Friday 29 February 2008

meira um mat

McDonalds auglýsir á fullu í sjónvarpinu nýjasta nýtt; hamborgara með súrkáli (sauerkraut). Mmm girnilegt ekki satt?

Ánægjustunur bárust frá sambýlismanninum þegar ég bar á borð flatkökur með hangikjötsáleggi með grjónagrautnum í vikunni. Í fleirtölu. Í útlöndum þarf ekki mikið til að gleðja mann :)

Monday 25 February 2008

...

Nóg að gerast, tíminn flýgur auðvitað hraðar áfram en nokkurn tíma fyrr. Er það ekki alltaf svoleiðis?

Jón átti afmæli fyrir akkúrat viku og ég gerði mitt besta til að gleðja hann. Vakti hann með skreyttu muffins og afmæliskertum í morgunsárið og hristi enskum morgunmat fram úr erminni. Kannski ekki alveg, þvílíkt vesen að kokka allan þennan mat; pylsu, beikon, egg, steikir sveppir, steiktir tómatar, bakaðar baunir og ristað brauð.

Enduðum svo daginn á að kíkja á jam session á jazz café-inu.
Örvar vinur Jóns kom á þriðjudaginn, Jón fór til Genf á þriðjudaginn, kom á fimmtudaginn og þá komu líka Reynir og Biggi vinir Jóns. Helgin fór því í að sýna Leiden og Amsterdam, borða mikið af mat og svo fengu þeir líka að smakka Ursus og aðeins af bjór.
Drengirnir er einstaklega vel upp aldir og fékk ég bæði nammi og gjöf fyrir að þola þessa innrás. Gjöfin var allavega sérstaklega til mín. Þessi innrás var þó bara skemmtileg enda er alltaf gaman að fá gesti og hafa ástæðu til að fara út að borða og prófa nýja staði.

Stemmingin var góð:)

Ég fór líka á fyrsta fundinn með leiðbeinandanum mínum síðasta miðvikudag og hún gaf mér eiginlega fullt mikið frjálsræði. Það er eiginlega erfiðast að ákveða hvað maður vill. Fyrsta verkefni er því að afmarka rannsóknarefni og lesa, lesa og lesa.

Sunday 17 February 2008

ein í koti

Búin að vera ein heim um helgina. Sem er nú allt í lagi og einstaklega gott tækifæri til að læra mjög mikið. Sem ég gerði ekki. Gerði bara ýmislegt annað í staðinn. Fór t.d. á nýjan pöbb. Sá var reyndar ekkert pöbbalegur, mjög flott retro lúkk á staðnum og tónlistin í stíl.
Þar sá ég líka eitt sem er ekki svo óalgengt hér í Hollandi, barn á bar. Þetta var á föstudaginn svona rétt fyrir sex og ég sá par, með sitt hvorn bjórinn, með ca. 5 ára gamalt barn með sér. Fólkið sat bara og sötraði sinn bjór og spjallaði og fór svo. Ég held að einhver hefði hringt á barnaverndaryfirvöld á Íslandi. Hér þykir greinilega eðlilegt að fá sér einn bjór á leiðinni heim eftir að hafa sótt krakkann á leikskólann.

Lokaverkefnið er í lausu lofti, fæ fund næsta miðvikudag til að ræða við væntanlegan leiðbeinanda um hvað ég get gert. Allavega er það sem ég ætlaði að gera út úr myndinni. Spurning hvort ég nái að klára verkefnið á tilsettum tíma fyrst öllu hefur seinkað svona mikið. Maður átti sko að byrja að lesa sér til og svona í janúar *hóst*. Þannig að þeir sem voru byrjaðir að undirbúa heimkomupartý handa mér geta breytt þemanu í jólapartý...

