Thursday 31 January 2008

Skítaveður

Kannski er ekki sanngjarnt að kvarta yfir veðrinu svona miðað við veðrið á Íslandi síðustu vikur en ég geri það samt! Hitinn var farin að vera 10 gráður dag eftir dag en núna kólnaði í um eina gráðu og í dag var helvítis rigning og slydda. Öldugangur í síkjunum og allt.

Í dag var skráningardagur fyrir vorönnina. Þetta er nú svolítið skrýtið, bara í dag á milli kl. 12 og 13 getur þú skráð þig í skyldukúrsa og á milli 14 og 15 í valkúrsa. Svo maður verður að gjöra svo vel að sitja við tölvuna á þessum tímum og skrá sig. Í sumum kúrsum eru fjöldatakmarkanir svo ef þú skráir þig t.d. kortér í þrjú þá er kannski allt fullt og þú bara óheppin.

Lokaverkefnið mitt er í hnút. Er búin að vera að vinna í einu máli síðan í haust en núna er staðan þannig að líklega þarf ég að hætta við og finna nýtt. Bölvað vesen og svo á maður eiginlega að vera byrjaður að viða að sér heimildum. En þetta reddast nú á endanum og vonandi verða ekki mörg grá hár komin í ljós þegar þetta kemst allt á hreint.

Ein vika í að friðurinn sé úti...

Friday 25 January 2008

Bók á dag

kemur skapinu í lag! Las Ösku eftir Yrsu á miðvikudag og Harðskafa í gær. Er að hugsa um að byrja ekki alveg strax á næstu bók, kannski bara á morgun.

Það væri góð hugmynd að þrífa aðeins og taka til. Eitt sem mér finnst pirrandi hér er að geta ekki hent í nokkrar vélar sama daginn. Við erum bara með litla þvottagrind og það tekur óratíma fyrir þvottinn að þorna á henni. Frekar óhentugt þegar þvotturinn er farinn að flæða um allt eftir frammtistöðuleysið að undanförnu.

Það er líka leiðinlegt að missa af öllu veðrinu á Íslandi. Búið að vera stormar í vetur og núna fullt af snjó! Ég væri til í að fá smá skammt hingað og búa til einn snjókarl eða svo:)
Þetta er farið að hljóma eins og ég sé á einhverjum bömmer en svo er nú ekki.

Svo á Sissi bróðir líka afmæli í dag! til hamingju með daginn gamli:)

Tuesday 22 January 2008

Búin

Síðasta prófið búið!
Dagurinn byrjaði reyndar ekki vel. Ég ristaði mér brauð í morgunmat og fann á öðrum bita að ekki var allt með felldu. Beit aftur og oj brauðið var myglað! Ekki sérstakt bragð það.
Það var punkterað á hjólinu mínu svo ég þurfti að labba í prófið. Sem er nú allt í lagi nema að prófið var í íþróttahúsi háskólans sem ég hafði aldrei komið í. Hafði fengið leiðbeiningar að labba að skólanum og fara svo til vinstri eftir ákveðinni götu og þá myndi ég bara þurfa að fylgja einhverjum skiltum. Gott og vel nema ég gekk og gekk og sá aldrei neitt skilti. Var komin að því að hringja í einhvern þegar ég sá loksins helv... skiltið. Þá tók við nokkurt labb niður næstu götu. Ég var orðin nokkuð stressuð að koma of seint í prófið en þetta hafðist. Rétt fyrir prófið fékk ég líka neyðarsímtal frá Eleni þar sem hún fann ekki staðinn! Fleiri en ég að vesenast með þetta.

Loksins er nú þessi önn á enda og hægt að hugsa um e-ð annað en króníska sjúkdóma og hugræna atferlismeðferð. Sem er bæði gott og vont. Efnið var langt frá því að vera leiðinlegt en samt aldrei beint skemmtilegt að lesa fyrir próf og vera stressaður.

Næst á dagskrá er að setja pening inn á hollenska reikninginn (hvað er málið með þetta gengi? 97 kr takk fyrir evran í dag!), láta laga hjólið og lesa jólabækurnar. Tvímælalaust tími til kominn. Las Þúsund bjartar sólir (eftir sama höfund og skrifaði flugdrekahlauparann) um jólin en á eftir Arnald, Yrsu og bókina Frjáls.
Það verður ljúft líf næstu daga!

