Sunday 26 October 2008

Vetrartími

Í nótt var klukkunni breytt og tekinn upp vetrartími. Þess vegna gat ég sofið alveg jafn lengi og venjulega en samt farið fyrr á fætur. Alltaf gaman að græða tíma.

Hér gerist lítið, ég sit með hausinn fullan af hor og reyni að koma einhverju á blað (eða frekar í tölvuskjalið...). Það gengur frekar hægt þar sem úthald og öll heilastarfsemi virðist vera í lágmarki í þessu ástandi. Notaður snýtupappír er aftur á móti í hámarki og greyið Jón er frekar þreyttur á þessu tissjúi út um allt hús.

Algjörlega þessu óviðkomandi þá hafa Hollendingar gaman af raunveruleikaþáttum - allavega er nóg af þeim í sjónvarpinu, til dæmis survivor þættir, allskonar ástartengdir þættir en ég sá auglýsingu um daginn fyrir það allra besta: Fegurðarsamkeppni fyrir mæðgur! Svo komu myndir af mæðgum í eins dressum tilbúnar að keppa í Frú/ungfrú móðir og dóttir. Að lokum var auglýst eftir þátttakendum, hver vill vera með?

Næsta miðvikudag, þann 29., er nákvæmlega mánuður þangað til að við skilum þessu húsi til eigandanna. Ég er orðin frekar óþolinmóð að komast heim, prenta út ritgerðina og komast úr þessu roki og rigningu í blessaðann snjóinn.
Þá er bara að krossa fingur og vona að næstu vikur verði horlausar (allavega horminni) og kennarinn verði ekki allt of erfiður við mig.

Tuesday 14 October 2008

Fjör

Rétt fyrir kreppu þá keyptum við okkur miða á Emilíönu Torrini tónleika hér í Amsterdam. Á sunnudaginn mættum við á Paradiso, gömul kirkja sem hefur verið breytt í klúbb, ásamt Ingu og Unnsteini. Tók nú ekki mikið eftir öðrum Íslendingum en býst nú við að þeir hafi verið nokkrir þarna.

Tónleikarnir voru mjög skemmtilegir, Emilíana grínaði á milli laga og sagði frá lögunum. Svo var Sigtryggur Baldursson (Bogomil Font) víst kúl á trommunum en ég sá lítið sem ekkert af hljómsveitinni, var ánægð með að sjá e-ð í söngkonuna. Ég er alveg vön allskonar útsýni á tónleikum en það bætir ekki hvað Hollendingar eru helv... hávaxnir.
Það var þó ekki prumpað á mig í þetta skipti. Það er alveg önnur saga, fyrir viku vorum við inni á litlum jazzstað í Leiden með Gísla og Ingu og ég stend fyrir aftan rosalega hávaxinn mann. Allt í einu finn ég gust og þessa svakalegu fýlu, hafði ekki mannfjandinn prumpað svona hressilega - og ég fyrir aftan með hausinn nokkurn veginn í rasshæð á kauða! Það sem á lítið fólk er lagt...
En já tónleikarnir skemmtilegir og við hjóluðum aftur heim áfallalaust. Erum orðin nokkuð flink á hjólunum í miðborginni. Ekkert grín með allt þetta fólk, hjól, vespur, bíla, strætóa og sporvagna.

Nóg fjör hjá okkur - bíðum spennt eftir hvort Landsbankinn millifæri nokkrar evrur fyrir okkur. Búið að leggja inn beiðni og spila út námsmannakortinu. Svo er bara að bíða og sjá...

Friday 10 October 2008

Kreppukrepp?

Eyddum síðustu dögunum fyrir kreppu með Gísla bróður Jóns og Ingu kærustunni hans. Fórum meðal annars til Leiden á bæjarhátíð, borðuðum poffertjes og oliebollen, fórum í tívolítæki en eyddum mest af tímanum hér í Amsterdam. Inga og Unnsteinn komu meira segja frá Rotterdam og við borðuðum svolítið meira, pönnukökur og tíbetskan mat (- our chef is a funny guy - ö já einmitt). Gestirnir fengu meira segja vla og hagel í morgunmat og við Gísli og Inga hristum pönnukökur, egg og beikon fram úr erminni einn morguninn. Það var sko ekki kreppa þá!

Greyin rétt sluppu heim og þá fór geðveikin af stað. Ég ætla nú ekki tala neitt um það - eða ekki mikið allavega. Þetta er útum allt, auðvitað á íslensku miðlunum en líka BBC (sem við einmitt með hér) og Hollendingar eru alveg brjálaðir útaf Icesave. Og maður messar ekki í sparifé nískupúka, ég meina Hollendinga - og það reddast aldrei neitt hjá þeim. Þeir elska að mótmæla og kvarta og röfla og tuða. Guð hjálpi þeim sem þarf að díla við þá þarna á klakanum.

Hvað um það, núna getur maður hætt að hafa áhyggjur af hækkandi gengi og farið að hafa áhyggjur hvort maður nái einhverjum aurum út úr hraðbanka hér. Reynir svo sem ekki á það fyrr en eftir helgi. Eigum nokkra seðla og mat í skápunum - og meira að segja nýlenduvörur eins og klósettpappír, handsápu, tannkrem og smá í sjampóbrúsanum!
Svo við erum bara jákvæð - über alveg - þetta reddast og gæti verið verra. Erum allavega að verða búin hér en ekki nýkomin.
Ef allt fer svo á versta veg þá sendi ég bara Jón niðrá lestarstöð með básúnuna...