- restin af deginum fór í að skrá sig úr skólanum (vesen - kellingin var ekkert á því að leyfa mér það), úr bænum (ennþá meira vesen - neyðarhringing til Jóns til að koma með vegabréfið, kvittuðum 2 mín fyrir lokun) , selja hjólið fyrir sorglega lítinn pening (og fá vorkunn pólska hjólamannsins vegna þess að ég væri að fara heim til Íslands - kannski ég kæmi bara strax aftur?), síðasta kaffihúsasetan með Grikkjunum og síðasta pizzan með káli og sýrðum rjóma á Donatello fyrir hjólapeninginn.

Svo bara pakka fyrir ferðina miklu til Wales. Þessi langa saga varð nú ekkert svo stutt svo ég set inn framhaldið síðar....

Thursday 20 November 2008

Ást

Hver man ekki eftir gríðarlega vísindalegum og flóknum útreikningum á ástarprósentum?
Hægt var að sjá á milli hverra var mest ást með að reikna prósentur á milli nafnanna á afar flókinn hátt. Það einfaldaði málin að sjálfsögðu að vita hvaða strákum tók ekki að vera skotin í, best að einbeita sér að gaurnum sem gaf bestu prósentuna.

Hollendingar er nú e-ð á eftir, núna eru Hollendingar loksins búnir að fatta þessa visku. Þeir eru meira segja búnir að tæknivæða þetta - hægt er að senda sms með nöfnunum á sérstakt númer og fá prósentuna senda tilbaka! Í auglýsingunni sést stelpa og strákur á bar, hún sendir sms og úff fær 9% tilbaka! Það er auðvitað alveg glatað svo hún sturtar drykknum sínum yfir strákinn. Óþarfi að eyða meiri tíma í gaur með svona lága prósentu...

Monday 17 November 2008

Nýta tímann

Þegar dögunum hér í Amsterdam fækkar hratt þá er nauðsynlegt að nýta tímann vel.
Á laugardaginn litum við því upp frá tölvuskjánum og fórum við á Van Gogh safnið og sáum James Bond í Tuschinki bíóinu.

Með miðanum á safnanótt sem við fórum á um daginn fylgdi aðgangur að einu safni að eigin vali sem gildir fram að áramótum. Við ákváðum að sjálfsögðu að fá sem mest fyrir frímiðann og fara á stórt safn. Þar er hægt að vera í marga klukktíma ef maður er mjög áhugasamur um málarann og hans list. Kíktum meðal annars á sólblómin, krumpuðu skóna, gula húsið og akrana þar sem krákurnar fljúga yfir.
Einnig eru á safninu verk eftir aðra listamenn og núna stendur yfir sýning á mikilvægum eða merkilegum listaverkum í eigu hollenskra safna. Sáum t.d. vídjólistaverk sem sýndi óeðlilegan handþvott. Aðein sást í hendurnar sem eru þvegnar aftur og aftur, líklega einhver með þráhyggju og áráttursökun. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið þetta verk.

Að fara í bíó í Tuschinki er meira eins og að fara í leikhús heldur en í bíó. Húsið sjálft á sér merkilega sögu og er í afar sérstökum stíl. Salirnir og reyndar allt húsið er mjög flott og þeir sem eru forvitnir geta séð mynd af salnum sem við fórum í hér http://www.pathe.nl/tuschinski/ , myndin ætti að koma upp á forsíðunni.
Við tímdum ekki að spreða í meira en venjulegan miða en líka er hægt að kaupa VIP miða á svalirnar og ennþá flottara er að kaupa miða í "loveseats". Þá fær maður tvöfalt sæti í sérstökum bás og fær veitingar og vín. Ægilega rómó. Svoleiðis miða kaupi ég þegar ég verð rík.

Wednesday 12 November 2008

Gaman

Í gær var dagur St. Martin en þá ganga börn um með ljósaker eða luktir, banka uppá hjá fólki og syngja lög um þennan blessaða Martin og fá nammi í staðinn.
Þegar ég hjólaði heim sá ég fullt af krökkum með ljósaker sem þau höfðu mörg greinilega gert sjálf - mjög skemmtilegt. Þegar ég kom heim sagði Jón að það hefði enginn bankað hjá okkur - sem betur fer. Við áttum sko ekkert nammi til að gefa - var alveg tilbúin að afsaka mig "sorry, geen snoepjes" en það slapp til.

Aðalmál síðustu daga er samt að ég er búin að panta flug heim og lendi á klakanum laugardaginn 6. desember klukkan 15:30.
Búið að vera soldið stress, ætlaði að koma nokkrum dögum fyrr en verðið á fluginu rauk upp úr öllu valdi svo þetta var eins snemma og ég komst með beinu flugi án þess að borga 100 þúsund kall fyrir. Já takk, það er verðið aðra leiðina ef maður pantar ekki nógu snemma og þetta er ekki einu sinni Saga Class sæti. Nei nei bara venjulegt Economy.
Ég farin að hugsa svo mikið um flutninga og hvernig í ósköpunum ég komi öllu draslinu heim að stefnir í vandræði. Jóni finnst ég allavega hugsa of mikið. En hvað um það, ég er alveg að fara heim!

Tuesday 4 November 2008

Útskýring

Best að útskýra gyðingahúfana betur fyrir Evu og Kötu.
Þegar gyðingar fara í synagogue-una þá hylja þeir höfuð sitt til að sýna virðingu. Gyðingahúfan sem ég talaði um heitir Kippah eða Yarmulke og held ég yfirleitt nú til dags einungis notuð af karlmönnum. Einu sinni voru Gyðingar alltaf með svona höfuðfat því það minnir þá á nærveru Guðs en núna yfirleitt bara við trúartengdar athafnir eða annað sem tengist trúnni (t.d. lesa heilagar bækur). Kannski öðruvísi hjá þeim heittrúðu því stundum sér maður menn með Kippah úti á götu.
Þeir sem eru ekki með Kippah þegar þeir koma í synagogue-una fá einfaldlega lánað. Í þá sem við förum voru allir karlmenn með svoleiðis en greinilega ekki verið að hafa áhyggjur af konunum. Ég var ekki alveg með þetta virðingardæmi á hreinu fyrst og tók niður húfuna til að sýna virðingu!

Þessi húfa er nú voða lítil - nær rétt yfir hvirfilinn. Því miður náðist engin mynd af Jóni með höfuðfatið svo mynd af Obama með Kippah verður bara að duga.

Sunday 2 November 2008

Safnanótt

Í gær var safnanótt hér í Amsterdam.
Við keyptum okkur miða og útbjuggum (ég semsagt) mjög metnarfulla dagskrá - nú átti aldeilis að sjá mörg söfn og vera á ákveðnum stöðum og ákveðnum tímum til að hlusta á tónlist eða sjá aðrar uppákomur.
Það reyndist alls ekki einfalt þar sem þúsundir manna voru líka að flakka á milli safna og þar af leiðandi raðir allstaðar. Jazzsöngurinn, gospelkórinn, hennatattoo-ið, galdramaðurinn, daðurkennslan að 18. aldarhætti og ýmislegt annað datt því af dagskránni. Við náðum þó að sjá ýmislegt skemmtilegt.

Kvöldið hófst á Filmmuseum þar sem Bollywood þema var í gangi. Hægt var að læra jóga, láta taka af sér mynd í indverskum klæðnaði og fá snyrtingu en við fátæklingarnir héldum okkur við ókeypis skemmtunina og horfðum á mjög absúrd klippur úr Bollywood myndum. Mjög skemmtilegt.
Næst skunduðum við á Rijksmuseum til að sjá hið rosa fræga verk Damien Hirst "For the love of God" og meistara Rembrandt. Fyrir utan var dágóð röð sem virtist ganga nokkuð hratt svo við ákváðum að skella okkur í röðina. Eftir klukkutíma bið komumst við inn og fannst þessi bið alveg sleppa til. Þegar komið var upp á aðra hæð langaði mig næstum að gráta, þar var önnur röð! biðum semsagt aftur heillengi. Vegna þess hve röðin hreyfðist hægt þá las ég mjög samviskusamlega lýsingar á öllum málverkunum sem ég hefði pottþétt ekki nennt undir venjulegum kringumstæðum. Sem er jákvætt.
Eftir að hafa séð hið rosalega 8.601 demantar á hauskúpu verk Hirst og Næturvakt Rembrandts fórum við á Tassenmuseum (Museum of Bags and Purses). Dásamleg hugmynd að hafa safn bara fyrir töskur og veski! Mér fannst það samt meira dásamlegt en Jóni.
Fjórða stopp var Portugese Synagoge sem er einungis lýst upp með kertaljósi. Þar þurftum við að fara í annað skiptið um kvöldið í gegnum vopnaleit og Jón að vera með gyðingahúfu. Það fannst mér skemmtilegt - líklega í eina skiptið sem ég sé Jón með svoleiðis.

Við enduðum kvöldið í de Nieuwe Kerk sötrandi sérdeilis fínan klausturbjór Það er ekki oft sem maður drekkur bjór í kirkju undir orgelspili en svona er lífið í Amsterdam.

Sunday 26 October 2008

Vetrartími

Í nótt var klukkunni breytt og tekinn upp vetrartími. Þess vegna gat ég sofið alveg jafn lengi og venjulega en samt farið fyrr á fætur. Alltaf gaman að græða tíma.

Hér gerist lítið, ég sit með hausinn fullan af hor og reyni að koma einhverju á blað (eða frekar í tölvuskjalið...). Það gengur frekar hægt þar sem úthald og öll heilastarfsemi virðist vera í lágmarki í þessu ástandi. Notaður snýtupappír er aftur á móti í hámarki og greyið Jón er frekar þreyttur á þessu tissjúi út um allt hús.

Algjörlega þessu óviðkomandi þá hafa Hollendingar gaman af raunveruleikaþáttum - allavega er nóg af þeim í sjónvarpinu, til dæmis survivor þættir, allskonar ástartengdir þættir en ég sá auglýsingu um daginn fyrir það allra besta: Fegurðarsamkeppni fyrir mæðgur! Svo komu myndir af mæðgum í eins dressum tilbúnar að keppa í Frú/ungfrú móðir og dóttir. Að lokum var auglýst eftir þátttakendum, hver vill vera með?

Næsta miðvikudag, þann 29., er nákvæmlega mánuður þangað til að við skilum þessu húsi til eigandanna. Ég er orðin frekar óþolinmóð að komast heim, prenta út ritgerðina og komast úr þessu roki og rigningu í blessaðann snjóinn.
Þá er bara að krossa fingur og vona að næstu vikur verði horlausar (allavega horminni) og kennarinn verði ekki allt of erfiður við mig.

Tuesday 14 October 2008

Fjör

Rétt fyrir kreppu þá keyptum við okkur miða á Emilíönu Torrini tónleika hér í Amsterdam. Á sunnudaginn mættum við á Paradiso, gömul kirkja sem hefur verið breytt í klúbb, ásamt Ingu og Unnsteini. Tók nú ekki mikið eftir öðrum Íslendingum en býst nú við að þeir hafi verið nokkrir þarna.

