Monday 31 March 2008

Sumartími

Í fyrrinótt var breytt yfir í sumartíma. Þá tapaði ég (og allir hinir) klukkutíma. Þannig að þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgun klukkan hálftíu nokkuð sátt við að vakna þokkalega snemma var klukken ekkert hálftíu heldur hálfellefu! svekkjandi.

Hitastigið er á uppleið og í dag er fínasta blíða, kannski ég geti farið að pakka niður vettlingum, húfu og treflum? að vísu spáð köldu næstu þrjá daga svo það er best að bíða aðeins...
En með þessu áframhaldi þarf að stilla viljastyrkinn í botn til að hanga inni og læra. Ekki að ég hafi verið neitt dugleg að læra í rigningunni og kuldanum samt.

Byrjaði í síðasta áfanganum í dag, Interventions in Occupational Health. Mér líst nokkuð vel á byrjunina en kennararinn kenndi mér í haust og það þýðir ekkert hálfkák hjá henni. Ég hef aldrei eytt jafnmörgum klukkutímum per einingu eins og í þeim áfanga í haust. Hún var nú líka ægilega ánægð með mig þá svo það er eins gott að standa sig núna!

Einn áfangi og ein lokaritgerð to go...þetta hefst allt saman...

Tuesday 25 March 2008

Enginn tyggur tannlaus

Svona var málshátturinn í páskaegginu mínu í ár. Opnaði eggið ekki fyrr en í dag, þriðja í páskum, sem hefur aldrei gerst áður.

Páskunum eyddi ég í í Rieneck kastala innan um 100 skáta á skátanámskeiði. Held að það sé rétta orðið fyrir þetta fyrirbæri IMWe. Endurtók nafnið mitt ótal sinnum, útskýrði hvað ég væri að gera í Hollandi þónokkru sinnum og skemmti mér vel. Alltaf gaman að hitta fólk frá mismunandi löndum en það voru svo margir Íslendingar á svæðinu að ég talaði örugglega meira af íslensku en ensku.

Gísli bróðir Jóns kom með páskaegg handa mér (ekki Jóni) svo ég gat tekið þátt í páskaeggjaleitinni sem íslensku krakkarnir skipulögðu. Hver faldi eitt egg og var gríðarlegur metnaður í gangi. Þegar ég komst að því að sá sem ég átti að fela fyrir ætlaði að gera 10 vísbendingar fyrir þann sem hann átti að fela fyrir varð ég auðvitað að gera margar líka.
Mjög seint á laugardagsnóttina þegar flestir voru farnir að sofa læddist ég um kastalann til að koma vísbendingunum fyrir. Þegar ég var að því hitti ég í kastalagarðinum Króatann Vasko sem vildi vita hvað ég var að gera. Honum fannst felustaðurinn minn ekki nógu góður og kom með þá snilldarhugmynd að fela eggið inn í litlum snjókalli sem var gerður fyrr um nóttina. Mér leist auðvitað vel á þetta og meðan Vasko lyfti kallinum mokaði ég innan úr honum til að gera nóg holrúm fyrir eggið.
Án efa besti páskaeggjafelustaður allra tíma!

Annars eyddi ég tímanum í að syngja, prútta um töfralampa, vatn, þræla og aðrar nauðsynjar á markaðnum í lokaleiknum, hlusta á fagra tóna á tónleikum, horfa á leikþætti um örlög kalífsins, prinsessunnar, D.P., vondu andanna, góða andans, Is Nogood, Nohballs, Sandali og allra hinna, drekka bjór, horfa á kynningar um skátastarf í mismunandi löndum, ræða um sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo, hlusta á söguna um Aladin í dreamtime, láta sannfæra mig um nauðsyn þess að fara til Serbíu og Makedóníu, fylgjast með hössli, borða kúskús með puttunum, læra afar góðan partýleik og hlæja oft og mikið.
Spurning að fara á næsta ári og vera allan tímann?

Annars verð ég að koma þessu kaffimáli á hreint, ég er ekkert að fara að leggja það í vana minn að drekka þetta sull. Bekkjarsystir mín var að spá í bolla og þess vegna svældi ég í mig einum bolla.
Þeir sem voru miður sín yfir þessari kaffidrykkju geta tekið gleði sína á ný og hinir verða bara að halda áfram að bjóða mér vatn að drekka...

Monday 17 March 2008

Fullorðin

Tók enn eitt skrefið í að verða fullorðin í dag.
Ég, Álfheiður Guðmundsdóttir, drakk kaffi. Alveg heilan bolla af grísku kaffi.
Það er nú saga til næsta bæjar!

Thursday 13 March 2008

Fórum í gær til Marielle til að sækja búninginn hans Jóns fyrir IMWe. Efnið var keypt fyrir jól en svo breyttist búningaplanið svo það var fullt eftir af efninu og Marielle skellti bara í búning handa mér líka!
Svo núna á ég serk til að leika arabakonu þá daga sem ég verð á IMWe. En serkurinn er sko ekkert smá víður, alveg tveggjamanna en Marielle sagði að svona ætti þetta að vera. Sem er rétt, þetta á náttúrlega að fela allan vöxt svo karlarnir missi ekki einbeitinguna þegar kona gengur framhjá samkvæmt því sem ég hef lesið.
Jón er ansi flottur í búningnum sínum, kannski kemur mynd inn síðar, enn liggur leynd yfir þessu öllu víst.

