Wednesday 27 August 2008

Tíminn líður og komið að næsta brúðkaupi

Tíminn líður...
...hratt á gervihnattaröld?
...og það gerist ekkert?

hvort er það eins og í Gleðibankanum eða Meistaranum og Margarítu? eiginlega bæði.
Ég hef hreinlega ekki undan að skrifa fréttir héðan úr Leiderdorp.

Afmælisdagurinn var afar ljúfur, fékk nýtt brauð og kökusneið í morgunmat, Jón bæði eldaði og bakaði pönnukökur og Wim og Marielle komu í kaffi. Jón neitaði að fara með mig neitt þar sem ég myndi bara detta á hausinn...
Fengum líka boð í næsta brúðkaup sem verður í Þýskalandi í október. Hvar endar þetta eiginlega?

Daginn eftir komu Halldóra og Snæfríður og voru fram á mánudag. Þetta var fyrsta stopp á interrailferðlaginu þeirra og að sjálfsögðu jós ég úr viskubrunni mínum um lestarferðalög og áhugaverða staði. Ég hefði náttúrlega getað bara skipulagt þetta fyrir þær en þær eru ekki jafn spenntar fyrir Austur-Evrópu eins og ég.
Stelpurnar voru teymdar um Amsterdam, Leiden og Rotterdam og það helsta skoðað. Veðrið var ekkert sérstakt en það kom ekki að sök þar sem Halldóra var einstaklega vel útbúin með ullarsokka og flíspeysu með í för!
Síðasta kvöldið þeirra fórum við svo í grískt matarboð hjá Eleni og Spiros. Mamma hans og pabbi voru í heimsókn og því hentugt að nota þau til að elda ofan í gestina! Auk okkar voru líka nokkrir Ítalir og Grikkir í mat.
Fræddum lýðinn m.a. um jarðhita, fólksfjöldann á Íslandi og stærð landsins, innflytjendur, Evrópusambandið, silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum og aðstöðu til búsetu á hálendinu.
Mér finnst að Íslendingar erlendis ættu að fá laun frá ríkinu fyrir að standa í allri þessari landkynningu.

Restin af deginum í dag fer í að undirbúa næstu brúðkaupsferð. Pakka inn gjöfinni frá okkur (ullarvettlingar frá ömmu Jóns), pakka dótinu og útbúa okkar hluta af hópgjöfinni sem er uppskriftarbók. Hver á að koma með þrjár uppáhaldsuppskriftir og ekki verra að myndskreyta. Okkar framlag verður grjónagrautur, lambalæri og tvenns konar ís (jájá við gátum ekki verið sammála)
Grjónagrauturinn mallar í pottinum en myndskreytingar við lambalærisuppskriftina verður bara að koma af netinu, hér er ekki aðstaða til slíkrar matargerðar. Síðan er afar nauðsynlegt að útbúa báða ísréttina til að fá flottar myndir. Og til að fá að borða ísinn.
Í fyrramálið verður bíllinn sóttur, keyrt til Munchen og svo restin á föstudaginn.
Brúðkaupið verður í kastala (auðvitað!) og brúðhjónin verða, ef ég skildi allt rétt, í hefðbundum austurrískum búningum. Spennandi!

Að lokum ein snilld - borðið er svo nálægt eldavélinni að ég get verið í tölvunni og svo bara teygt mig í sleifina og hrært í grautnum!

Monday 18 August 2008

Margt og mikið að ske

Tíminn líður afskaplega hratt þessa dagana. Jón kominn frá Íslandi, búin að hitta leiðbeinandann í síðasta skipti - frúin farin í fæðingarorlof, flugum til Noregs í brúðkaup og erum komin heim aftur.

Lentum seint um kvöld á Gardemoen og ákváðum að taka hraðlestina inn í Osló. Þar byrjaði áfallið sem entist út ferðina - verðin í þessu landi! það er allt svo dýrt! Hámarkið var þegar við settum á kaffihús í Osló á föstudeginum og keyptum einn bjór og einn kakóbolla á ca 1500 kall. Þeir sem eru vanir hollensku bjórverði fá bara hland fyrir hjartað við að punga út 1000 kalli fyrir bjór.
Í Osló stóð yfir jazzhátíð, við sáum litla skrúðgöngu í anda New Orleans þar sem hressar kellur dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn og ætluðum að hlusta á eina tónleika en fórum eftir tvo lög. Spiluðu bara einstaklega leiðinleg lög.
Skoðuðum nýja óperuhúsið og gengum upp á þak á því. Þar er mjög fínt útsýni yfir fjörðinn og borgina. Það eru miklar framkvæmdir í gangi og er víst verið að breyta svæðinu í kringum lestarstöðina og óperuhúsið mikið.
Talandi um lestarstöðina þá hef ég sjaldan séð eins mikið af dópistum og þar í kring. Sáum t.d. einn með buxurnar á hælunum að leita að nothæfri æð. Geðslegt. Osló er víst heróín-höfuðborg Evrópu samkvæmt Norðmanninum sem við gistum hjá fyrstu nóttina.

En að aðalmáli ferðarinnar - brúðkaupið heppnaðist vel, bæði sögðu já og allir skemmtu sér vel í veislunni. Norðmennirnar héldu þó full mikið af ræðum fyrir minn smekk, en kannski ekki að marka mig sem skildi ekki alveg allt sem var verið að segja.
Mér tókst þó að fljúga á hausinn og snúa á mér ökklann þannig að ég hélt mig til hlés á meðan Jón sýndi hæfileika sína á dansgólfinu.

Þegar heim var komið biðu skilaboð frá leigusalanum. Hún er í Hollandi í viku vegna veikinda móður sinnar og kom til að sækja dót í íbúðina. Einnig ætlar hún að hafa köttinn hjá sér yfir nóttina en hann verður hér yfir daginn. Ég er nú bara ánægð með það, þá er ekkert sem truflar svefninn.
Við vonum bara að mamman hressist því í samningnum okkar er klausa um að leigusalinn geti komið fyrr tilbaka og fengið íbúðina ef e-ð alvarlegt kemur upp á.

Talandi um íbúðir þá er íbúðina okkar í Furugrund laus frá 1. okt ef einhvern vantar íbúð í einn mánuð eða lengur.

Sunday 3 August 2008

Versló

Það er versló, það er kvöld og ég er að læra. Þetta er í fyrsta skipti og líklega, já vonandi, síðasta skipti sem ég sit á sunnudagskvöldi um versló að læra.

Fyrir 10 árum klæddi ég mig í ægilega flottar rauðar buxur og jakka úr Spútnik og við Steinunn fórum í KA heimilið á ball. Komum líka við á Mongó og töluðum við Hauk sem var að vinna, kannski borðuðum við pizzu. Gott ef við hittum ekki Sigga Binna, Helga Túl og fleiri gaura.
Bærinn alveg stútfullur af fólki og mikið stuð. Halló Akureyri alveg í hámarki þarna held ég.
Ég man eftir að vera samt rosalega glöð að vera ekki í tjaldi á KA svæðinu. Þetta var frekar subbulegt og lúxus að geta bara labbað heim og sofið í sínu rúmi.

Hvað ætli ég verði að gera á sunnudagskvöldi um versló eftir 10 ár? hvort ætli sé líklegara að ég verði í KA heimilinu eða að læra?