Tónleikarnir voru mjög skemmtilegir, Emilíana grínaði á milli laga og sagði frá lögunum. Svo var Sigtryggur Baldursson (Bogomil Font) víst kúl á trommunum en ég sá lítið sem ekkert af hljómsveitinni, var ánægð með að sjá e-ð í söngkonuna. Ég er alveg vön allskonar útsýni á tónleikum en það bætir ekki hvað Hollendingar eru helv... hávaxnir.
Það var þó ekki prumpað á mig í þetta skipti. Það er alveg önnur saga, fyrir viku vorum við inni á litlum jazzstað í Leiden með Gísla og Ingu og ég stend fyrir aftan rosalega hávaxinn mann. Allt í einu finn ég gust og þessa svakalegu fýlu, hafði ekki mannfjandinn prumpað svona hressilega - og ég fyrir aftan með hausinn nokkurn veginn í rasshæð á kauða! Það sem á lítið fólk er lagt...
En já tónleikarnir skemmtilegir og við hjóluðum aftur heim áfallalaust. Erum orðin nokkuð flink á hjólunum í miðborginni. Ekkert grín með allt þetta fólk, hjól, vespur, bíla, strætóa og sporvagna.

Nóg fjör hjá okkur - bíðum spennt eftir hvort Landsbankinn millifæri nokkrar evrur fyrir okkur. Búið að leggja inn beiðni og spila út námsmannakortinu. Svo er bara að bíða og sjá...

Friday 10 October 2008

Kreppukrepp?

Eyddum síðustu dögunum fyrir kreppu með Gísla bróður Jóns og Ingu kærustunni hans. Fórum meðal annars til Leiden á bæjarhátíð, borðuðum poffertjes og oliebollen, fórum í tívolítæki en eyddum mest af tímanum hér í Amsterdam. Inga og Unnsteinn komu meira segja frá Rotterdam og við borðuðum svolítið meira, pönnukökur og tíbetskan mat (- our chef is a funny guy - ö já einmitt). Gestirnir fengu meira segja vla og hagel í morgunmat og við Gísli og Inga hristum pönnukökur, egg og beikon fram úr erminni einn morguninn. Það var sko ekki kreppa þá!

Greyin rétt sluppu heim og þá fór geðveikin af stað. Ég ætla nú ekki tala neitt um það - eða ekki mikið allavega. Þetta er útum allt, auðvitað á íslensku miðlunum en líka BBC (sem við einmitt með hér) og Hollendingar eru alveg brjálaðir útaf Icesave. Og maður messar ekki í sparifé nískupúka, ég meina Hollendinga - og það reddast aldrei neitt hjá þeim. Þeir elska að mótmæla og kvarta og röfla og tuða. Guð hjálpi þeim sem þarf að díla við þá þarna á klakanum.

Hvað um það, núna getur maður hætt að hafa áhyggjur af hækkandi gengi og farið að hafa áhyggjur hvort maður nái einhverjum aurum út úr hraðbanka hér. Reynir svo sem ekki á það fyrr en eftir helgi. Eigum nokkra seðla og mat í skápunum - og meira að segja nýlenduvörur eins og klósettpappír, handsápu, tannkrem og smá í sjampóbrúsanum!
Svo við erum bara jákvæð - über alveg - þetta reddast og gæti verið verra. Erum allavega að verða búin hér en ekki nýkomin.
Ef allt fer svo á versta veg þá sendi ég bara Jón niðrá lestarstöð með básúnuna...

Friday 26 September 2008

Aðalfrétt síðustu daga er að við fundum nýtt þak yfir höfuðið. Skruppum á þriðjudaginn til Amsterdam Noord, kíktum á aðstöðuna og gengum út með húslykil og lofuðum að borga leiguna. Þessi íbúð er svo stærsta sem við höfum verið í hér úti, aukaherbergi og allt! núna er því tíminn að koma í heimsókn. Þvottavél og þurrkari, baðker, þráðlaust internet og dadarada ... ofn! núna verður hægt að gera ýmislegt gott mmmm. Við þurfum heldur ekki að bíða lengi eftir fyrstu gestunum - Gísli bróðir Jóns og Inga kærastan hans koma næsta fimmtudag og vígja gestarúmið.
Flutningar hafa í för með sér að reyna að minnka það sem þarf að flytja með sér. T.d. kókosbollurnar sem Eva sendi mér í afmælisgjöf og hangikjötið úr frystinum. Þvílík kvöl og pína.



Kíktum í gær í garðinn Archeon sem er nokkurs konar tímabilagarður. Þar eru sýnd híbýli frá mismunandi tímum, allt frá veiðimönnum fram á miðaldir. Það væri líka hægt að kalla þetta lifandi safn því fólk frá ýmsum tímabilum eru í eða við híbýlin og vinna ýmis störf og segja frá. Hún Judith vinnur þarna og gaf okkur miða, þar var einmitt hún sem hjálpaði mér að flytja og hún er líka ein af þeim sem var með okkur í kastalanum um áramótin. Hún starfar sem skósmiður frá ca. 1340 og sýndi okkur hvernig hún gerir skó og fleira úr leðri.



Endum svo skoðunartúrinn á að horfa á skylmingarþræla berjast í hringleikahúsinu á tímum Rómverja.


Set inni myndir af nýja slottinu eftir helgi, flytjum á mánudag!

Friday 19 September 2008

Bad Orb

Komumst heim heil og höldnu úr svaðilför til Bad Orb. Mikið spilað, hlegið, drukkið og dansað. Aðallega uppi á bekkjum og borðum.
Engin klósett brotin og allir höguðu sér skikkanlega. Svona að mestu allavega.




Bjarki var ekki lengi að ná sér í ein Maβ (líterskúrs af bjór fyrir þá sem eru ekki vel að sér í þýskum bjórfræðum)



Við spiluðum að vanda í tjaldinu, Þórir í stuði fyrir miðju tjaldi og sviðið þarna í fjarska. Að sjálfsögðu var okkur tekið eins og rokkstjörnum. Tjaldið rifnaði af fagnaðarlátum þegar við þrumuðum fyrstu tónunum í gegn.



Það var sko rosalega gaman


Léttur dýraleikur: hvaða dýr er þetta?



Það þýddi ekkert að koma með bjór í stykkjatali. Christoph (eða er þetta Christof?) dældi í okkur bjórnum sem við fengum gefins frá velunnurum sveitarinnar.



Finnbogi mætti með rétta dressið. Reyndar Brynjar líka. Vorum að hugsa um að leigja þá út sem skemmtiatriði til að styrkja fjárhag sveitarinnar.


Laugardagskvöldið byrjaði sakleysislega...


...þetta var ekki einu sinni endirinn!


Það er best að hlífa saklausum lesendum (lesist móðursystrum) við fleiri myndum frá kvöldinu. Myndum eins og af ónefnum einstaklingi að dansa ber að ofan uppi á borði, undarlega mörgum myndum af Brynjari, kappsfullu harðfisksáti og einhver óprúttin aðili hefur tekið myndir af ókunnugum rassi á vélina mína. Í gallabuxum þó.

Aðeins einn Svansari komst ekki heill frá ferðinni, Halldóru tókst að slasa sig daginn fyrir skrúðgönguna miklu og gat engan veginn marserað. Christoph og Christof eiga ráð við öllu og redduðu hjólastól. Halldór ýtti henni svo í göngunni.


Á göngudaginn mikla, sunnudag, var lífið orðið erfitt




ekki bara hjá Möggu...




formaðurinn var bugaður af ábyrgð.

SKÁL!

Tuesday 9 September 2008

ó og æ

Mikið búið að ganga á síðustu daga hér í Leiderdorp.
Þegar Jón ætlaði að vaska upp á föstudagskvöldið kom í ljós að það var heitavatnslaust! fór til eigandans sem býr í hinum enda hússins með miða frá nágrannanum okkur um hvernig ég ætti að útskýra stöðu mála á hollensku.
Ekkert var víst hægt að gera samdægurs svo það var ekki fyrr en í gær, mánudag, sem reynt var að gera við. Fyrst kom í ljós að gaurinn hafði fengið vitlausan varahlut og um kvöldið þegar réttur varahlutur var kominn á svæðið að það var e-ð meira að en hann hélt. Svo enn á ný urðum við að sjóða vatn til að vaska upp og þvo okkur með þvottapoka.
En okkur til mikillar hamingju rann heitt vatn úr krönunum þegar við komum heim áðan.
Jón var ekki lengi að rífa sig úr leppunum og í sturtu - hann er þar enn.

Einnig fengum við póst frá leigusalanum okkar að hún mun koma fyrr heim vegna veikinda móður sinnar. Við þurfum því að fara úr íbúðinni 7. okt í stað 31. okt.
Bölvað vesen - það á eftir að koma í ljós hvert við förum. Spennandi líf - ekki satt?

En það er alltaf e-ð skemmtilegt í gangi, aðalgleðin núna er Bad Orb! fljúgum til Þýskalands á fimmtudaginn og hittum káta Svansara. Síðan verður spilað í drep, eflaust nokkur snitsel og currywurst borðuð og jafnvel nokkrir bjórar sötraðir. Aðalspurningin er hvort varirnar lifi þetta af - spilaformið ekki í hámarki þessa dagana. Þá skiptir maður bara yfir á þríhornið.

Tuesday 2 September 2008

Austurríki

Brunuðum niður til Austurríkis til að vera við brúðkaup Steffi og Wurzel síðustu helgi.

Lögðum af stað á fimmtudeginum og stoppuðum eina nótt í bænum Erlangen. Þar var borðað, örstuttur hringur farinn um miðbænum og svo farið í bólið.

Fyrsta stopp í Austurríki var í Linz:






Eftir bæjarrölt og hádegismat var haldið í kastalann þar sem brúðkaupið var. Keyrðum sveitavegi í gegnum mörg lítil þorp og lengst upp á fjall áður en við komum á áfangastað.

Við fengum herbergi efst upp og greyið Jón var mjög þreyttur eftir að hafa borið töskurnar alla leið upp







Sem er ekki skrýtið þar sem þar voru margar margar tröppur og dularfullir gangar á leiðinni upp.







En útsýnið var líka flott



Brúðkaupið var mjög flott og skemmtilegt. Brúðurin hannað sjálf kjólinn og kápuna sem hún var í; yfir kjólnum var hún í nokkurs konar kápu. Á meðan athöfninni stóð var hún í kápunni en eftir athöfnina fór úr henni og um kvöldið, eftir að veislan sjálf var búin og partýið byrjað, fór hún í annan kjól - eins og þann fyrri en í öðrum litum. Mjög töff. Reyndar kom þetta með að skipta um kjól ekki til af góðu. Klæðskerinn saumaði brúðarkjólinn fyrst í vitlausum lit!
Brúðarvöndurinn var líka skemmtilegur, ekki beint vöndur heldur einhverskonar rósakúla.





Brúðurinn kom til kirkju á hesti



Brúðguminn var heldur ekki í hefðbundum klæðnaði, hann er ekki skoskur - finnst þetta bara svo flott!


Um kvöldið birtust svo riddarar sem börðust um brúðurina. Það var mjög flott, greinilega vel æfðir gaurar. Síðan rændu þeir brúðurinni og brúðguminn þurfti að ráða fram úr leyniskilaboðum og svo syngja til að frelsa brúðurina. Og ekki skemmdi fyrir að vera með svona skemmtiatriði í alvöru kastala.



Brúðguminn náði að frelsa brúðurina




og svo var dansað fram á nótt



Á sunnudeginum var slappað af við spil í kastalanum og síðan farið til Tulln og borðað aðeins og drukkið aðeins meira.

Í gær tók svo við 12 tíma keyrsla aftur til Hollands. Gekk bara ótrúlega vel og mér var jafnvel farin að lítast vel á hugmyndina að vera á kraftmeiri bíl til að geta brunað eins og Audi og BMW gaurarnir.

