Friday 26 September 2008

Aðalfrétt síðustu daga er að við fundum nýtt þak yfir höfuðið. Skruppum á þriðjudaginn til Amsterdam Noord, kíktum á aðstöðuna og gengum út með húslykil og lofuðum að borga leiguna. Þessi íbúð er svo stærsta sem við höfum verið í hér úti, aukaherbergi og allt! núna er því tíminn að koma í heimsókn. Þvottavél og þurrkari, baðker, þráðlaust internet og dadarada ... ofn! núna verður hægt að gera ýmislegt gott mmmm. Við þurfum heldur ekki að bíða lengi eftir fyrstu gestunum - Gísli bróðir Jóns og Inga kærastan hans koma næsta fimmtudag og vígja gestarúmið.
Flutningar hafa í för með sér að reyna að minnka það sem þarf að flytja með sér. T.d. kókosbollurnar sem Eva sendi mér í afmælisgjöf og hangikjötið úr frystinum. Þvílík kvöl og pína.



Kíktum í gær í garðinn Archeon sem er nokkurs konar tímabilagarður. Þar eru sýnd híbýli frá mismunandi tímum, allt frá veiðimönnum fram á miðaldir. Það væri líka hægt að kalla þetta lifandi safn því fólk frá ýmsum tímabilum eru í eða við híbýlin og vinna ýmis störf og segja frá. Hún Judith vinnur þarna og gaf okkur miða, þar var einmitt hún sem hjálpaði mér að flytja og hún er líka ein af þeim sem var með okkur í kastalanum um áramótin. Hún starfar sem skósmiður frá ca. 1340 og sýndi okkur hvernig hún gerir skó og fleira úr leðri.



Endum svo skoðunartúrinn á að horfa á skylmingarþræla berjast í hringleikahúsinu á tímum Rómverja.


Set inni myndir af nýja slottinu eftir helgi, flytjum á mánudag!

Friday 19 September 2008

Bad Orb

Komumst heim heil og höldnu úr svaðilför til Bad Orb. Mikið spilað, hlegið, drukkið og dansað. Aðallega uppi á bekkjum og borðum.
Engin klósett brotin og allir höguðu sér skikkanlega. Svona að mestu allavega.




Bjarki var ekki lengi að ná sér í ein Maβ (líterskúrs af bjór fyrir þá sem eru ekki vel að sér í þýskum bjórfræðum)



Við spiluðum að vanda í tjaldinu, Þórir í stuði fyrir miðju tjaldi og sviðið þarna í fjarska. Að sjálfsögðu var okkur tekið eins og rokkstjörnum. Tjaldið rifnaði af fagnaðarlátum þegar við þrumuðum fyrstu tónunum í gegn.



Það var sko rosalega gaman


Léttur dýraleikur: hvaða dýr er þetta?



Það þýddi ekkert að koma með bjór í stykkjatali. Christoph (eða er þetta Christof?) dældi í okkur bjórnum sem við fengum gefins frá velunnurum sveitarinnar.



Finnbogi mætti með rétta dressið. Reyndar Brynjar líka. Vorum að hugsa um að leigja þá út sem skemmtiatriði til að styrkja fjárhag sveitarinnar.


Laugardagskvöldið byrjaði sakleysislega...


...þetta var ekki einu sinni endirinn!


Það er best að hlífa saklausum lesendum (lesist móðursystrum) við fleiri myndum frá kvöldinu. Myndum eins og af ónefnum einstaklingi að dansa ber að ofan uppi á borði, undarlega mörgum myndum af Brynjari, kappsfullu harðfisksáti og einhver óprúttin aðili hefur tekið myndir af ókunnugum rassi á vélina mína. Í gallabuxum þó.

Aðeins einn Svansari komst ekki heill frá ferðinni, Halldóru tókst að slasa sig daginn fyrir skrúðgönguna miklu og gat engan veginn marserað. Christoph og Christof eiga ráð við öllu og redduðu hjólastól. Halldór ýtti henni svo í göngunni.


Á göngudaginn mikla, sunnudag, var lífið orðið erfitt




ekki bara hjá Möggu...




formaðurinn var bugaður af ábyrgð.

SKÁL!