Í kvöld koma Ole og Jostein fljúgandi frá Noregi og á morgun fara þeir og Jón keyrandi til Rieneck. Jón kemur aftur í næstu viku til að taka eitt próf og við fljúgum svo saman á skírdag þegar ég er búin með kynningu og eitt stykki ritgerð.
Það verður fjör að fá loksins að komast á þetta blessaða IMWe þótt ég verði nú bara gestur en ekki þátttakandi. Nóg hef ég heyrt og séð myndir!

Í gærkvöldi notaði ég tækifærið og fékk að stytta buxur hjá Marielle. Ég stytti buxurnar alveg alein. Engin Gagga að hjálpa (já eða bara taka yfir og stytta fyrir mig).
Buxurnar enduðu svona sentimeter of stuttar en það verður bara að hafa það. Ég fer ekkert að viðurkenna ósigur minn og fara til baka og laga þetta. Enda var það Jón sem tók síddina og það hlýtur bara eitthvað að hafa klikkað hjá honum. Best að hafa söguna þannig...

Hvað endar þetta! farin að gera sósur og stytta buxur hjálparlaust! kannski maður sé að fullorðnast Steinunn?

Monday 10 March 2008

Kynningin

Kynningin gekk alveg ágætlega, einni stelpu fannst glærurnar mínar róandi! aldrei heyrt að glærur væru róandi en það getur ekki verið svo slæmt.
Skorarformaðurinn kom með nokkrar ábendingar sem ég get notað til að bæta verkefnið.
Ég get allavega verið þokkalega ánægð með mitt, nokkrar af grísku stelpunum lentu í hakkavélinni og þurfa að endurskoða eða breyta miklu að mati kennarans.

Næsta mánudag þarf ég svo að kynna veggspjald sem er í raun unnið upp úr kynningunni frá í dag með breytingum sem lagðar voru til.

Aðal-ekki-skóla-verkefnið er svo undirbúningur fyrir gæsun Wendy, vinkonu Jóns. Ég hitti hana bara í fyrsta skipti um áramótin og þar sem ég er svo skemmtileg og virkaði sem ægilega góð í að skipuleggja þá bað hún mig að sjá um þetta. Já og kannski af því gæsunin verður í Amsterdam og ég bý stutt frá.
Er að vinna í að finna ódýra gistingu og plana skemmtilegheit.

Um helgin var afgangurinn af jólahamborgarhryggnum eldaður. Allt heppnaðist vel og ég gerði sósuna alveg sjálf án þess að hringja eftir aðstoð með gáfuleg vandamál eins og að sósan væri undarleg á litinn ;) hehe

Friday 7 March 2008

Ótrúlegt

Sá áðan tvær stelpur, svona giska á 10 og 12 ára, að MEÐ HJÁLM! Þetta eru sko stórfréttir hér í Hollandi. Það hjólar enginn með hjálm hér, nema kannski Tour de France gaurar í spandex göllum. Held ég hafi í alvörunni bara einu sinni eða tvisvar séð krakka með hjálm og aldrei fullorðinn (nema fyrrnefnda Tour de France gaura).
Ekki er ég neitt betri, nota sko ekki hjálm enda var mér sagt að gera það ekki. Bara túristar nota hjálm. Þeir eru náttúrulega ekki eins flinkir og Hollendingar að hjóla. Ég er svona mitt á milli Hollendinga og túrista í flinkheitum á hjólinu.

Annað ótrúlegt er gengi evrunnar. Eins og mér finnst fjármáladót leiðinlegt þá er ég hef ég breyst í sérlegan áhugamann um þetta blessaða gengi. Þegar ég kíkti á mbl áðan þá var gengið tæpar 105 kr! Já fínt já sæll. Setti einhver inn gengi pundsins í vitlausan reit? Ekki gott. Svona til viðmiðunar þá var gengið 85 kr þegar við komum út. Úff.

Markmið helgarinnar: klára kynningu á lokaverkefninu, flytja á mánudag.

Wednesday 5 March 2008

kindur.is

Þetta er með skemmtilegri hugmyndum sem ég hef séð lengi!
Á síðunni kindur.is er búið að leysa vanda allra sem hafa dreymt um að eiga kind en eiga ekkert fjárhús. Maður getur keypt eina kind en bóndinn heldur áfram að hýsa hana og fæða í sínu fjárhúsi. Svo er hægt að heimsækja kindina sína á ákveðnum heimsókanar dögum og njóta afurðanna, kjöt-ull-gæra (gegn aukagjaldi samt).
Svona næstum eins og eiga kind í alvörunni - man samt ekki eftir að neinn hafi fengið jólakort frá kindunum í minni sveit...