Wednesday 27 August 2008

Tíminn líður og komið að næsta brúðkaupi

Tíminn líður...
...hratt á gervihnattaröld?
...og það gerist ekkert?

hvort er það eins og í Gleðibankanum eða Meistaranum og Margarítu? eiginlega bæði.
Ég hef hreinlega ekki undan að skrifa fréttir héðan úr Leiderdorp.

Afmælisdagurinn var afar ljúfur, fékk nýtt brauð og kökusneið í morgunmat, Jón bæði eldaði og bakaði pönnukökur og Wim og Marielle komu í kaffi. Jón neitaði að fara með mig neitt þar sem ég myndi bara detta á hausinn...
Fengum líka boð í næsta brúðkaup sem verður í Þýskalandi í október. Hvar endar þetta eiginlega?

Daginn eftir komu Halldóra og Snæfríður og voru fram á mánudag. Þetta var fyrsta stopp á interrailferðlaginu þeirra og að sjálfsögðu jós ég úr viskubrunni mínum um lestarferðalög og áhugaverða staði. Ég hefði náttúrlega getað bara skipulagt þetta fyrir þær en þær eru ekki jafn spenntar fyrir Austur-Evrópu eins og ég.
Stelpurnar voru teymdar um Amsterdam, Leiden og Rotterdam og það helsta skoðað. Veðrið var ekkert sérstakt en það kom ekki að sök þar sem Halldóra var einstaklega vel útbúin með ullarsokka og flíspeysu með í för!
Síðasta kvöldið þeirra fórum við svo í grískt matarboð hjá Eleni og Spiros. Mamma hans og pabbi voru í heimsókn og því hentugt að nota þau til að elda ofan í gestina! Auk okkar voru líka nokkrir Ítalir og Grikkir í mat.
Fræddum lýðinn m.a. um jarðhita, fólksfjöldann á Íslandi og stærð landsins, innflytjendur, Evrópusambandið, silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum og aðstöðu til búsetu á hálendinu.
Mér finnst að Íslendingar erlendis ættu að fá laun frá ríkinu fyrir að standa í allri þessari landkynningu.

Restin af deginum í dag fer í að undirbúa næstu brúðkaupsferð. Pakka inn gjöfinni frá okkur (ullarvettlingar frá ömmu Jóns), pakka dótinu og útbúa okkar hluta af hópgjöfinni sem er uppskriftarbók. Hver á að koma með þrjár uppáhaldsuppskriftir og ekki verra að myndskreyta. Okkar framlag verður grjónagrautur, lambalæri og tvenns konar ís (jájá við gátum ekki verið sammála)
Grjónagrauturinn mallar í pottinum en myndskreytingar við lambalærisuppskriftina verður bara að koma af netinu, hér er ekki aðstaða til slíkrar matargerðar. Síðan er afar nauðsynlegt að útbúa báða ísréttina til að fá flottar myndir. Og til að fá að borða ísinn.
Í fyrramálið verður bíllinn sóttur, keyrt til Munchen og svo restin á föstudaginn.
Brúðkaupið verður í kastala (auðvitað!) og brúðhjónin verða, ef ég skildi allt rétt, í hefðbundum austurrískum búningum. Spennandi!

Að lokum ein snilld - borðið er svo nálægt eldavélinni að ég get verið í tölvunni og svo bara teygt mig í sleifina og hrært í grautnum!

Monday 18 August 2008

Margt og mikið að ske

Tíminn líður afskaplega hratt þessa dagana. Jón kominn frá Íslandi, búin að hitta leiðbeinandann í síðasta skipti - frúin farin í fæðingarorlof, flugum til Noregs í brúðkaup og erum komin heim aftur.

Lentum seint um kvöld á Gardemoen og ákváðum að taka hraðlestina inn í Osló. Þar byrjaði áfallið sem entist út ferðina - verðin í þessu landi! það er allt svo dýrt! Hámarkið var þegar við settum á kaffihús í Osló á föstudeginum og keyptum einn bjór og einn kakóbolla á ca 1500 kall. Þeir sem eru vanir hollensku bjórverði fá bara hland fyrir hjartað við að punga út 1000 kalli fyrir bjór.
Í Osló stóð yfir jazzhátíð, við sáum litla skrúðgöngu í anda New Orleans þar sem hressar kellur dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn og ætluðum að hlusta á eina tónleika en fórum eftir tvo lög. Spiluðu bara einstaklega leiðinleg lög.
Skoðuðum nýja óperuhúsið og gengum upp á þak á því. Þar er mjög fínt útsýni yfir fjörðinn og borgina. Það eru miklar framkvæmdir í gangi og er víst verið að breyta svæðinu í kringum lestarstöðina og óperuhúsið mikið.
Talandi um lestarstöðina þá hef ég sjaldan séð eins mikið af dópistum og þar í kring. Sáum t.d. einn með buxurnar á hælunum að leita að nothæfri æð. Geðslegt. Osló er víst heróín-höfuðborg Evrópu samkvæmt Norðmanninum sem við gistum hjá fyrstu nóttina.

En að aðalmáli ferðarinnar - brúðkaupið heppnaðist vel, bæði sögðu já og allir skemmtu sér vel í veislunni. Norðmennirnar héldu þó full mikið af ræðum fyrir minn smekk, en kannski ekki að marka mig sem skildi ekki alveg allt sem var verið að segja.
Mér tókst þó að fljúga á hausinn og snúa á mér ökklann þannig að ég hélt mig til hlés á meðan Jón sýndi hæfileika sína á dansgólfinu.

Þegar heim var komið biðu skilaboð frá leigusalanum. Hún er í Hollandi í viku vegna veikinda móður sinnar og kom til að sækja dót í íbúðina. Einnig ætlar hún að hafa köttinn hjá sér yfir nóttina en hann verður hér yfir daginn. Ég er nú bara ánægð með það, þá er ekkert sem truflar svefninn.
Við vonum bara að mamman hressist því í samningnum okkar er klausa um að leigusalinn geti komið fyrr tilbaka og fengið íbúðina ef e-ð alvarlegt kemur upp á.

Talandi um íbúðir þá er íbúðina okkar í Furugrund laus frá 1. okt ef einhvern vantar íbúð í einn mánuð eða lengur.

Sunday 3 August 2008

Versló

Það er versló, það er kvöld og ég er að læra. Þetta er í fyrsta skipti og líklega, já vonandi, síðasta skipti sem ég sit á sunnudagskvöldi um versló að læra.

Fyrir 10 árum klæddi ég mig í ægilega flottar rauðar buxur og jakka úr Spútnik og við Steinunn fórum í KA heimilið á ball. Komum líka við á Mongó og töluðum við Hauk sem var að vinna, kannski borðuðum við pizzu. Gott ef við hittum ekki Sigga Binna, Helga Túl og fleiri gaura.
Bærinn alveg stútfullur af fólki og mikið stuð. Halló Akureyri alveg í hámarki þarna held ég.
Ég man eftir að vera samt rosalega glöð að vera ekki í tjaldi á KA svæðinu. Þetta var frekar subbulegt og lúxus að geta bara labbað heim og sofið í sínu rúmi.

Hvað ætli ég verði að gera á sunnudagskvöldi um versló eftir 10 ár? hvort ætli sé líklegara að ég verði í KA heimilinu eða að læra?

Monday 28 July 2008

...

Móskítóflugurnar halda áfram að japla á mér en með ofnæmistöflur í annarri og krem í hinni þá tekst mér að halda bitunum ágætlega niðri. Klæjar samt alveg nóg.
Keypti svo í dag moskítófælu sem maður stingur í samband og á að gefa frá sér hátíðnihljóð sem heldur flugunum í burtu. Eleni sagði að það virkaði og nú er bara að bíða og sjá.

Um helgina var kaffihúsaseta að hætti Grikkja rifjuð upp. Klukkutímarnir voru fleiri en hægt er að telja á fingrum annarrar handar og kvöldmaturinn ekki borður heima. Ágætt að vita að hæfileikinn til að sitja á rassinum og tala lengi lengi hefur ekkert minnkað. Ég hafði nú heldur engar sérstakar áhyggjur af því...

Í gær fórum við (ég, Eleni og Dorita) á Mama Mia í bíó. Fyrst ég gat ekki farið með sama hópnum og ég fór með á söngleikinn í London þá var það bara það næst besta - að fara með Grikkjum. Svona fyrst að sögusviðið er grísk eyja. Þær voru ánægðar með myndina enda ýmislegt týpískt grískt í myndinni, eins og t.d. gamla konan með viðinn á herðunum sem kastaði honum frá sér til að dansa með hópnum. Svona eru víst gamlar konur á grískum eyjum. Ekki dansandi kannski en klæðnaðurinn passaði.
Það er alltaf gaman að fara í bíó hér, salurinn minnir meira á leikhús heldur en bíó, ekkert high tech surround dolby sound system dæmi og engar auglýsingar. Myndin byrjar bara akkúrat, ekkert í gangi á skjánum á undan.
Í þessu bíó er ekki hægt að fá popp, í staðinn getur maður fengið sér flögur með gosinu. Eða bara fengið sér bjór eða rauðvín.

Veðrið er, tja, fer eftir því hvernig litið er á málið. Það er vel heitt og rakt sem þýðir að hjólreiðar enda með mun meiri svita en venjulega. Þar sem ég hjóla líka mun meira en venjulega núna eftir að ég flutti þá endar þetta með allsherjar svitabaði. Alveg dásamlegt.
Heitt og rakt veður þýðir líka að það er leiðinda molla á svefnloftinu svo ég endist ekki svo lengi þar á morgnana. Hvort það sé gott eða vont er stóra spurningin...

Tuesday 22 July 2008

Nýtt lúkk

Vaknaði í gærmorgun með nokkur bit í andlitinu. Ekkert nýtt við það, ég er með svo gott blóð - tók ofnæmistöflu og hugsaði ekki meir um það.

En í morgun vaknaði ég svona sæt

Þótt ég hafi nú litið mun verr út eftir ofnæmisviðbrögð vegna dularfullra skordýrabita (fílamaðurinn í Danmörku '98) þá var hálfóþægilegt að geta ekki opnað augað almennilega. Ég ákvað því að fá tíma hjá lækni.
Eftir nokkur símtöl fékk ég tíma, meira segja samdægurs! Réttara sagt hringdi bara þangað til ég fann tíma samdægurs.

Eftir að hafa útskýrt -dóttir/-son kerfið hafði læknirinn áhuga á að vita hvort Íslendingar væru hamingjusamasta þjóð í heimi. Eftir að hafa rætt málið ítarlega úrskurðaði hann að ég væri líklegast með ofnæmi fyrir moskítóbiti og gaf mér lyfseðil fyrir ofnæmistöflum og kremi. Að lokum varð hann að sjálfsögðu að fá að pota aðeins í kúluna góðu á enninu og velta fyrir sér hvað þetta væri nú eiginlega. Virðist mjög skemmtilegt meðal lækna.

Sunday 20 July 2008

Nýja íbúðin

Best að verða við óskum um myndir af nýju íbúðinni. Þessar myndir voru teknar þegar ég fór að skoða íbúðina- núna er allt fullt af drasli því daman skildi allt dótið sitt eftir og það er ekkert geymslupláss hér. Ferðatöskurnar og allt dótaríið sem var í geymslunni á Morsweg verður bara geymt upp við vegg. Bækur, möppur, eldhúsdót og bara allt dótið sem komst inni í skáp eða í hillu verður bara geymt í kössunum eða dreift smekklega um. Mjög lekkert.

