Tuesday 17 June 2008

Komin heim

Ég ákvað að koma aðeins fyrr heim - ekkert að gera í útlandinu - og kom beint frá Kaupmannahöfn til Akureyrar á föstudaginn. Óþarfi að eyða tímanum í Reykjavík ef maður kemst hjá því.

Mamma hélt að ég kæmi heim á mánudeginum svo ég náði að koma henni aðeins á óvart. Hún hélt þó ró sinni enda þarf meira til að slá hana út af laginu.
Síðan er búin að vera stanslaus gleði - útskriftarveisla þar sem ég náði að hitta ansi marga ættingja, vinkonuhittingur þar sem gerð var tilraun til að spila Pictionary en töluðum eiginlega of mikið og spilið var aldrei klárað, kíkt í bæinn og forðast sér fljótt úr honum aftur og svo kom Jón bara til þess að hitta mig í einn dag. Alveg eins og í "gamla daga".

Á næstu dögum er planið að vinna aðeins í ritgerðarmálum (*hósthóst*), borða mikið, afmæli hjá mömmu, kanna allar breytingarnar í bænum, kíkja aðeins suður og fara oft í nýju fínu sturtuna.
Ef einhver vill hitta mig þá er ég hjá mömmu og pabba (í nýja húsinu) og með gamla símanúmerið mitt.

Thursday 5 June 2008

Hratt?

Ég fór áðan að kaupa afsláttarkort í lestarnar. Jón er ekki heima næstu tvo mánuði svo ég get ekki notað hans kort, held að þetta borgi sig af því maður fær alveg 40% afslátt með svona korti. Svo eru líka að koma gestir og ég verð að hlífa þeim við okurverðinu í lestarnar.
Það gengur allt með sniglahraða í þessu blessaða lestarfyrirtæki eins og annars staðar hér í Hollandinu. Ég fyllti allt samviskusamlega út og skila inn, gaurinn hress með allt saman og segir svo: þú færð svo kortið eftir þrjá mánuði! jesús hversu lengi er verið að plasta eitt kort? gamanaðþessu.

Búin að redda nýrri íbúð - það fylgir köttur með! var ekki viss um að taka að mér aukaheimilismeðlim fyrst en ákvað að nú sé tíminn til að eiga gæludýr. Hef aldrei átt dýr - tja fyrir utan gullfiskinn sem Jón fékk reyndar í afmælisgjöf. Hann lifði nú ekki lengi greyið, vona að það segi ekkert til um framtíð þessa kattar.
Þurfum að vísu að leigja lengur en við þurfum svo ég verð hér ein með tvær íbúðir í júlí. Vantar einhvern gistingu?

Sunday 1 June 2008

Kaffi!

Langt síðan einhver hefur kallað á mig í kaffi.

En þetta er kaffitíminn minn í dag:



Fór á markaðinn í gær og missti mig aðeins í ávaxtakaupum. Hefði átt að taka mynd af öllu saman í gær. Keypti eina melónu, hálft kíló af kirsjuberjum, 2 box af jarðberjum sem var örugglega heilt kíló! Það var tilboð ef maður keypti tvö box af jarðaberjum svo ég ákvað að slá til en gaurinn tók ekkert box heldur sturtaði heilum helling af berjum í bréfpoka og rétti mér.
Sem þýðir að ég er búin að borða ber í kaffinu í gær, aðeins seinnpartinn, aðeins um kvöldið, svoldið þegar ég vaknaði og svo núna í kaffinu.

mmmmmm