Monday 28 April 2008

Grískir páskar

Í gær var páskadagur samkvæmt grísku rétttrúnaðarkirkjunni (Greek orthodox) og að sjálfsögðu var slegið upp veislu. Á páskadag er venjan að grilla heilt lamb og borða, drekka og dansa allan daginn eins lengi og maður endist. Fólk er búið að fasta í 40 daga, tja núna fasta víst flestir í viku, svo allir eru rosa svangir.

Við mættum klukkan tvö og fórum heim um miðnætti eftir stanslaust át, drykkju og dans. Ég sýndi víst mikla hæfileika í grísku dönsunum og var úrskurðuð Grikki. Þannig að ég kem ekkert heim í haust, ég er farin til Grikklands!

Spiros að grilla


mikið borðað

Síðan runnu víst 123 bjórar og 15 flöskur af víni ofan í 15 manns og myndirnar mínar undarlega lélegar. Þeir sem vilja samt sjá myndir og misgóð myndbönd geta kíkt á síðuna hans Jóns.

Mætti svo í tíma í morgun, allir hressir og kátir!

blóm og bruni

Hvað gerir maður þegar maður á að vera heima og læra? jú gerir eitthvað allt annað.

Á laugardaginn fórum við í fyrsta hjólatúrinn út fyrir borgina og skelltum okkur til Sassenheim til að horfa á blómaskrúðgöngu. Reyndar var ég næstum jafnspennt yfir að sjá lúðrasveitir og blómin, hvað er betra en lúðrasveitabúningaklæddu fólki í beinum röðum labbandi í takt? reyndar voru sveitirnar sem við sáum í haust flottari en þessar en hvað um það, alltaf gaman að nokkrum mörsum.

Í Sassenheim hittum við Marielle og börn og hjóluðum um túlipanaakra heim til þeirra í Lisse.



Eftir alla klukkutímana í sólinni voru við bæði orðinn ansi rauð og sæt. Fyrsti sólbruni sumarsins í höfn. Falleg bóndabrúnka í uppsiglingu!


Á síðunni hans Jóns er tengill á myndir frá blómasýningunni fyrir þá sem vilja. Og fleiri myndir af bóndabrúnkubrunanum.

Thursday 24 April 2008

Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti í dag en engin skrúðganga og allt eins og á venjulegum fimmtudegi. Skrýtið!

Hrærði í pönnukökur og bauð nokkrum Grikkjum í kaffi í tilefni dagsins. Pönnsurnar þóttu auðvitað ægilega góðar og rabbabarasultan frá mömmu fékk líka góða dóma.
Fyndnast var þegar ég bar fram þeyttan rjóma og stelpurnar spurðu hvort ég hefði gert "þetta" sjálf. Ha? rjómann? já rjómann. Ö já ég þeytti hann. Vá þú kannt sko að búa til mat!
Ég vissi nú ekki að það væri nein matargerðarslist að þeyta rjóma. Þetta þótti þeim samt góð frammistaða.

Svo er bara að rumpa af eina verkefni á morgun og hinn af því á sunnudaginn er páskadagur samkvæmt grísku rétttrúnaðarkirkjunni og þá þarf að gera sér glaðan dag! borða aðeins og skála með Grikkjunum...

Monday 21 April 2008

17° og sól

mmm það er búið að vera yndislegt veður í dag og í gær. Alveg fullkomið að sitja úti og njóta lífsins.

Dagskráin er búin að vera þéttskipuð undanfarið.
Ásgeir kom, borðaði pizzu, drakk bjór og viskí, fékk túr um bæinn og kíkti með í gríska afmælisveislu. Drengurinn dansaði að sjálfsögðu gríska dansa og fékk góða dóma frá stelpunum.

Síðasta vika litaðist af undirbúningi fyrir helgina. Wendy og Chris skátavinir Jóns eru að fara að gifta sig í sumar og ég fékk það verkefni að skipuleggja eitt stykku gæsadag/kvöld/nótt. Verðandi brúður hef ég hitt tvisvar og aðra gesti sjaldnar eða aldrei. Ég lagðist því í rannsóknarvinnu til að kynna mér viðfangsefnið.
Ég viðaði að mér ýmsu og eyddi síðustu vikum í að senda tölvupósta til vinkvenna hennar og rekja garnirnar úr Jóni.