Hér eru nokkrar myndir:


úr stofunni


baðherbergið (gul klósettseta!)


eldhúsið, stiginn upp á svefnloftið og svo sést aðeins í köttinn Tómas



séð niður af svefnloftinu

Eins og sést er sú sem býr hér afar litaglöð - bleikt, gult, rautt, grænt. Hér er heldur ekkert verið með neitt pjatt eða verið að endurnýja það sem mögulegt er hægt að tjasla upp á. Bæði kraninn í eldhúsinu, glugginn á baðinu og ryksugan eru vel teipuð saman, smá lekur úr vatnskassanum á klósettinu og í sturtunni vantar plastdótið á heitavatnskrananum. En þetta virkar allt svo sem og greinilega óþarfi að vera e-ð að kosta einhverju til við viðgerðir.

Saturday 19 July 2008

Flutt

Jæja það hafðist, komin í sveitina í Leiderdorp.

Þessi íbúð hefur nú enga kosti framyfir Morsweg svona fyrir utan það að hér ekki eins rosalegur raki innandyra og staðsetningin býður upp á gríðarlega hjólanotkun. Gaman að því.

Kötturinn Tómas lyktaði tortrygginn af öllu draslinu sem var hrúgað á gólfið og fór svo bara út. Í gærkvöldi klappaði ég honum voða mikið og hann malaði eins og hann fengi borgaði fyrir það. Hálftíma seinna sendi ég hann svo fram á gang til að sofa í kassanum sínum. Hann er sko vanur að fá að sofa í rúminu með eigandanum. Já nei takk. Ekki nema von að greyið sé ringlað í dag og haldi sig bara frammi á gangi.

Veðrið er búið að vera frekar skítt í dag, rigning með enn meiri rigningu á milli. Til dæmis einmitt þegar ég var á leiðinni heim úr búðinni áðan kom þessi hrikalega demba. Alltaf hressandi að verða gegnblaut og þurfa að byrja á því að skipta um öll föt þegar maður kemst í hús.

Thursday 17 July 2008

Síðasti dagurinn

Dagurinn í dagur er síðasti dagurinn hér á Morsweg 39.

Búin að pakka á fullu og byrjuð að þrífa, geri varla mikið annað. Á morgun hitti ég svo leigusalann okkar og skila af mér íbúðinni.
Á morgun flyt ég því sem næst út í sveit. Ekkert bakarí á horninu, engin lestarstöð rétt hjá, enginn banki, súpermarkaður, veitingastaðir já eða bara heill miðbær í göngufjarlægð. Ekkert fólk sem ég þekki nálægt.
Á morgun tek ég líka við kettinum Tómas. Mér finnst það mjög undarleg tilhugsun - vona bara að hann verði ekki með mikið vesen eða taki upp neinu til að gera mér lífið erfitt. Svona lengi sem hann heldur sér frá rúminu þá verð ég þokkalega sátt. Leyfi mér samt að stórefast um að ég verði hugfangin af köttum eftir þessa sambúð.

Þetta er búið að gerast mjög hratt, ákveðið að fara fyrr úr íbúðinni á mánudag og flyt á föstudag. Hraðar en ég hefði kosið en ágætt að rumpa þessu af og svo gerir maður ýmislegt fyrir peninga, nú á síðustu og verstu tímum.

Best að halda áfram að þrífa og njóta íbúðarinnar síðasta daginn.

Tuesday 8 July 2008

Komin heim - aftur

Eftir helgarstopp í Þýskalandi er ég komin heim til Leiden.

Eftir hið ljúfa líf á Íslandi, afmæli, ættarmót og aðra hittinga með tilheyrandi áti skellti ég mér í enskt-þýskt brúðkaup í kastalanum í Rieneck.

Reyndar var þetta meira en eitt stykki brúðkaup, dagskráin byrjaði á fimmtudagseftimiðdegi og endaði á sunnudeginum og það var sko nóg um að vera. Ég var hluti af WOT (Wedding Organization Team), ó já þetta er ekki grín heldur brjáluð þýsk skipulagning, fékk barmmerki með titlinum "usherette", þjónaði ýmsum hlutverkum og þurfti að mæta reglulega á fundi til að fara yfir stöðu mála. Ég t.d. afgreiddi á barnum, hjálpaði til að skreyta salinn, sá um að koma kexi á varðeldinn og stjórnaði umferðinni til og frá kastalunum á brúðkaupsdeginum. Allt gekk smurt fyrir sig og stanslaust stuð, á dagskránni var á meðal annars grill, söngur, gönguferðir, leikir og varðeldur.

Á laugardeginum var sjálft brúðkaupið. Athöfnin var lengri en þær sem ég hef verið við á Íslandi og meira talað um Guð og Jesú. Mér fannst nú skrýtnast að brúðhjónin sátu með bakið í gestina, kannski til að vera með athyglina alveg á prestinum?
Eftir mat, ræður og skemmtiatriði var svo dansað fram á nótt. Reyndar næsta dag því þegar við fórum að sofa klukkan fimm var ennþá góður slatti á dansgólfinu þar á meðal brúðhjónin. Slökkt var á tónlistinni klukkan sjö um morgun og þá voru brúðhjónin ennþá á svæðinu!

Jón er farin til Íslands að vinna fyrir salti í grautinn (já eða öllum brúðkaupsferðunum) og er ég því ein í kotinu. Nóg af lærdómi og íbúðarstússi svo þessi á eftir að líða hratt rétt eins síðustu mánuðir. Hvert fer allur þessi tími?

Tuesday 17 June 2008

Komin heim

Ég ákvað að koma aðeins fyrr heim - ekkert að gera í útlandinu - og kom beint frá Kaupmannahöfn til Akureyrar á föstudaginn. Óþarfi að eyða tímanum í Reykjavík ef maður kemst hjá því.

Mamma hélt að ég kæmi heim á mánudeginum svo ég náði að koma henni aðeins á óvart. Hún hélt þó ró sinni enda þarf meira til að slá hana út af laginu.
Síðan er búin að vera stanslaus gleði - útskriftarveisla þar sem ég náði að hitta ansi marga ættingja, vinkonuhittingur þar sem gerð var tilraun til að spila Pictionary en töluðum eiginlega of mikið og spilið var aldrei klárað, kíkt í bæinn og forðast sér fljótt úr honum aftur og svo kom Jón bara til þess að hitta mig í einn dag. Alveg eins og í "gamla daga".

Á næstu dögum er planið að vinna aðeins í ritgerðarmálum (*hósthóst*), borða mikið, afmæli hjá mömmu, kanna allar breytingarnar í bænum, kíkja aðeins suður og fara oft í nýju fínu sturtuna.
Ef einhver vill hitta mig þá er ég hjá mömmu og pabba (í nýja húsinu) og með gamla símanúmerið mitt.

Thursday 5 June 2008

Hratt?

Ég fór áðan að kaupa afsláttarkort í lestarnar. Jón er ekki heima næstu tvo mánuði svo ég get ekki notað hans kort, held að þetta borgi sig af því maður fær alveg 40% afslátt með svona korti. Svo eru líka að koma gestir og ég verð að hlífa þeim við okurverðinu í lestarnar.
Það gengur allt með sniglahraða í þessu blessaða lestarfyrirtæki eins og annars staðar hér í Hollandinu. Ég fyllti allt samviskusamlega út og skila inn, gaurinn hress með allt saman og segir svo: þú færð svo kortið eftir þrjá mánuði! jesús hversu lengi er verið að plasta eitt kort? gamanaðþessu.

Búin að redda nýrri íbúð - það fylgir köttur með! var ekki viss um að taka að mér aukaheimilismeðlim fyrst en ákvað að nú sé tíminn til að eiga gæludýr. Hef aldrei átt dýr - tja fyrir utan gullfiskinn sem Jón fékk reyndar í afmælisgjöf. Hann lifði nú ekki lengi greyið, vona að það segi ekkert til um framtíð þessa kattar.
Þurfum að vísu að leigja lengur en við þurfum svo ég verð hér ein með tvær íbúðir í júlí. Vantar einhvern gistingu?

Sunday 1 June 2008

Kaffi!

Langt síðan einhver hefur kallað á mig í kaffi.

En þetta er kaffitíminn minn í dag:



Fór á markaðinn í gær og missti mig aðeins í ávaxtakaupum. Hefði átt að taka mynd af öllu saman í gær. Keypti eina melónu, hálft kíló af kirsjuberjum, 2 box af jarðberjum sem var örugglega heilt kíló! Það var tilboð ef maður keypti tvö box af jarðaberjum svo ég ákvað að slá til en gaurinn tók ekkert box heldur sturtaði heilum helling af berjum í bréfpoka og rétti mér.
Sem þýðir að ég er búin að borða ber í kaffinu í gær, aðeins seinnpartinn, aðeins um kvöldið, svoldið þegar ég vaknaði og svo núna í kaffinu.

mmmmmm

Friday 30 May 2008

Eftir endalausan vetur með alvöru óveðri og sprengju rétt hjá íbúðinni okkar kemur stór jarðskjálfti! alltaf missir maður af einhverju. Ekki að það sé neitt mjög jákvætt við að lenda í jarðskjálfta heldur er það bara svo merkilegt. Ég man vel hvað ég var að gera í skjálftanum 17. júní 2000.
Það sem mér fannst merkilegt í gær var að ein grísk bekkjarsystir mín fór að spyrja mig á msn um skjálftann - bróðir hennar á Grikklandi lét hana vita af skjálftanum. Ég vissi ekki að þetta hefði komist í fréttir í útlöndum. Hún sagði mér líka að á hennar svæði fyrir einhverjum árum kom minni skjálfti en þessi heima í gær og þá dó fullt af fólki og margir bjuggu í mörg ár í bráðabirgðahúsnæði.
Þegar ég sagði henni að m.a. væri stærsta fangelsi landsins þarna sá hún fyrir sér að allir fangarnir hefðu sloppið og allt væri í uppnámi. Ég gat nú útskýrt að húsin væru nú sterk og svona. Ætli það sé extra mikið af steypustyrktarjárni á húsunum á Litla-Hrauni?

Hér í Hollandi er helst í fréttum að Jón flaug heim á miðvikudag og skildi mig eftir eina í kotinu. Sem þýðir að það er ennþá erfiðara að vakna á morgnana, ekki alveg mín sterka hlið.
En eftir rétt rúma viku koma Sissi og Agnes og svo förum við öll saman heim.
Tíminn líður hraðar og hraðar, það er að koma júní!

Monday 26 May 2008

Líf og fjör

Fékk að horfa á eurovision en ekki hlusta mikið. Sæst var á hafa sjónvarpið í gangi og hækka svo þegar land sem átti fulltrúa á svæðinu var á sviðinu - ég sá Ísland, Spán, Finnland og Grikkland.
Ég tók hlutverki mínu alvarlega og mætti með íslenska fánann og brennivín. Grikkirnir voru búnir að lofa að dansa með mér úti á götu þegar Ísland myndi vinna en öllum að óvörum unnum við ekki. Og ekki Grikkland heldur! Þeim fannst söngkonan sín heldur ekki góð - þess vegna unnu þeir sko ekki...
Ég fékk næstum reykeitrun í partýinu og er ennþá með skít í hálsinum.

Í síðustu viku kom í ljós að það eru fleiri Íslendingar hér í Leiden. Við erum búin að lifa í þeirri blekkingu í allan vetur að við séum þeir einu. Að sjálfsögðu eru Íslendingar allsstaðar! og að sjálfsögðu búin að hitta þau tvisvar og tala og tala íslensku.

