Wednesday 26 December 2007

Gleðileg jól

Margt og mikið hefur gerst síðustu tvær vikur eða svo.

- Fór í fyrsta próf hér í útlöndum. Skrýtið að svara á ensku og prófið var líka allt öðruvísi en þau sem ég hef farið í áður. Við fengum fræðigrein um akstur háskólastúdenta undir áhrifum áfengis og síðan áttum við að búa til íhlutun, hverju við myndum vilja breyta, af hverju og hvernig. Semsagt kapphlaup við tímann að skrifa eins mikið og maður gat. Líka skrýtið að prófa ekki bara í þekkingu á efninu heldur líka hversu hugmyndaríkur maður er. Sjáum til hvernig þetta fer.

- Skilaði stóra kynlífsverkefninu. Verkefnið sem við erum búin að vinna að síðan í haust og kennslustundin okkar var hluti af. Það var blóð, sviti og tár í þrjá daga. Í lokin var ferlíkið yfir 50 síður, barasta eins og ágætis BA verkefni...

- Steinunn kom! Stanslaus dagskrá og stuð.

- Fórum á pöbbinn að hitta Grikki, elduðum nautasteik með piparostssósu, fórum til Amsterdam í skítakulda að skoða m.a. Begijnhof og rauða hverfið (hver að verða síðastur), í partý ti Grikkjanna, til Antwerpen, Belgíu að skoða jólamarkaðinn, skautasvellið, smakka á bjórnum og kaupa minjagripi, til den Haag að versla í jólamatinn og kaupa Prins Polo í pólsku búðinni, bjuggum til plokkfisk og buðum Hollendingum upp á hann og graflax, gerðum alvöru heitt súkkulaði, fengum okkur graut með slátri, elduðum frábæran jólamat, opnuðum jólakortin og jólapakkana, borðuðum kornflexmarengs, sandköku með karmellukremi og smákökur, lásum jólabækurnar og fórum með hangikjöt til jólaboð til Grikkjanna.
Svona svo fátt eitt sé nefnt. Gæti verið að við höfum borðað mikið?

- Grikkirnir dönsuðu ægilega þjóðlega og flókna dansa við gríska tónlist. Við Steinunn settum Stuðmenn á og tókum stuðmannahoppið af mikum móð. Ég veit ekki alveg hvað Grikkjunum finnst um "traditional" íslenska dansa!

- Fékk fullt af skemmtilegum jólakortum og jólagjöfum. Ég á alveg einstaklega fyndna ættingja það er víst. Hvern vantar ekki Vilko kakósúpu, kjötsúpu, mjólkurkex, íslenskt nammi í miklu magni, jólatónlist, laufabrauðsservíettur og myndir af ættingjunum? Ég er allavega mjög ánægð með þetta allt saman.

- Það komust ekki allir pakkar á leiðarenda fyrir jólin. Kannski ekki svo slæmt, núna hefur maður líka nýarsgjafir! Vona að þetta berist nú samt áður en við förum til Þýskalands.

- Næst á dagskrá er að kíkja á útsölu(r) á morgun og undirbúa sig fyirr Þýskalandsferðina.

Saturday 15 December 2007

Jólakort

Fyrstu kortin komu í hús í dag!
Það er alltaf gaman að fá póst, sérstaklega jólakort. Það kemur ekki mikið af pósti inn um lúguna hér, þegar maður fær enga reikninga og engan ruslpóst þá er ekki mikið eftir!

Annað kortið var með nýja laufabrauðsfrímerkinu. Ég er mjög ánægð með þetta frímerki, þjóðlegt og flott. En hvernig er með frímerkjasafnarana þegar frímerkin eru límmiðar? Þá er ekki hægt að klippa út, setja í bleyti, pressa og raða inni í frímerkjabókina. Það er/var einn þáttur af aðfangadagskvöldi heima hjá mér, að passa að engin frímerki enduðu í ruslinu með umslögunum.

Annað sem mér finnst skemmtilegt er að skoða skriftina á umslaginu og velta fyrir mér hver hefur sent kortið. Ég þekki orðið nokkuð margar skriftir, sérstaklega hjá "gömlum" vinum og nánum ættingjum. Sumir (*hóst* Jón *hóst*) skilja ekkert í þessu og vilja bara rífa upp umslagið og skoða kortið. Það er alveg bannað. Það á að safna kortunum saman á góðan stað og opna öll á aðfangadagskvöld. Og ekki gleyma að klippa út frímerkin!

