Monday 26 November 2007

Brennivín

Á laugardagskvöldið bauð ég útlendingahlutanum af bekknum mínum upp á íslenskt góðgæti. Mættir voru að sjálfsögðu Grikkirnir og sú ameríska/hollenska/indónesíska en stelpan frá Brasilíu komst ekki.
Ég dróg fram brennivín og tópas, harðfisk og smjör og nammi. Það er sko til nóg af nammi hér! Mamma stóð sig vel í útflutningnum:) Ég náði ekki einu sinni að leyfa þeim að smakka á öllu. Þau fengu draum, rís, lakkrískonfekt, nóakropp og kúlusúkk og viðbrögðin voru: "taktu þetta í burtu áður en ég klára allt" og "þetta nammi er ávanabindandi"!
Það sem kom mér nú á óvart var hvað þeim fannst brennivínið gott. Flestum fannst það miklu betra en tópasið. Ég er nú heldur ekki vön að fólk biðji um meira brennivín.

Ég fékk líka að smakka á "þeirra" drykk, Ursus. Reyndar ekki grískur drykkur en víst mjög vinsæll þar og er aulýstur sem "the surprise from Iceland" og á flöskunni stendur "based on the original icelandic recipe". Reyndar er drykkurinn framleiddur hér í Hollandi og minnti helst á krækiberjasaft. Kannski er þetta bara gömul íslensk uppskrift, hver veit?
Nú á ég rúmlega hálfa flösku og allir sem koma í heimsókn mega smakka!

Jón útbjó líka lagalista til að leyfa gestunum að heyra íslenska tónlist. Hvað ætli sé mest lýsandi fyrir íslenska tónlist: Björk, Þursaflokkurinn, Nýdönsk, Baggalútur, Ampop, Mugison eða Helgi og hljóðfæraleikararnir?
Ég komst að því þegar ég skoðaði íslensku tónlistina sem ég er með í tölvunni að það vantar alveg nýjustu hljómsveitirnar. Verð að bæta úr þessu, gengur ekki að vera ekki með það nýjasta þegar maður er í útlöndum að reyna kynna íslenska tónlist fyrir fólki.

Saturday 24 November 2007

Sinterklaas

Jólasveininn kom til Leiden í dag.
Formlega kom hann til landsins síðasta laugardag og var það víst sýnt í sjónvarpinu. Sá gamli getur að sjálfsögðu ekki verið á mörgum stöðum í einu og kom því í dag með viðhöfn til bæjarins.
Jólasveininn kemur frá Spáni á skipi með svörtu aðstoðarmönnunum sem allir heita Piet. Um hádegið var þéttskipað við síkið og allir að bíða eftir hersingunni. Fyrst komu litlir bátar og svo stærri bátur með jólasveininum og félögum. Á bátnum var líka lúðrasveit skipuð Piet-um og fullt af fólki var á sínum bátum að fylgja þessu eftir.
Allir veifuðu á fullu og mér fannst merkilegt að allir krakkarnir kölluðu á Piet og voru mörg klædd í Piet búninga (svipað og hirðfífl). Hann er greinilega merkilegri en sá gamli.
Síðan komu allir á land og greinilega einhver dagskrá að fara að byrja en ég nennti nú ekki að hanga yfir því. Svo er líka hægt að heimsækja jólasveininn og Piet í húsinu þeirra niðri í bæ fram að 5. des en þá er aðalgjafadagurinn.

Ég gleymdi myndavélinni en hringdi í Jón og hann kom hlaupandi en náði því miður fáum myndum af gleðinni. Sjáum til hvort þær rati inn á netið eða hvort ég reyni að finna aðrar myndir til að sýna múnderinguna á liðinu.

Sunday 18 November 2007

Verður Íslendingum kalt?