Núna erum við farin að leita að nýjum heimkynnum. Samningurinn okkar rennur út 1. ágúst svo það er best að fara að horfa í kringum sig. Hringi út af einni íbúð í dag, einhver er að skoða á morgun og ef sá vill ekki íbúðina þá má ég koma og skoða. Er að vísu í næsta þorpi en mjög ódýr. Maður fær þá bara ennþá stærri kálfvöðva :)

Friday 23 May 2008

This is my life...

Geri ráð fyrir að allt sé að fara yfir um að gleði á Íslandi í gær og dag. Allir að skipuleggja júrópartý, allir að grilla og læti.

Stuðningslið Íslands var mætt í gærkvöldi á hommabarinn til að hvetja okkar lið og mætti með fána við mikinn fögnuð. Eftir að lögin voru flutt bárum við bækur okkar saman við hommana eða réttara sagt, þeir voru samviskusamlega búnir að skrifa niður hverjir þeir héldu að kæmust áfram og við ákváðum að vera sammála. Enda var Ísland á listanum þeirra.
Þeir voru nokkuð sannspáir svo ég ætla að fylgja þeirra spá og segja að Svíþjóð vinni á laugardaginn. Þegar Svíagellan steig á svið var tekið undir og mikið fjör. Svo var t.d. Úkraínu með Shady Lady var líka spáð góðu gengi.

Á laugardaginn verður veðjað af alvöru á barnum og verðlaun fyrir þann sem kemst næst úrslitum. Miðað við stuðið á undanúrslitakvöldunum verður hommabarinn staðurinn til að vera á úrslitunum en "því miður" er nafnadagspartýið á sama tíma. Gott að þetta sé aðal"vandamálið" þessa dagana.

Aðalgleðin í dag er að hópurinn minn kynnti verkefnið okkar, þetta var síðasti tíminn í síðasta kúrsnum. Skrýtið, núna er þetta bara búið - bara eitt verkefni og eitt stykki lokaverkefni eftir....

Wednesday 21 May 2008

Eurovision

Góðann daginn, ég heiti Álfheiður og mér finnst Eurovision skemmtilegt.

Hér þykir eurovision leiðinlegt og bara e-ð sem hommar og "desperate houswifes" horfa á. Svo hafa hollenskir samnemendur sagt mér. Heldur engin eurovision tilboð í búðinni eða neitt neinstaðar sem gefur til kynna að eurovision sé í gangi.
Grikkirnir eru svona mitt á milli. Ég spurði þær um daginn hvort þær ætluðu að horfa og hvort euro væri vinsælt í Grikklandi. Jújú. En þegar ég tók umræðuna á næsta level með að tala um hvaða dag Grikklandi og Ísland væri að keppa og síðan finna út klukkan hvað og á hvaða sjónvarpsstöð þá hlógu þær og fannst ég ægilega fyndin. Þeim finnst ég svoldið klikkuð. Ég held að ég sé frekar normal á Íslandi, eða hvað?
Á laugardaginn er stórt partý af því Eleni, Eleni og Costas eiga nafnadag og ég auðvitað spurði hvort það mætti líka horfa á eurovision. Þær lofa. Annars verð ég bara að sætta mig við þennan menningamun...

Í gær vorum við að gera verkefni og svo var planið að fara og horfa á eurovision. Vinnan drógst á langinn svo það endaði með að fara og borða gríska pítu og svo var klukkan alveg að verða níu (þá byrjaði euro hér). Þá vildu þær aðeins skreppa heim og e-ð vesen. Ég var sko ekki að gúddera það að missa af keppninni, Grikkir eru svo ægilega lengi að öllu sko, þannig að ég fékk Jón til að fara með mér á hommabar og þar horfum við á keppnina. Grikkirnir komu svo um leið og síðasta atriðið var komið!
Mikið hefði nú verið gaman að skilja umræðurnar hjá gaurunum sem voru að horfa. Þeir voru allavega ekki ánægðir með Justin kalkúna, gerðu grín að bingó vöðvum norsku stelpunnar og voru alveg að fíla Belgíu lagið.
Eftir að keppnin var búin voru gömul eurovision lög sett á fóninn og mikið fjör. Ég þekkti auðvitað miklu fleiri lög en Grikkirnir og þeim finnst ég endalaust skrítin að þekkja lög eins "ein bisschen Frieden" .
Gaurinn spilaði Silvíu Nótt og Selmu og þá var sko sungið. Bara ég og Jón samt hahaha.
Eitt besta var þegar barþjóninn dróg upp nunnuhöfuðfat og tók smá Sister Act show. Bara fyndið.

Svo skemmtilegt var að þegar við Jón fórum loksins á óguðlegum tíma (svona á þriðjudegi) þá spurði barþjóninn hvort við kæmum ekki á fimmtudaginn. Held nú það!
Á maður að fara alveg með liðið og mæta með íslenska fánann? vá það væri toppurinn á euro-nörda-vision ferlinu!

Saturday 17 May 2008

Ekki daglegt líf

Í gær fórum við í æsispennandi lestarferð út á Schipol. Sátum í mesta sakleysi þegar inn kemur maður (lögga, her eða tollur? hver veit) með leitarhund sem æddi um allt og þefaði af öllu og öllum. Það var greinilegt að sumum farþegum var ekki alveg sama.
Hundurinn var sérstaklega spenntur fyrir básnum okkar og hinum í kring. Allt í einu fer maðurinn að slá ákveðið í skjalatösku manns sem sat hinum megin við ganginn og skipar hundinum þangað. Þessu æsispennandi upplifun endaði með því að taskan var opnuð og hundurinn fann eitthvað málmstykki.
Svo kom í ljós að þetta var bara einhvers konar æfing eftir því sem ég skildi, verið að þjálfa hundinn. Kannski til að leita að sprengjum? hryðjuverkaárás í uppsiglingu?

Dagurinn í dag var sko ekki jafn spennandi. Ég var á leiðinni út til að hitta hópinn minn og þurfti aðeins inn í geymsluna sem er undir stiganum.
Þá sá ég e-ð loðið á gólfinu sem leit út fyrir að vera dauð mús. Mér brá svo að ég skellti hurðinni strax. Hvernig komst svona dýr þarna inn? utan frá? húsið er ekkert sérstaklega þétt. Eða er gat á veggnum inn í geymslunni?
Ég fór inn í geymsluna í gærkvöldi og þá var ekkert grunsamlegt á gólfinu. Getur músin drepist svona hratt? ef hún komst inn ætti hún að komast út aftur, er það ekki? er músagangur í íbúðinni?
Jón fór til Þýskalands í gær svo ekki gat ég skilið dýrið eftir á meðan ég færi út.
Eftir talsvert japl við sjálfa mig framleiddi ég smá hávaða til að athuga hvort dýrið væri dautt. Greinilega dautt svo ég náði í sleif og lítinn pappakassa, skóflaði dýrinu oní og henti kassanum út á bak við.
Það versta var samt eftir, ég tók eftir að það var e-ð ennþá á gólfinu þar sem dýrið var og þegar ég horfði betur var það iðandi. Ojojoj það voru ormar eða lirfur undir hræinu!
Hélt að það tæki lengri tíma en hálfan sólarhring að koma svoleiðis ófögnuður.
Var ekki lengi að sækja ryksuguna.

Kíkti út í kassann þegar ég kom heim og held að ég hafi rétt fyrir mér með greininguna á lífverunni. Held af stærðinni að dæma að þetta sé ekki rotta.
Nú sit ég hér með hroll og hef mig ekki í að tékka á hvort búið sé að japla á nóakroppinu og harðfisknum.

Wednesday 14 May 2008

æji

- pabbi og mamma Jóns fóru heim í gær. Endalaust út að borða, kaffihúsahangs, túrsistarölt og siglingar búnar. æji.

- skilaði verkefni í gær sem var ekki alveg nógu vel unnið. æji.

- skil á hópverkefni á mánudaginn, helgin fer pottþétt öll í að merja þetta í gegn. Grikkjunum finnst þetta geðveikt leiðinlegt svo ég þarf að vera mega jákvæð. æji.

- kennarinn í áfanganum sem þessi verkefni eru í er mjög svo ströng og krefst mikils af manni ef maður vill góða einkunn. Venjulega fínt en ekki núna, æji.

- ég var bitin af einhverju kvikindi og fékk þessu fínu ofnæmisviðbrögð. Rautt þykkildi, um 9 cm í þvermál, prýðir nú vinstra lærið og svo er eitt lítið á efri kjúkunni á hægri vísifingri. Svoldið óþægilegt að beygja. æji.

- ég hef nú fengið mun verri og ljótari viðbrögð en þetta og mun núna taka ofnæmislyf á hverju degi til að draga úr næsta biti. vúhú.

- ég ætla heim í júní. Ætla að vera mest á Akureyri. vúhú.

Tuesday 6 May 2008

Allt í fína

Lífið lullar áfram hér í Leiden.
Reyni að læra en gengur hægt. Bara nóg annað að gera, Drottningarnótt í den Haag með Línu og co, Drottningardagur í Amsterdam með hálfri hollensku þjóðinni, kaffihúsahangs með Grikkjunum, hópa"vinna" með Grikkjunum, út að borða með Grikkjunum....

Lenti í verstu seddu síðari tíma á sunnudaginn þegar við fórum á grískt veitingahús með Grikkjunum og ég borðaði ægilega yfir mig. Mér leið bókstakflega illa á eftir, þráði fátt heitar en að leggja mig aðeins þarna á staðnum. Engir smáskammtar þar og svo þurfti ég aðeins að smakka hjá hinum. Þetta hefði sloppið ég hefði ekki asnast til að fá mér eftirrétt. En það var skylda að fá sér baklava - Jón vildi ekki deila með mér einum skammti svo þetta var tæknilega séð ekki mér að kenna!

Tókst að slasa mig við að skúra klósettgólfið áðan. Eigum engar skúringargræjur svo ég nota pabba tækni og fer á fjórar fætur með klútinn og þvæ gólfið. Í lokin skar ég mig á glerbrot á hendinni! atvinnuslys og ég er frá klósett-þrif-vinnu næstu vikurnar.
Hvað fólk er með glerbrot á klósettgólfinu? maður spyr sig.

Mamma og pabbi Jóns koma á morgun svo það verður ljúft líf næstu daga - skoðunarferðir og afslappelsi í sólinni.

Saturday 3 May 2008

hvernig á að vera hægt að læra í svona veðri?





Monday 28 April 2008

Grískir páskar

Í gær var páskadagur samkvæmt grísku rétttrúnaðarkirkjunni (Greek orthodox) og að sjálfsögðu var slegið upp veislu. Á páskadag er venjan að grilla heilt lamb og borða, drekka og dansa allan daginn eins lengi og maður endist. Fólk er búið að fasta í 40 daga, tja núna fasta víst flestir í viku, svo allir eru rosa svangir.

Við mættum klukkan tvö og fórum heim um miðnætti eftir stanslaust át, drykkju og dans. Ég sýndi víst mikla hæfileika í grísku dönsunum og var úrskurðuð Grikki. Þannig að ég kem ekkert heim í haust, ég er farin til Grikklands!

Spiros að grilla


mikið borðað

Síðan runnu víst 123 bjórar og 15 flöskur af víni ofan í 15 manns og myndirnar mínar undarlega lélegar. Þeir sem vilja samt sjá myndir og misgóð myndbönd geta kíkt á síðuna hans Jóns.

Mætti svo í tíma í morgun, allir hressir og kátir!

blóm og bruni

Hvað gerir maður þegar maður á að vera heima og læra? jú gerir eitthvað allt annað.