Best að lesa aðeins meira um kenningar og hvernig í ósköpunum maður eigi að fá fólk til að gera það sem það ætti að gera...

Tuesday 11 December 2007

Bömmer

Ég fór með skóna mína til skósmiðsins. Það var komið rifa meðfram sólanum, í gegnum leðrið og efnið undir líka. Yndæli skósmiðurinn sagði að það væri ekki hægt að gera við þetta.
Skórnir sem eru svo góðir vetrarskór, svona reimaðir ökklaskór svo maður blotnar síður en í venjulegum. Nauðsynlegt í bleytunni, það er sko nóg af henni hér í Hollandi.
Nú á ég enga almennilega vetrarskó, ekki get ég farið í gönguskónum í skólann - Grikkirnir eru nógu hissa á að maður gangi í vind/regnjakka.
Semsagt, ég neyðist til að kaupa nýja skó. Hentar ágætlega að útsölurnar voru að byrja!

Bömmer númer tvö er að jólamarkaðirnir í Þýsklandi eru samviskusamlega búnir 23.12. Allavega þeir sem eru í akstursfæri héðan. Þeir sem eru opnir eftir jól eru langtlangt í burtu, Hamburg, Berlín...
Ég var búin að hlakka svo til að fara á jólamarkað eftir jólin þegar við förum til Þýskalands. Svekkelsi.

Til að bæta upp allan þennan bömmer og byggja mig upp fyrir próflestur ætla ég að elda pasta með piparostsósu. Mmmm.

P.S. ég er búin að geyma ostinn frá því í september (takk Eva). Kannski kominn tími til að nota hann? sérstaklega þar sem mamma bætti á birgðirnar.

Saturday 8 December 2007

Sinterklaas

Sinterklaas kvöldið var áhugavert. Við klæddum okkur í betri fötin og áttum von á sparimat.
En húsráðendur voru bara voða "kasúal" og við fengum súpu og böku. Eftir matinn var skipst á að opna gjafir, sá sem fékk síðustu gjöf valdi hver fengi að opna næst. Þetta var allt voða rólegt, einn pakki í einu, dótið skoðað, tekin mynd og sungið "dank u Sinterklaasje" eða "takk Sinterklaas". Allar gjafir eru frá Sinterklaas, börnin fá ekki gjafir frá afa og ömmu eða frænda og frænku og sjá foreldrarnir um öll gjafakaup. Við fengum þessa fínu klossa frá gamla manninum, ásamt hollenskum bjór, súkkulaðistaf (allir fá sinn upphafsstaf) og tösku sem Marielle saumaði.
Hægt er að sjá myndir frá kvöldinu á síðunni hans Jóns.

Í dag fór ég í bæinn í jólagjafaleiðangur og sá að það er búið að taka allar Sinterklaas skreytingarnar niður og hefðbundnari skreytingar komnar í staðinn. Ég sá meira að segja jólasvein! Sinterklaas er sko ekki jólasveinninn. Það er mjög mikilvægt að rugla þeim ekki saman hér í Hollandi. Mjög mikilvægt.
Þeir sem vilja ítarlegri skýrslu um hollenskar jólahefðir geta fengið greinargerð senda í tölvupósti eða með jólakortinu sínu:)

Wednesday 5 December 2007

næstum Þorláksmessa

Í dag er gjafadagurinn mikli 5. des þegar Sinterklaas gefur öllum gjafir. Í tilefni af því var opið lengur í búðunum í gær (ég geri ráð fyrir að það sé tenging þarna á milli). Ég ákvað því að rölta niður í bæ og átti von á smá Þorláksmessustemmingu, allir á fullu að kaupa gjafir og svona. Neinei það var engin örtröð og það fólk sem ég sá var ekkert með fangið fullt af gjöfum með æðisglampa í augum að ná í búðirnar fyrir lokun.
Í sárabót sá ég Sinterklaas sjálfan og hóp af Pietum. Meira að segja lúðrasveit skipuð Piet-um. Get ekki ímyndað mér að það sé þægilegt að spila með allt þetta svarta meik á sér.