Tuesday 9 September 2008

ó og æ

Mikið búið að ganga á síðustu daga hér í Leiderdorp.
Þegar Jón ætlaði að vaska upp á föstudagskvöldið kom í ljós að það var heitavatnslaust! fór til eigandans sem býr í hinum enda hússins með miða frá nágrannanum okkur um hvernig ég ætti að útskýra stöðu mála á hollensku.
Ekkert var víst hægt að gera samdægurs svo það var ekki fyrr en í gær, mánudag, sem reynt var að gera við. Fyrst kom í ljós að gaurinn hafði fengið vitlausan varahlut og um kvöldið þegar réttur varahlutur var kominn á svæðið að það var e-ð meira að en hann hélt. Svo enn á ný urðum við að sjóða vatn til að vaska upp og þvo okkur með þvottapoka.
En okkur til mikillar hamingju rann heitt vatn úr krönunum þegar við komum heim áðan.
Jón var ekki lengi að rífa sig úr leppunum og í sturtu - hann er þar enn.

Einnig fengum við póst frá leigusalanum okkar að hún mun koma fyrr heim vegna veikinda móður sinnar. Við þurfum því að fara úr íbúðinni 7. okt í stað 31. okt.
Bölvað vesen - það á eftir að koma í ljós hvert við förum. Spennandi líf - ekki satt?

En það er alltaf e-ð skemmtilegt í gangi, aðalgleðin núna er Bad Orb! fljúgum til Þýskalands á fimmtudaginn og hittum káta Svansara. Síðan verður spilað í drep, eflaust nokkur snitsel og currywurst borðuð og jafnvel nokkrir bjórar sötraðir. Aðalspurningin er hvort varirnar lifi þetta af - spilaformið ekki í hámarki þessa dagana. Þá skiptir maður bara yfir á þríhornið.

Tuesday 2 September 2008

Austurríki

Brunuðum niður til Austurríkis til að vera við brúðkaup Steffi og Wurzel síðustu helgi.

Lögðum af stað á fimmtudeginum og stoppuðum eina nótt í bænum Erlangen. Þar var borðað, örstuttur hringur farinn um miðbænum og svo farið í bólið.

Fyrsta stopp í Austurríki var í Linz:






Eftir bæjarrölt og hádegismat var haldið í kastalann þar sem brúðkaupið var. Keyrðum sveitavegi í gegnum mörg lítil þorp og lengst upp á fjall áður en við komum á áfangastað.

Við fengum herbergi efst upp og greyið Jón var mjög þreyttur eftir að hafa borið töskurnar alla leið upp







Sem er ekki skrýtið þar sem þar voru margar margar tröppur og dularfullir gangar á leiðinni upp.







En útsýnið var líka flott



Brúðkaupið var mjög flott og skemmtilegt. Brúðurin hannað sjálf kjólinn og kápuna sem hún var í; yfir kjólnum var hún í nokkurs konar kápu. Á meðan athöfninni stóð var hún í kápunni en eftir athöfnina fór úr henni og um kvöldið, eftir að veislan sjálf var búin og partýið byrjað, fór hún í annan kjól - eins og þann fyrri en í öðrum litum. Mjög töff. Reyndar kom þetta með að skipta um kjól ekki til af góðu. Klæðskerinn saumaði brúðarkjólinn fyrst í vitlausum lit!
Brúðarvöndurinn var líka skemmtilegur, ekki beint vöndur heldur einhverskonar rósakúla.





Brúðurinn kom til kirkju á hesti



Brúðguminn var heldur ekki í hefðbundum klæðnaði, hann er ekki skoskur - finnst þetta bara svo flott!


Um kvöldið birtust svo riddarar sem börðust um brúðurina. Það var mjög flott, greinilega vel æfðir gaurar. Síðan rændu þeir brúðurinni og brúðguminn þurfti að ráða fram úr leyniskilaboðum og svo syngja til að frelsa brúðurina. Og ekki skemmdi fyrir að vera með svona skemmtiatriði í alvöru kastala.



Brúðguminn náði að frelsa brúðurina




og svo var dansað fram á nótt



Á sunnudeginum var slappað af við spil í kastalanum og síðan farið til Tulln og borðað aðeins og drukkið aðeins meira.

Í gær tók svo við 12 tíma keyrsla aftur til Hollands. Gekk bara ótrúlega vel og mér var jafnvel farin að lítast vel á hugmyndina að vera á kraftmeiri bíl til að geta brunað eins og Audi og BMW gaurarnir.