Brandari vikunnar hjá Grikkjunum var þegar ég sagði að mér væri kalt. Það fannst þeim ótrúlegt, ég er nú frá Íslandi! Þau eru búin að væla mikið yfir kuldanum en ég hef ekki haft yfir miklu að kvarta. Maður kann að klæða sig. Þennan daginn klæddi ég mig kannski ekki alveg nógu vel og var þess vegna aðeins kalt. Bara aðeins.
Eins gott að þau sjái mig ekki stundum á kvöldin þegar ég fer í ullarmokkasíurnar og undir teppi til að hlýja mér.
Ég er nefnilega vel útbúin innan sem utandyra. Eva kom með bútasaumsteppið frá mömmu og mamma kom með ullarmokkasíur sem Gunna systir prjónaði handa henni fyrir útlegðina í Nottingham. Greinilega nauðsyn fyrir Íslendinga í útlöndum í köldum húsum með einfalt gler.

Í dag var stór dagur. Pönnukökupannan var dregin fram og skellt í nokkrar pönnsur í fyrsta skipti hér á Morsweg. Það tók nefnilega smá tíma að verða sér út um jafn exótísk hráefni eins og lyftiduft og vanilludropa.
Markmiðið er að verða nokkuð fær pönnukökubakari áður en ég kem heim. Í heimilisfræði lærði ég nefnilega bara tveggja manna pönnukökubakstur en ég hef ekki alltaf Ingu hjá mér svo ég verð að læra að gera þetta sjálf.

Aðalverkefni síðustu viku var að búa til myndband um öruggt kynlíf og æfa efnið sem við munum nota í prógramminu okkar. Á morgun þurfum við svo að kynna allt fyrir kennurunum. Eftir eina og hálfa viku munum við standa fyrir framan heilan bekk af 14 ára unglingum og fræða þau um öruggt kynlíf. Fjör? án efa. Stressandi? pottþétt.

Tuesday 13 November 2007

Mígandi rigning

Í dag var mígandi rigning. Svona eins og kemur í hellidembu nema þetta stóð yfir í allan dag.
Hjólaði heim úr skólanum og þurfti að skipta um buxur. Þurfti síðan að mæta aftur í tíma og enn var rigning.
Á minni stuttu leið urðu buxurnar mínar svo blautar að ég var alvarlega að hugsa um að fara úr þeim og vera á brókinni í tímanum. Í staðinn sat ég í þrjá tíma með buxurnar límdar við lærin.
Buxurnar þornuðu hægt og rólega og voru nokkurn veginn þurrar þegar ég hjólaði aftur heim.
Hrollurinn náði lengst inn í bein svo það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að fara í heita sturtu, síðan í ullarsokka og hita vatn í kakóbollann.

Spurning um að kaupa sér hlífðarbuxur?

Friday 9 November 2007

Stormur

George sagði mér í fyrradag að það væri búið að gefa út stormviðvörun. Grikkirnir voru stressaðir yfir þessu en ég hélt náttúrulega kúlinu, öllu vön sko. Enda virðist sem vonda veðrið sé aðallega á Englandi.
Í nótt var samt versta veður síðan ég kom, ég meira að segja vaknaði við lætin. Afar óvenulegt en kannski spilaði einfalt gler inni í. Í morgun bættist svo haglél við.

Að hjóla í roki er ekki skemmtilegt. Áðan var svo mikið rok að ég hreyfðist varla á hjólinu og svo mikil rigning að ég þurfti að skipta um buxur þegar ég kom heim. Þvílíkt ástand!

Áætlunin "að aðlagast hollensku samfélagi" gengur ágætlega. Síðustu tvo daga hefur Jón komið heim með hollensk fríblöð og ég reyni að fatta um hvað greinarnar eru. Mun samt halda mig áfram við mbl.is til að fylgjast með gangi heimsmálanna (eða buitenland nieuws upp á hollenskuna).
Ég er ekki enn alveg búin að ná sögunni af svörtu hjálparsveinum hollenska jólasveinsins. Hvernig byrjaði þetta eiginlega? Ég hef engin svör fengin frá þeim Hollendingum sem ég hef spurt um þetta dæmi. Núna þegar jóladótið er byrjað að streyma í búðirnar þá brosa svartir hjálparsveinar í hálfgerðum miðaldahirðfíflabúningi við manni við jólagóssið. Kannski er bara ósanngjarnt að allir jólasveinar og hjálparliðið í kringum hann séu hvítingjar.
Einnig er mikilvægt að fylgjast með sportinu. Núna er æsispennandi skautahlaupskeppni í sjónvarpinu. Merkilegt íþrótt þar sem menn hlaupa hring eftir hring á skautum og rass- og lærvöðvar eru klárlega málið. Ætli þeir eigi erfitt með að finna buxur sem passa?