Úr varð heljarinnar dagskrá:
Daman var sótt á hótelið rétt rúmlega tíu um morgunin, byrjaði á smá sögufyrirlestri um Gömlu Kirkjuna til að koma inn kvíða um ægilega leiðinlegan túr. Skundaði svo á næsta pöbb, skellti í liðið einum drykk og dressaði dömuna upp í appelsínugulasta dress norðan Alpafjalla. Appelsínugulur er sá litur sem hún fer aldrei í, hatar bara eiginlega. Svo heppilega vill til að það litur konungsfjölskyldunnar svo af nógu er að taka hér. Þetta vakti mikla gleði vegfaranda sem héldu að hún væri í einhvers konar þjóðbúning og daman rataði í mörg myndaalbúm.
Ég útbjó ratleik sem var með vísbendingum á frönsku, hollensku, ítölsku, ensku og grísku sem leiddi okkur um Amsterdam. Fyrsta stopp var að finna systur dömunnar sem var óvæntur glaðningur. Hún lék myndastyttu á aðaltorginu og besta var að daman þekkti hana ekki nærri strax! það var sko fyndið.
Best að koma þessu frá sér í fáum orðum: Daman seldi smokka og te (hún er ensk sko), söng ABBA fyrir vegfarendur, keypti lúxuskonfekt fyrir ágóðann, fékk hjálp við að þýða vísbendingarnar í ratleiknum, borðuðum pönnukökur í hádegismat, við kíktum aðeins í Begijnhof, á Sex Museum, fórum í nudd, borðuðum indverskan mat um kvöldið, mikið talað, fórum á coffeeshop og dönsuðum fram á nótt.

Allir voru ægilega glaðir með daginn og ég var þreytt í gær. Eiginlega í dag líka.

Það er farið að styttast í sumarið með brúðkaupsflóðinu ægilega vítt og breitt um Evrópu. Svo er ég búin að fá boð í brúðkaup í Grikklandi næsta sumar! nóg að gera í bransanum.

Tuesday 8 April 2008

Frábært

Sit við tölvuna og skrifa, stoppa aðeins og horfi út um gluggann.
Viti menn, það er maður að þrífa gluggann minn! Ekki veit ég hvort þetta sé innifalið í leigunni eða boði bæjarins en ég ætla allavega ekki að mótmælia.
Sé svo manninn ná í miða í vasann sinn og kíkja á hann. Kannski var hann að fatta að hann átti ekkert að þvo okkar glugga...

Saturday 5 April 2008

Verst af öllu

...er í heimi einn að búa í Reykjavík, kúldrast upp á kvistherbergi einn og hugsa um pólitík
djók

...er að vera ein heima, í sturtu með sjampó í hárinu, hitunin á hitadunknum dettur út, maður verður að gjöra svo vel að skola mest af sjampóinu úr með ísköldu vatni, þurrka af sér mestu bleytuna, skrönglast fram, draga hjólaborðið frá hurðinni að kompunni þar sem hitadunkurinn er, kveikja á hituninni, hlaupa aftur í sturtu og ná í sig hita.

Sem betur fer kom þetta ekki fyrir í dag.

Verst er líka að vera með lagabrot á heilanum. T.d. "Sigurður var sjómaður, sannur vesturbæingur". Verst er að mér finnst þetta ekki skemmtilegt lag og kann bara þessar tvær línur. Annað sem er líka á heilanum á mér "og þá stundi Mundi, þetta er nóg þetta er nóg, ég þoli ekki lengur að þvælast á sjó". Reyndar kann ég alveg lagið en ekki meira af textanum.

Best að einbeita sér að mikilvægari skrifum...

Thursday 3 April 2008

Research proposal

Jón skrapp til Sviss í gær og kemur aftur á sunnudaginn. Á meðan ætla ég að vera mega dugleg að skrifa research proposal. Er reyndar ekki búin að skrifa mikið í dag en fann fullt af greinum til að skoða betur. Markmiðið er að skila til leiðbeinandans á mánudaginn svo hún geti gert athugasemdir. Hitti hana í gær og sýndi henni ritgerðarplanið mitt. Samkvæmt því ætla ég að klára í ágúst og henni fannst það ansi stíf áætlun. Reyndar efast ég um að ég nái að fylgja þessu plani, sérstaklega miðað við öll brúðkaupin sem við ætlum í og gestina sem við eigum von á (eru ekki annars allir á leiðinni í heimsókn?).
Kannski er allt í lagi að seinka ritgerðarskilum, þá get ég bara tekið nokkra aukaáfanga. Svo eru grísku bekkjarsystur mínar að reyna að sannfæra mig um að vera hér áfram. Það eru nokkrar sem ætla ekki aftur til Grikklands og finnst góð hugmynd að ég verði hér líka. Ein er meira að segja að hugsa um að kaupa hús og allt.

Verkefni númer fjögur þessa dagana er gæsun Wendy. Svoldið skrýtið að plana svona þegar maður hefur bara hitt manneskjuna tvisvar. Það gerir þetta líka erfiðara er hvað fólk er lengi að svara tölvupóstum. Þá er ég að tala um útlendinga, aðallega Þjóðverja og Englendinga. Ég er að reyna að fá álit hinna á hinu og þessu sem gengur afar hægt. Nema Lettar er fljótir. Það er greinilegt að það eru ekki allir jafn tölvupóstsvæddir eins og Íslendingar. Tja eða svona flestir Íslendingar...
Allavega er maður svo góður vanur, skrifar póst og fær oftast svar innan sólarhrings.

Eitt af því sem ein vildi endilega að yrði gert er að fara á strippstað. Allt í lagi, ég ákvað að kanna hvort það væri einhver staður í Amsterdam með karlkyns strippara. Mæli ekki með því að setja inn "male stripper Amsterdam" í Google. Þið getið bara ímyndað ykkur hvað kom upp.