Á laugardaginn fórum við í fyrsta hjólatúrinn út fyrir borgina og skelltum okkur til Sassenheim til að horfa á blómaskrúðgöngu. Reyndar var ég næstum jafnspennt yfir að sjá lúðrasveitir og blómin, hvað er betra en lúðrasveitabúningaklæddu fólki í beinum röðum labbandi í takt? reyndar voru sveitirnar sem við sáum í haust flottari en þessar en hvað um það, alltaf gaman að nokkrum mörsum.

Í Sassenheim hittum við Marielle og börn og hjóluðum um túlipanaakra heim til þeirra í Lisse.



Eftir alla klukkutímana í sólinni voru við bæði orðinn ansi rauð og sæt. Fyrsti sólbruni sumarsins í höfn. Falleg bóndabrúnka í uppsiglingu!


Á síðunni hans Jóns er tengill á myndir frá blómasýningunni fyrir þá sem vilja. Og fleiri myndir af bóndabrúnkubrunanum.

Thursday 24 April 2008

Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti í dag en engin skrúðganga og allt eins og á venjulegum fimmtudegi. Skrýtið!

Hrærði í pönnukökur og bauð nokkrum Grikkjum í kaffi í tilefni dagsins. Pönnsurnar þóttu auðvitað ægilega góðar og rabbabarasultan frá mömmu fékk líka góða dóma.
Fyndnast var þegar ég bar fram þeyttan rjóma og stelpurnar spurðu hvort ég hefði gert "þetta" sjálf. Ha? rjómann? já rjómann. Ö já ég þeytti hann. Vá þú kannt sko að búa til mat!
Ég vissi nú ekki að það væri nein matargerðarslist að þeyta rjóma. Þetta þótti þeim samt góð frammistaða.

Svo er bara að rumpa af eina verkefni á morgun og hinn af því á sunnudaginn er páskadagur samkvæmt grísku rétttrúnaðarkirkjunni og þá þarf að gera sér glaðan dag! borða aðeins og skála með Grikkjunum...

Monday 21 April 2008

17° og sól

mmm það er búið að vera yndislegt veður í dag og í gær. Alveg fullkomið að sitja úti og njóta lífsins.

Dagskráin er búin að vera þéttskipuð undanfarið.
Ásgeir kom, borðaði pizzu, drakk bjór og viskí, fékk túr um bæinn og kíkti með í gríska afmælisveislu. Drengurinn dansaði að sjálfsögðu gríska dansa og fékk góða dóma frá stelpunum.

Síðasta vika litaðist af undirbúningi fyrir helgina. Wendy og Chris skátavinir Jóns eru að fara að gifta sig í sumar og ég fékk það verkefni að skipuleggja eitt stykku gæsadag/kvöld/nótt. Verðandi brúður hef ég hitt tvisvar og aðra gesti sjaldnar eða aldrei. Ég lagðist því í rannsóknarvinnu til að kynna mér viðfangsefnið.
Ég viðaði að mér ýmsu og eyddi síðustu vikum í að senda tölvupósta til vinkvenna hennar og rekja garnirnar úr Jóni.

Úr varð heljarinnar dagskrá:
Daman var sótt á hótelið rétt rúmlega tíu um morgunin, byrjaði á smá sögufyrirlestri um Gömlu Kirkjuna til að koma inn kvíða um ægilega leiðinlegan túr. Skundaði svo á næsta pöbb, skellti í liðið einum drykk og dressaði dömuna upp í appelsínugulasta dress norðan Alpafjalla. Appelsínugulur er sá litur sem hún fer aldrei í, hatar bara eiginlega. Svo heppilega vill til að það litur konungsfjölskyldunnar svo af nógu er að taka hér. Þetta vakti mikla gleði vegfaranda sem héldu að hún væri í einhvers konar þjóðbúning og daman rataði í mörg myndaalbúm.
Ég útbjó ratleik sem var með vísbendingum á frönsku, hollensku, ítölsku, ensku og grísku sem leiddi okkur um Amsterdam. Fyrsta stopp var að finna systur dömunnar sem var óvæntur glaðningur. Hún lék myndastyttu á aðaltorginu og besta var að daman þekkti hana ekki nærri strax! það var sko fyndið.
Best að koma þessu frá sér í fáum orðum: Daman seldi smokka og te (hún er ensk sko), söng ABBA fyrir vegfarendur, keypti lúxuskonfekt fyrir ágóðann, fékk hjálp við að þýða vísbendingarnar í ratleiknum, borðuðum pönnukökur í hádegismat, við kíktum aðeins í Begijnhof, á Sex Museum, fórum í nudd, borðuðum indverskan mat um kvöldið, mikið talað, fórum á coffeeshop og dönsuðum fram á nótt.

Allir voru ægilega glaðir með daginn og ég var þreytt í gær. Eiginlega í dag líka.

Það er farið að styttast í sumarið með brúðkaupsflóðinu ægilega vítt og breitt um Evrópu. Svo er ég búin að fá boð í brúðkaup í Grikklandi næsta sumar! nóg að gera í bransanum.

Tuesday 8 April 2008

Frábært

Sit við tölvuna og skrifa, stoppa aðeins og horfi út um gluggann.
Viti menn, það er maður að þrífa gluggann minn! Ekki veit ég hvort þetta sé innifalið í leigunni eða boði bæjarins en ég ætla allavega ekki að mótmælia.
Sé svo manninn ná í miða í vasann sinn og kíkja á hann. Kannski var hann að fatta að hann átti ekkert að þvo okkar glugga...

Saturday 5 April 2008

Verst af öllu

...er í heimi einn að búa í Reykjavík, kúldrast upp á kvistherbergi einn og hugsa um pólitík
djók

...er að vera ein heima, í sturtu með sjampó í hárinu, hitunin á hitadunknum dettur út, maður verður að gjöra svo vel að skola mest af sjampóinu úr með ísköldu vatni, þurrka af sér mestu bleytuna, skrönglast fram, draga hjólaborðið frá hurðinni að kompunni þar sem hitadunkurinn er, kveikja á hituninni, hlaupa aftur í sturtu og ná í sig hita.

Sem betur fer kom þetta ekki fyrir í dag.

Verst er líka að vera með lagabrot á heilanum. T.d. "Sigurður var sjómaður, sannur vesturbæingur". Verst er að mér finnst þetta ekki skemmtilegt lag og kann bara þessar tvær línur. Annað sem er líka á heilanum á mér "og þá stundi Mundi, þetta er nóg þetta er nóg, ég þoli ekki lengur að þvælast á sjó". Reyndar kann ég alveg lagið en ekki meira af textanum.

Best að einbeita sér að mikilvægari skrifum...

Thursday 3 April 2008

Research proposal

Jón skrapp til Sviss í gær og kemur aftur á sunnudaginn. Á meðan ætla ég að vera mega dugleg að skrifa research proposal. Er reyndar ekki búin að skrifa mikið í dag en fann fullt af greinum til að skoða betur. Markmiðið er að skila til leiðbeinandans á mánudaginn svo hún geti gert athugasemdir. Hitti hana í gær og sýndi henni ritgerðarplanið mitt. Samkvæmt því ætla ég að klára í ágúst og henni fannst það ansi stíf áætlun. Reyndar efast ég um að ég nái að fylgja þessu plani, sérstaklega miðað við öll brúðkaupin sem við ætlum í og gestina sem við eigum von á (eru ekki annars allir á leiðinni í heimsókn?).
Kannski er allt í lagi að seinka ritgerðarskilum, þá get ég bara tekið nokkra aukaáfanga. Svo eru grísku bekkjarsystur mínar að reyna að sannfæra mig um að vera hér áfram. Það eru nokkrar sem ætla ekki aftur til Grikklands og finnst góð hugmynd að ég verði hér líka. Ein er meira að segja að hugsa um að kaupa hús og allt.

Verkefni númer fjögur þessa dagana er gæsun Wendy. Svoldið skrýtið að plana svona þegar maður hefur bara hitt manneskjuna tvisvar. Það gerir þetta líka erfiðara er hvað fólk er lengi að svara tölvupóstum. Þá er ég að tala um útlendinga, aðallega Þjóðverja og Englendinga. Ég er að reyna að fá álit hinna á hinu og þessu sem gengur afar hægt. Nema Lettar er fljótir. Það er greinilegt að það eru ekki allir jafn tölvupóstsvæddir eins og Íslendingar. Tja eða svona flestir Íslendingar...
Allavega er maður svo góður vanur, skrifar póst og fær oftast svar innan sólarhrings.

Eitt af því sem ein vildi endilega að yrði gert er að fara á strippstað. Allt í lagi, ég ákvað að kanna hvort það væri einhver staður í Amsterdam með karlkyns strippara. Mæli ekki með því að setja inn "male stripper Amsterdam" í Google. Þið getið bara ímyndað ykkur hvað kom upp.

Monday 31 March 2008

Sumartími

Í fyrrinótt var breytt yfir í sumartíma. Þá tapaði ég (og allir hinir) klukkutíma. Þannig að þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgun klukkan hálftíu nokkuð sátt við að vakna þokkalega snemma var klukken ekkert hálftíu heldur hálfellefu! svekkjandi.

Hitastigið er á uppleið og í dag er fínasta blíða, kannski ég geti farið að pakka niður vettlingum, húfu og treflum? að vísu spáð köldu næstu þrjá daga svo það er best að bíða aðeins...
En með þessu áframhaldi þarf að stilla viljastyrkinn í botn til að hanga inni og læra. Ekki að ég hafi verið neitt dugleg að læra í rigningunni og kuldanum samt.

Byrjaði í síðasta áfanganum í dag, Interventions in Occupational Health. Mér líst nokkuð vel á byrjunina en kennararinn kenndi mér í haust og það þýðir ekkert hálfkák hjá henni. Ég hef aldrei eytt jafnmörgum klukkutímum per einingu eins og í þeim áfanga í haust. Hún var nú líka ægilega ánægð með mig þá svo það er eins gott að standa sig núna!

Einn áfangi og ein lokaritgerð to go...þetta hefst allt saman...

Tuesday 25 March 2008

Enginn tyggur tannlaus

Svona var málshátturinn í páskaegginu mínu í ár. Opnaði eggið ekki fyrr en í dag, þriðja í páskum, sem hefur aldrei gerst áður.

Páskunum eyddi ég í í Rieneck kastala innan um 100 skáta á skátanámskeiði. Held að það sé rétta orðið fyrir þetta fyrirbæri IMWe. Endurtók nafnið mitt ótal sinnum, útskýrði hvað ég væri að gera í Hollandi þónokkru sinnum og skemmti mér vel. Alltaf gaman að hitta fólk frá mismunandi löndum en það voru svo margir Íslendingar á svæðinu að ég talaði örugglega meira af íslensku en ensku.

Gísli bróðir Jóns kom með páskaegg handa mér (ekki Jóni) svo ég gat tekið þátt í páskaeggjaleitinni sem íslensku krakkarnir skipulögðu. Hver faldi eitt egg og var gríðarlegur metnaður í gangi. Þegar ég komst að því að sá sem ég átti að fela fyrir ætlaði að gera 10 vísbendingar fyrir þann sem hann átti að fela fyrir varð ég auðvitað að gera margar líka.
Mjög seint á laugardagsnóttina þegar flestir voru farnir að sofa læddist ég um kastalann til að koma vísbendingunum fyrir. Þegar ég var að því hitti ég í kastalagarðinum Króatann Vasko sem vildi vita hvað ég var að gera. Honum fannst felustaðurinn minn ekki nógu góður og kom með þá snilldarhugmynd að fela eggið inn í litlum snjókalli sem var gerður fyrr um nóttina. Mér leist auðvitað vel á þetta og meðan Vasko lyfti kallinum mokaði ég innan úr honum til að gera nóg holrúm fyrir eggið.
Án efa besti páskaeggjafelustaður allra tíma!