Thursday 8 November 2007

Vel af sér vikið

Í gær mætti ég samviskusamlega klukkan eitt í skólann. Enginn annar var mættur. Ég fór að pæla hvort tíminn hafi verið færður í aðra stofu en fann ekkert um það á töflunni. Eftir smá bið og ráf til að athuga hvort ég myndi sjá einhvern ákvað ég að hringja í Eleni M. og spyrja hvar allir væru eiginlega.
Kennarinn sagði okkur víst í síðustu viku að þessi tími yrði færður frá eitt til klukkan fimm! Gott hjá mér. Ekkert annað að gera en að hjóla aftur heim. Gaman að eyða aðeins tímanum í vitleysu.

Eftir tímann þótti (Grikkjunum) tilvalið að kíkja á barinn. Fórum á stað sem heitir því skemmtilega nafni WW sem á hollensku er borið fram vei vei. Hljómar svoldið bjánalega. Vei vei.

Á barnum voru meðal annars jólin plönuð hjá okkur sem fara ekki heim. Við erum fjórar, 2 grískar, 1 brasilísk og ég ásamt því allar erum við með gesti. Held að þetta verði um 13 manns í heildina. Við ætlum að slá saman í jólaveislupartý með öllu tilheyrandi, grískum, brasilískum og íslenskum jólamat, drykkjum og skrauti. Það verður sko fjör!

Tuesday 6 November 2007

Sælan á enda

Mamma og pabbi fóru heim til Íslands í morgun.
Þau mættu spræk á Schipol á fimmtudaginn með grunsamlega margar og stórar töskur. Ég átti von á góðu en það sem kom upp úr töskunum fór fram úr öllu sem mér hefði dottið í hug. Mér dettur ekki einu sinni í hug að reyna að telja upp allt það sem er núna í hillum, skúffum og skápum hér á Morsweg.
Íslenskur matur og dagblöð glöddu mig mest, líka þæfðar ullarmokkasíur og spil, auka yfirhafnir og gönguskór koma sér vel en skólabækur og tölfræðiglósur skiptu minnstu máli. Allavega þessa dagana.
Því verður ekki neitað að minni kæru stórfjölskyldu finnst gott að borða. Það skein í gegn í þessari mögnuðu sendingu að heiman. Það er alveg ljóst að hér verða mjög svo gleðileg jól!

Það væri hægt að skrifa en margar síður um það sem var gert um helgin en hér kemur stutt skýrsla:
Á föstudaginn héldu hjónin ein til Rotterdam á meðan við lærðum.
Á laugardag stóð ég fyrir skoðunarferð um Leiden. Fórum meðal annars á markaðinn þar sem pabbi smakkaði hráa síld með lauk að hætti infæddra en Jón læt sér nægja síld í brauði. Að sjálfsögðu var imprað á helstu sögulegum staðreyndum og þróun atvinnulífs hér. Hver hefur ekki gaman af því?
Á sunnudaginn fórum við til Amsterdam, kíktum í Begjinhof, sáum elsta hús borgarinnar, sigldum um síkin og heimsóttum Önnu Frank safnið.
Á mánudag var slæpst hér í Leiden og kíkt í nokkrar búðir.
Svo var að sjálfsögðu farið á veitingahús eins oft og kostur var á smakkað á ýmsum kræsingum, t.d. ítölskum, grískum, indónesískum, tælenskum, hollenskum og argentínskum.
Það verður erfitt að fara aftur í spaghettí-ið!

Allt gott tekur víst enda en núna get ég þá bara farið að setja mig í stellingar fyrir næsta gest!