Tuesday 12 February 2008

Gott veður og gestir

Liðið komið og farið.
Eftir formlega móttöku á Schipol með skilti og allt var skundað heim þar sem óvænt afmælisveisla fyrir Ingu og Evu (Björgvin fékk líka að vera með) sem við Stína vorum búnar að plotta beið. Ég var búin að skreyta og veitingarnar voru eins og "í gamla daga", hrískaka og pylsuterta.

Næstu dagar fóru svo í að labba, tala, borða, versla smá og tala aðeins meira. Litla íbúðin stóðst álagið og allir komust fyrir á einni breiðsæng á stofugólfinu. Ekki var mikið um slagsmál og klósett- og sturtuskipulag gekk vel. Þetta hljómar nú illa, eins og að fólk hafi bara fengið að pissa einu sinni á dag en svo var nú ekki. Það rennur bara svo hrikalega hægt í blessaðan vatnskassann...

Veðrið var líka einstaklega gott allan tímann svo hægt var að draga fólk meðfram síkjum og skökkum húsum án mikilla kvartana.

Í Amsterdam er greinilega herferð í gangi gegn mansali í vændi. Á mörgum veitingahúsum er veggspjald á klósettinu þar sem atriði sem benda til að vændiskona sé fórnarlambs mansals eru talin upp. Þar stendur að ef konan sýnir ótta eða kvíða, er með marbletti eða það besta; virðist ekki hafa ánægju af starfinu, þá á maður að hringa í uppgefið símanúmer og tilkynna grun um mansal. Hollendingar eru svo fyndnir, þegar ég hef labbað fram hjá rauðu gluggunum þá geisla blessuðu konurnar ekki af starfsánægju...
Enda er þetta sorgleg sjón en hollensk kona í bekknum mínum sem ég ræddi þetta einu sinni við var á því að þetta væri bara þeirra val og þær væru með stéttarfélag og allt í þessu fínu. Ég leyfi mér að efast um að málið sé svo einfalt.

Veðrið í dag er búið að vera glimrandi gott, sól og hlýtt í skjóli. Fórum því á útikaffihús hér rétt hjá þegar Jón kom heim úr skólanum og fengum okkur ís. Svona er að vera fátækur stúdent í Hollandi:)

Monday 4 February 2008

Í fyrsta skipti

Á laugardagsnóttina fór ég í fyrsta skipti í leigubíl hér í Hollandi. Hitti nokkrar íslenskar skvísur um kvöldið í den Haag og að sjálfsögðu var talað svo mikið að við misstum af síðasta tram-inum. Þá var ákveðið að splæsa í leigubíl upp á lestarstöð. Bíllinn ilmaði líka svona skemmtilega af kebab.
Þegar komið var á lestarstöðina kom í ljós að ég hefði rétt misst af lestinni til Leiden og næsta kom eftir klukkutíma. Hefði ekki verið gaman að húka þar ein svona um miðja nótt en Delft dömur fórnuðu dýrmætum svefntíma og seinkuðu sinni brottför og biðu með mér. Ekki amalegt það:)

Í gær fórum við í fyrsta skipti til Amsterdam alein! Í þau þrjú skipti sem við höfum farið höfum við alltaf farið með gestum og vitað nærri því jafn lítið og gestirnir um áttir og staði. Við röltum aðeins um og reyndum að átta okkur betur á svæðinu til að vera betur undirbúin undir næstu innrás. Svo sá ég líka í fyrsta skipti gaura fara inn og koma út úr rauðu gluggunum. Hef bara séð gaura spyrja og svona en enga fara inn eða út. Rómantískt.

Í dag fórum við til Delft í fyrsta skipti að degi til og í fyrsta skipti í strætó í dag. Reyndar skoðuðum við bæinn ekki neitt heldur fórum í IKEA. Ætlaði bara að kaupa tvo kolla svo allir gestirnir gætu nú setið saman við matarborðið. Það bættist nú aðeins við innkaupin og við komum með meira en blessuðu kollana heim.

Fyrsti tíminn er á miðvikudaginn og þá fer allt að rúlla og afslöppunin víst að verða búin.