Annars eyddi ég tímanum í að syngja, prútta um töfralampa, vatn, þræla og aðrar nauðsynjar á markaðnum í lokaleiknum, hlusta á fagra tóna á tónleikum, horfa á leikþætti um örlög kalífsins, prinsessunnar, D.P., vondu andanna, góða andans, Is Nogood, Nohballs, Sandali og allra hinna, drekka bjór, horfa á kynningar um skátastarf í mismunandi löndum, ræða um sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo, hlusta á söguna um Aladin í dreamtime, láta sannfæra mig um nauðsyn þess að fara til Serbíu og Makedóníu, fylgjast með hössli, borða kúskús með puttunum, læra afar góðan partýleik og hlæja oft og mikið.
Spurning að fara á næsta ári og vera allan tímann?

Annars verð ég að koma þessu kaffimáli á hreint, ég er ekkert að fara að leggja það í vana minn að drekka þetta sull. Bekkjarsystir mín var að spá í bolla og þess vegna svældi ég í mig einum bolla.
Þeir sem voru miður sín yfir þessari kaffidrykkju geta tekið gleði sína á ný og hinir verða bara að halda áfram að bjóða mér vatn að drekka...

Monday 17 March 2008

Fullorðin

Tók enn eitt skrefið í að verða fullorðin í dag.
Ég, Álfheiður Guðmundsdóttir, drakk kaffi. Alveg heilan bolla af grísku kaffi.
Það er nú saga til næsta bæjar!

Thursday 13 March 2008

Fórum í gær til Marielle til að sækja búninginn hans Jóns fyrir IMWe. Efnið var keypt fyrir jól en svo breyttist búningaplanið svo það var fullt eftir af efninu og Marielle skellti bara í búning handa mér líka!
Svo núna á ég serk til að leika arabakonu þá daga sem ég verð á IMWe. En serkurinn er sko ekkert smá víður, alveg tveggjamanna en Marielle sagði að svona ætti þetta að vera. Sem er rétt, þetta á náttúrlega að fela allan vöxt svo karlarnir missi ekki einbeitinguna þegar kona gengur framhjá samkvæmt því sem ég hef lesið.
Jón er ansi flottur í búningnum sínum, kannski kemur mynd inn síðar, enn liggur leynd yfir þessu öllu víst.

Í kvöld koma Ole og Jostein fljúgandi frá Noregi og á morgun fara þeir og Jón keyrandi til Rieneck. Jón kemur aftur í næstu viku til að taka eitt próf og við fljúgum svo saman á skírdag þegar ég er búin með kynningu og eitt stykki ritgerð.
Það verður fjör að fá loksins að komast á þetta blessaða IMWe þótt ég verði nú bara gestur en ekki þátttakandi. Nóg hef ég heyrt og séð myndir!

Í gærkvöldi notaði ég tækifærið og fékk að stytta buxur hjá Marielle. Ég stytti buxurnar alveg alein. Engin Gagga að hjálpa (já eða bara taka yfir og stytta fyrir mig).
Buxurnar enduðu svona sentimeter of stuttar en það verður bara að hafa það. Ég fer ekkert að viðurkenna ósigur minn og fara til baka og laga þetta. Enda var það Jón sem tók síddina og það hlýtur bara eitthvað að hafa klikkað hjá honum. Best að hafa söguna þannig...

Hvað endar þetta! farin að gera sósur og stytta buxur hjálparlaust! kannski maður sé að fullorðnast Steinunn?

Monday 10 March 2008

Kynningin

Kynningin gekk alveg ágætlega, einni stelpu fannst glærurnar mínar róandi! aldrei heyrt að glærur væru róandi en það getur ekki verið svo slæmt.
Skorarformaðurinn kom með nokkrar ábendingar sem ég get notað til að bæta verkefnið.
Ég get allavega verið þokkalega ánægð með mitt, nokkrar af grísku stelpunum lentu í hakkavélinni og þurfa að endurskoða eða breyta miklu að mati kennarans.

Næsta mánudag þarf ég svo að kynna veggspjald sem er í raun unnið upp úr kynningunni frá í dag með breytingum sem lagðar voru til.

Aðal-ekki-skóla-verkefnið er svo undirbúningur fyrir gæsun Wendy, vinkonu Jóns. Ég hitti hana bara í fyrsta skipti um áramótin og þar sem ég er svo skemmtileg og virkaði sem ægilega góð í að skipuleggja þá bað hún mig að sjá um þetta. Já og kannski af því gæsunin verður í Amsterdam og ég bý stutt frá.
Er að vinna í að finna ódýra gistingu og plana skemmtilegheit.

Um helgin var afgangurinn af jólahamborgarhryggnum eldaður. Allt heppnaðist vel og ég gerði sósuna alveg sjálf án þess að hringja eftir aðstoð með gáfuleg vandamál eins og að sósan væri undarleg á litinn ;) hehe

Friday 7 March 2008

Ótrúlegt

Sá áðan tvær stelpur, svona giska á 10 og 12 ára, að MEÐ HJÁLM! Þetta eru sko stórfréttir hér í Hollandi. Það hjólar enginn með hjálm hér, nema kannski Tour de France gaurar í spandex göllum. Held ég hafi í alvörunni bara einu sinni eða tvisvar séð krakka með hjálm og aldrei fullorðinn (nema fyrrnefnda Tour de France gaura).
Ekki er ég neitt betri, nota sko ekki hjálm enda var mér sagt að gera það ekki. Bara túristar nota hjálm. Þeir eru náttúrulega ekki eins flinkir og Hollendingar að hjóla. Ég er svona mitt á milli Hollendinga og túrista í flinkheitum á hjólinu.

Annað ótrúlegt er gengi evrunnar. Eins og mér finnst fjármáladót leiðinlegt þá er ég hef ég breyst í sérlegan áhugamann um þetta blessaða gengi. Þegar ég kíkti á mbl áðan þá var gengið tæpar 105 kr! Já fínt já sæll. Setti einhver inn gengi pundsins í vitlausan reit? Ekki gott. Svona til viðmiðunar þá var gengið 85 kr þegar við komum út. Úff.

Markmið helgarinnar: klára kynningu á lokaverkefninu, flytja á mánudag.

Wednesday 5 March 2008

kindur.is

Þetta er með skemmtilegri hugmyndum sem ég hef séð lengi!
Á síðunni kindur.is er búið að leysa vanda allra sem hafa dreymt um að eiga kind en eiga ekkert fjárhús. Maður getur keypt eina kind en bóndinn heldur áfram að hýsa hana og fæða í sínu fjárhúsi. Svo er hægt að heimsækja kindina sína á ákveðnum heimsókanar dögum og njóta afurðanna, kjöt-ull-gæra (gegn aukagjaldi samt).
Svona næstum eins og eiga kind í alvörunni - man samt ekki eftir að neinn hafi fengið jólakort frá kindunum í minni sveit...

Friday 29 February 2008

meira um mat

McDonalds auglýsir á fullu í sjónvarpinu nýjasta nýtt; hamborgara með súrkáli (sauerkraut). Mmm girnilegt ekki satt?

Ánægjustunur bárust frá sambýlismanninum þegar ég bar á borð flatkökur með hangikjötsáleggi með grjónagrautnum í vikunni. Í fleirtölu. Í útlöndum þarf ekki mikið til að gleðja mann :)

Monday 25 February 2008

...

Nóg að gerast, tíminn flýgur auðvitað hraðar áfram en nokkurn tíma fyrr. Er það ekki alltaf svoleiðis?

Jón átti afmæli fyrir akkúrat viku og ég gerði mitt besta til að gleðja hann. Vakti hann með skreyttu muffins og afmæliskertum í morgunsárið og hristi enskum morgunmat fram úr erminni. Kannski ekki alveg, þvílíkt vesen að kokka allan þennan mat; pylsu, beikon, egg, steikir sveppir, steiktir tómatar, bakaðar baunir og ristað brauð.

Enduðum svo daginn á að kíkja á jam session á jazz café-inu.
Örvar vinur Jóns kom á þriðjudaginn, Jón fór til Genf á þriðjudaginn, kom á fimmtudaginn og þá komu líka Reynir og Biggi vinir Jóns. Helgin fór því í að sýna Leiden og Amsterdam, borða mikið af mat og svo fengu þeir líka að smakka Ursus og aðeins af bjór.
Drengirnir er einstaklega vel upp aldir og fékk ég bæði nammi og gjöf fyrir að þola þessa innrás. Gjöfin var allavega sérstaklega til mín. Þessi innrás var þó bara skemmtileg enda er alltaf gaman að fá gesti og hafa ástæðu til að fara út að borða og prófa nýja staði.

Stemmingin var góð:)

Ég fór líka á fyrsta fundinn með leiðbeinandanum mínum síðasta miðvikudag og hún gaf mér eiginlega fullt mikið frjálsræði. Það er eiginlega erfiðast að ákveða hvað maður vill. Fyrsta verkefni er því að afmarka rannsóknarefni og lesa, lesa og lesa.

Sunday 17 February 2008

ein í koti

Búin að vera ein heim um helgina. Sem er nú allt í lagi og einstaklega gott tækifæri til að læra mjög mikið. Sem ég gerði ekki. Gerði bara ýmislegt annað í staðinn. Fór t.d. á nýjan pöbb. Sá var reyndar ekkert pöbbalegur, mjög flott retro lúkk á staðnum og tónlistin í stíl.
Þar sá ég líka eitt sem er ekki svo óalgengt hér í Hollandi, barn á bar. Þetta var á föstudaginn svona rétt fyrir sex og ég sá par, með sitt hvorn bjórinn, með ca. 5 ára gamalt barn með sér. Fólkið sat bara og sötraði sinn bjór og spjallaði og fór svo. Ég held að einhver hefði hringt á barnaverndaryfirvöld á Íslandi. Hér þykir greinilega eðlilegt að fá sér einn bjór á leiðinni heim eftir að hafa sótt krakkann á leikskólann.

Lokaverkefnið er í lausu lofti, fæ fund næsta miðvikudag til að ræða við væntanlegan leiðbeinanda um hvað ég get gert. Allavega er það sem ég ætlaði að gera út úr myndinni. Spurning hvort ég nái að klára verkefnið á tilsettum tíma fyrst öllu hefur seinkað svona mikið. Maður átti sko að byrja að lesa sér til og svona í janúar *hóst*. Þannig að þeir sem voru byrjaðir að undirbúa heimkomupartý handa mér geta breytt þemanu í jólapartý...

Tuesday 12 February 2008

Gott veður og gestir

Liðið komið og farið.
Eftir formlega móttöku á Schipol með skilti og allt var skundað heim þar sem óvænt afmælisveisla fyrir Ingu og Evu (Björgvin fékk líka að vera með) sem við Stína vorum búnar að plotta beið. Ég var búin að skreyta og veitingarnar voru eins og "í gamla daga", hrískaka og pylsuterta.