Saturday 12 January 2008

Íslenskur matur

Wim og Marielle kíktu í kaffi í gær og ég bauð þeim upp á íslenskt kex. Þeim fannst skrýtið að ég fengi sent kex frá Íslandi og spurði hvort fólk hefði áhyggjur af því að við myndum svelta hér. Ég býð þeim nefnilega alltaf upp á e-ð íslenskt þegar þau koma!
Þar sem við vorum farin að tala um sendingar frá Íslandi þá varð ég að sýna þeim ávaxtagrautinn og kakósúpuna sem Sissi og Agnes sendu mér (ásamt fleiru til að halda lífinu í mér hér í útlandinu). Hvernig útskýrir maður kakósúpu? "you know it's like hot chocolate but a soup". Hljómar vel, ekki satt?
Þá rifjaðist upp fyrir mér önnur umræða um íslenska mat með þeim sem átti sér stað á Þorláksmessu. Við vorum að segja þeim frá íslenska jólamatnum. Brúnaðar kartöflur og jafningur, sem ég útskýrtði sem hvíta sósu með fullt af sykri, kom meðal annars við sögu. Þeim finnst þetta ægilega fyndið, allur þessi sæti matur.
Þau geta nú bara hlegið, hollenskur matur kemst ekki með tærnar nálægt hælunum á íslenska matnum!

Annars er ég bara að læra og bíða eftir að klára þessa blessuðu önn. Það verður samt ekki fyrr en 22. jan. Þetta togast....

Friday 4 January 2008

Nýtt ár

Við erum komin heil og höldnu frá áramótaferðinni til Þýskalands. Ferðin var afar ljúf, mikið spjallað, sungið, spilað og skálað. Það góða við að fagna áramótunum í útlöndum er að maður getur fagnað tvisvar:) Fyrst á miðnætti að staðartíma og síðan aftur á íslenskum tíma.

Við vorum frá föstudegi til þriðjudags í Burg Rieneck sem er kastali í litlum bæ sem heitir Rieneck (um klst frá Frankfurt). Þetta er skátakastalinn sem Jón hefur varið páskum síðustu ára ásamt svona þremur fundum á ári. Loks fékk ég að sjá þennan stað og hitta suma af þeim sem Jón hefur talað um. Staðurinn stóð alveg undir væntingum og ég prófaði ýmislegt. Til dæmis lærði ég kumihimo sem er aðferð til að hnýta bönd, gerði heiðarlega tilraun til að læra slóvenska þjóðdansa og ýmis þýsk lög, spilaði Zug um Zug og smakkaði þýska drykkinn feuer eitthvað eitthvað. Rauðvín (held ég) er sett í sérstaka skál ásamt appelsínubitum og kryddi, sykurstöng sett á sérstakt apparat yfir, rommi hellt yfir og síðan kveikt í herlegheitunum. Ansi skemmtilegt.

Aldrei að vita nema að ég gerist skáti í eina viku um páskana og skelli mér aftur til Rieneck!

Einn daginn fórum við til Wurzburg og bæði á leiðinni til og frá Rieneck stoppuðum við í Bad Orb og heimsóttum Christoph og Christof sem hafa tekið á móti okkur þegar við höfum farið á lúðrasveitamót í bænum. Þeir voru hressir og fengu mann til að byrja hlakka til að fara á næsta mót sem er í september.

Í dag kom svo seinni helmingurinn af jólagjöfunum frá Íslandi. Nú höfum við nóg að lesa á íslensku og horfa á. Við horfðum á fyrri helminginn af Næturvaktinni svo núna ætti maður að kunna frasanna:) og ekki vantaði gúmmelaðið, guði sé lof:)

Nú tekur alvaran aftur við með skýrslu- og ritgerðarskilum og prófum. Það verður erfitt að komast aftur í gírinn en ég hef þó margra manna birgðir af kexi, kökum (í frysti síðan um jól) og nammi frá Íslandi til að maula.