Í gær skrapp ég í búð hér stutt frá til að kaupa jólakort (já ég KEYPTI jólakort) og þá var bara verið að gefa jólapappír. Ég ætlaði að kaupa svoleiðis og var búin að taka tvær rúllur en sá svo að þær voru gefins. Fannst fyrst frekja að taka tvær rúllur en ákvað svo bara að fá báðar. Sé í anda búðir á Íslandi gefa jólapappír á Þorláksmessu. Hollendingarnir eru greinilega svo skipulagðir að þeir eru ekkert að kaupa pappír á síðustu stundu.

Á eftir förum við til Marielle og Wim til að halda upp á Sinterklaas. Allir koma með eina gjöf, allar settar í poka og síðan dregur maður eina gjöf. Gjöfin er sko frá Sinterklaas. Það er ekki nóg að koma með gjöf heldur þarf maður að yrkja eina vísu um þann sem þú gefur gjöf. Við erum bara fjögur svo ég er búin að berja saman tvær rímur um þau hjónakorn. Enda komin af hagmæltu fólki.

Fyrir þá sem eru búnir að föndra jólakortin og bíða í ofvæni eftir að geta sent mér eitt (Kata ég veit að þú ert búin að vera sveitt með glimmertúbuna) þá kemur hér heimilisfangið okkar:

Morsweg 39
2312 AB Leiden
The Netherlands

Sunday 2 December 2007

Brussel

Skellti mér til Brussel um helgina með nokkrum íslenskum hnátum. Mikið talað og mikið hlegið. Við þrömmuðum um bæinn og sáum ýmsar merkilegar byggingar sem ég veit nú lítið um og kíktum að sjálfsögðu á Manneken Piss. Það er vatnsbrunnur, pissandi strákur sem er eitt helsta ferðamannadæmið þarna. Guttinn á víst líka um 200 búninga, t.d. jólasveinabúning og fótboltabúning. Því miður var hann ekki í neinum búningi núna en þegar hann fer í búning pissar hann bjór!

Margt annað var brallað, ekki hægt að nefna allt en:
Belgískur bjór, súkkulaðibúðir, belgískar vöfflur, súkkulaðigosbrunnur, ýtnir þjónar, sturta á topp 5 listanum yfir verstu sturturnar, súkkulaðismakk, ljót blá jólaskreyting, hindberjabjór, súkkulaðikaup, alkóhólistar, perrabjörn, gluhwein, rok og rigning, fabíó, númer átta, bjór í kwak glasi og já ég vil fá meiri ost.
Borðuðum kvöldmat hjá kampavínsgaurnum. Þar fengum við fáranlega þjónustu hjá Skúla fúla sem henti hnífapörunum á borðið, kunni ekki að leggja á borð, fengum engar munnþurrkur, reyndi að stinga hnífi í augað á Rúnu, reynid að vera með "fyndin" trikk við Önnu, nennti lítið við okkur tala, fannst kellingarnar á næsta borði skemmtilegri, gleymdi pöntun, missti hnífapör í gólfið í gríð og erg, slædaði eftir gólfinu, drakk bjór ótæpilega og kyssti Unu. Síðan var hann fúll yfir að fá ekki þjórfé!

Kynfræðsla

Á fimmtudaginn fór hópurinn minn í Rijnlands Lyceum og vorum með kynfræðslu fyrir 14 ára bekk. Okkur var sagt að það yrðu 25 krakkar í tímanum en þegar við mættum voru bara 9 krakkar! Fengum nú enga góða skýringu á þessari fækkun en þau sem voru mætt voru hress. Tíminn gekk ágætlega þrátt fyrir smávægilega tæknilega örðugleika og því furðulega dæmi að hárspennan sprakk utan af hárinu á mér.
Strákarnir þóttust vera með allt á hreinu og með munninn fyrir neðan nefið, held að markmiðið hjá þeim hafi verið að gera okkur vandræðalegar. Sem að sjálfsögðu tókst ekki.
Eftir tímann setti ég persónulegt met í setu á kaffihúsi. Held að ég setji ekki nánari upplýsingar um það hér inn...