Næstu dagar fóru svo í að labba, tala, borða, versla smá og tala aðeins meira. Litla íbúðin stóðst álagið og allir komust fyrir á einni breiðsæng á stofugólfinu. Ekki var mikið um slagsmál og klósett- og sturtuskipulag gekk vel. Þetta hljómar nú illa, eins og að fólk hafi bara fengið að pissa einu sinni á dag en svo var nú ekki. Það rennur bara svo hrikalega hægt í blessaðan vatnskassann...

Veðrið var líka einstaklega gott allan tímann svo hægt var að draga fólk meðfram síkjum og skökkum húsum án mikilla kvartana.

Í Amsterdam er greinilega herferð í gangi gegn mansali í vændi. Á mörgum veitingahúsum er veggspjald á klósettinu þar sem atriði sem benda til að vændiskona sé fórnarlambs mansals eru talin upp. Þar stendur að ef konan sýnir ótta eða kvíða, er með marbletti eða það besta; virðist ekki hafa ánægju af starfinu, þá á maður að hringa í uppgefið símanúmer og tilkynna grun um mansal. Hollendingar eru svo fyndnir, þegar ég hef labbað fram hjá rauðu gluggunum þá geisla blessuðu konurnar ekki af starfsánægju...
Enda er þetta sorgleg sjón en hollensk kona í bekknum mínum sem ég ræddi þetta einu sinni við var á því að þetta væri bara þeirra val og þær væru með stéttarfélag og allt í þessu fínu. Ég leyfi mér að efast um að málið sé svo einfalt.

Veðrið í dag er búið að vera glimrandi gott, sól og hlýtt í skjóli. Fórum því á útikaffihús hér rétt hjá þegar Jón kom heim úr skólanum og fengum okkur ís. Svona er að vera fátækur stúdent í Hollandi:)

Monday 4 February 2008

Í fyrsta skipti

Á laugardagsnóttina fór ég í fyrsta skipti í leigubíl hér í Hollandi. Hitti nokkrar íslenskar skvísur um kvöldið í den Haag og að sjálfsögðu var talað svo mikið að við misstum af síðasta tram-inum. Þá var ákveðið að splæsa í leigubíl upp á lestarstöð. Bíllinn ilmaði líka svona skemmtilega af kebab.
Þegar komið var á lestarstöðina kom í ljós að ég hefði rétt misst af lestinni til Leiden og næsta kom eftir klukkutíma. Hefði ekki verið gaman að húka þar ein svona um miðja nótt en Delft dömur fórnuðu dýrmætum svefntíma og seinkuðu sinni brottför og biðu með mér. Ekki amalegt það:)

Í gær fórum við í fyrsta skipti til Amsterdam alein! Í þau þrjú skipti sem við höfum farið höfum við alltaf farið með gestum og vitað nærri því jafn lítið og gestirnir um áttir og staði. Við röltum aðeins um og reyndum að átta okkur betur á svæðinu til að vera betur undirbúin undir næstu innrás. Svo sá ég líka í fyrsta skipti gaura fara inn og koma út úr rauðu gluggunum. Hef bara séð gaura spyrja og svona en enga fara inn eða út. Rómantískt.

Í dag fórum við til Delft í fyrsta skipti að degi til og í fyrsta skipti í strætó í dag. Reyndar skoðuðum við bæinn ekki neitt heldur fórum í IKEA. Ætlaði bara að kaupa tvo kolla svo allir gestirnir gætu nú setið saman við matarborðið. Það bættist nú aðeins við innkaupin og við komum með meira en blessuðu kollana heim.

Fyrsti tíminn er á miðvikudaginn og þá fer allt að rúlla og afslöppunin víst að verða búin.

Thursday 31 January 2008

Skítaveður

Kannski er ekki sanngjarnt að kvarta yfir veðrinu svona miðað við veðrið á Íslandi síðustu vikur en ég geri það samt! Hitinn var farin að vera 10 gráður dag eftir dag en núna kólnaði í um eina gráðu og í dag var helvítis rigning og slydda. Öldugangur í síkjunum og allt.

Í dag var skráningardagur fyrir vorönnina. Þetta er nú svolítið skrýtið, bara í dag á milli kl. 12 og 13 getur þú skráð þig í skyldukúrsa og á milli 14 og 15 í valkúrsa. Svo maður verður að gjöra svo vel að sitja við tölvuna á þessum tímum og skrá sig. Í sumum kúrsum eru fjöldatakmarkanir svo ef þú skráir þig t.d. kortér í þrjú þá er kannski allt fullt og þú bara óheppin.

Lokaverkefnið mitt er í hnút. Er búin að vera að vinna í einu máli síðan í haust en núna er staðan þannig að líklega þarf ég að hætta við og finna nýtt. Bölvað vesen og svo á maður eiginlega að vera byrjaður að viða að sér heimildum. En þetta reddast nú á endanum og vonandi verða ekki mörg grá hár komin í ljós þegar þetta kemst allt á hreint.

Ein vika í að friðurinn sé úti...

Friday 25 January 2008

Bók á dag

kemur skapinu í lag! Las Ösku eftir Yrsu á miðvikudag og Harðskafa í gær. Er að hugsa um að byrja ekki alveg strax á næstu bók, kannski bara á morgun.

Það væri góð hugmynd að þrífa aðeins og taka til. Eitt sem mér finnst pirrandi hér er að geta ekki hent í nokkrar vélar sama daginn. Við erum bara með litla þvottagrind og það tekur óratíma fyrir þvottinn að þorna á henni. Frekar óhentugt þegar þvotturinn er farinn að flæða um allt eftir frammtistöðuleysið að undanförnu.

Það er líka leiðinlegt að missa af öllu veðrinu á Íslandi. Búið að vera stormar í vetur og núna fullt af snjó! Ég væri til í að fá smá skammt hingað og búa til einn snjókarl eða svo:)
Þetta er farið að hljóma eins og ég sé á einhverjum bömmer en svo er nú ekki.

Svo á Sissi bróðir líka afmæli í dag! til hamingju með daginn gamli:)

Tuesday 22 January 2008

Búin

Síðasta prófið búið!
Dagurinn byrjaði reyndar ekki vel. Ég ristaði mér brauð í morgunmat og fann á öðrum bita að ekki var allt með felldu. Beit aftur og oj brauðið var myglað! Ekki sérstakt bragð það.
Það var punkterað á hjólinu mínu svo ég þurfti að labba í prófið. Sem er nú allt í lagi nema að prófið var í íþróttahúsi háskólans sem ég hafði aldrei komið í. Hafði fengið leiðbeiningar að labba að skólanum og fara svo til vinstri eftir ákveðinni götu og þá myndi ég bara þurfa að fylgja einhverjum skiltum. Gott og vel nema ég gekk og gekk og sá aldrei neitt skilti. Var komin að því að hringja í einhvern þegar ég sá loksins helv... skiltið. Þá tók við nokkurt labb niður næstu götu. Ég var orðin nokkuð stressuð að koma of seint í prófið en þetta hafðist. Rétt fyrir prófið fékk ég líka neyðarsímtal frá Eleni þar sem hún fann ekki staðinn! Fleiri en ég að vesenast með þetta.

Loksins er nú þessi önn á enda og hægt að hugsa um e-ð annað en króníska sjúkdóma og hugræna atferlismeðferð. Sem er bæði gott og vont. Efnið var langt frá því að vera leiðinlegt en samt aldrei beint skemmtilegt að lesa fyrir próf og vera stressaður.

Næst á dagskrá er að setja pening inn á hollenska reikninginn (hvað er málið með þetta gengi? 97 kr takk fyrir evran í dag!), láta laga hjólið og lesa jólabækurnar. Tvímælalaust tími til kominn. Las Þúsund bjartar sólir (eftir sama höfund og skrifaði flugdrekahlauparann) um jólin en á eftir Arnald, Yrsu og bókina Frjáls.
Það verður ljúft líf næstu daga!

Saturday 12 January 2008

Íslenskur matur

Wim og Marielle kíktu í kaffi í gær og ég bauð þeim upp á íslenskt kex. Þeim fannst skrýtið að ég fengi sent kex frá Íslandi og spurði hvort fólk hefði áhyggjur af því að við myndum svelta hér. Ég býð þeim nefnilega alltaf upp á e-ð íslenskt þegar þau koma!
Þar sem við vorum farin að tala um sendingar frá Íslandi þá varð ég að sýna þeim ávaxtagrautinn og kakósúpuna sem Sissi og Agnes sendu mér (ásamt fleiru til að halda lífinu í mér hér í útlandinu). Hvernig útskýrir maður kakósúpu? "you know it's like hot chocolate but a soup". Hljómar vel, ekki satt?
Þá rifjaðist upp fyrir mér önnur umræða um íslenska mat með þeim sem átti sér stað á Þorláksmessu. Við vorum að segja þeim frá íslenska jólamatnum. Brúnaðar kartöflur og jafningur, sem ég útskýrtði sem hvíta sósu með fullt af sykri, kom meðal annars við sögu. Þeim finnst þetta ægilega fyndið, allur þessi sæti matur.
Þau geta nú bara hlegið, hollenskur matur kemst ekki með tærnar nálægt hælunum á íslenska matnum!

Annars er ég bara að læra og bíða eftir að klára þessa blessuðu önn. Það verður samt ekki fyrr en 22. jan. Þetta togast....

Friday 4 January 2008

Nýtt ár

Við erum komin heil og höldnu frá áramótaferðinni til Þýskalands. Ferðin var afar ljúf, mikið spjallað, sungið, spilað og skálað. Það góða við að fagna áramótunum í útlöndum er að maður getur fagnað tvisvar:) Fyrst á miðnætti að staðartíma og síðan aftur á íslenskum tíma.

Við vorum frá föstudegi til þriðjudags í Burg Rieneck sem er kastali í litlum bæ sem heitir Rieneck (um klst frá Frankfurt). Þetta er skátakastalinn sem Jón hefur varið páskum síðustu ára ásamt svona þremur fundum á ári. Loks fékk ég að sjá þennan stað og hitta suma af þeim sem Jón hefur talað um. Staðurinn stóð alveg undir væntingum og ég prófaði ýmislegt. Til dæmis lærði ég kumihimo sem er aðferð til að hnýta bönd, gerði heiðarlega tilraun til að læra slóvenska þjóðdansa og ýmis þýsk lög, spilaði Zug um Zug og smakkaði þýska drykkinn feuer eitthvað eitthvað. Rauðvín (held ég) er sett í sérstaka skál ásamt appelsínubitum og kryddi, sykurstöng sett á sérstakt apparat yfir, rommi hellt yfir og síðan kveikt í herlegheitunum. Ansi skemmtilegt.

Aldrei að vita nema að ég gerist skáti í eina viku um páskana og skelli mér aftur til Rieneck!

Einn daginn fórum við til Wurzburg og bæði á leiðinni til og frá Rieneck stoppuðum við í Bad Orb og heimsóttum Christoph og Christof sem hafa tekið á móti okkur þegar við höfum farið á lúðrasveitamót í bænum. Þeir voru hressir og fengu mann til að byrja hlakka til að fara á næsta mót sem er í september.

Í dag kom svo seinni helmingurinn af jólagjöfunum frá Íslandi. Nú höfum við nóg að lesa á íslensku og horfa á. Við horfðum á fyrri helminginn af Næturvaktinni svo núna ætti maður að kunna frasanna:) og ekki vantaði gúmmelaðið, guði sé lof:)

Nú tekur alvaran aftur við með skýrslu- og ritgerðarskilum og prófum. Það verður erfitt að komast aftur í gírinn en ég hef þó margra manna birgðir af kexi, kökum (í frysti síðan um jól) og nammi frá Íslandi til að maula.