Friday 28 September 2007

að hjóla, framhald

Það er svo skemmtilegt hér í Hollandi að það hjóla allir. Þá meina ég fólk á öllum aldri, afar, ömmur, miðaldra bissnesskarlar með skjalatöskur og konur í drögtum og háum hælum.
Fólk reiðir hvort annað líka á öllum aldri, mér finnst skemmtileg tilhugsun að sjá fyrir mér mömmu og systur hennar sitja á bögglaberanum hjá mönnunum sínum!
Hér situr fólk ekki (nema afarlítill minnihluti) klofvega á bögglaberanum heldur á hlið, eins og í söðli.

Þegar Eva kom í síðustu viku þá tók Morgunblaðið með sér í flugvélinni. Þessi moggi er búinn að endast ótrúlega vel. Ég held að ég hafi aldrei lesið sama eintak af dagblaði jafnoft. Enda er ég búin að lesa um ýmislegt sem ég hefði ekki nennt að gera heima, t.d. um fjármálaráðherra Frakklands, fjölbreytileika íslenskra fyrirtækja á Írlandi, innflytjendabókmenntir, lesendabréf og um íslenska fótboltamenn í útlöndum. Stefán Þórðarson er víst að koma heim, ekki vissi ég hver hann var eða að hann væri ekki á Íslandi þessi maður! Það er svo heimilislegt að gera flett mogganum á meðan maður borðar morgun- eða hádegismatinn.

Eva kom líka með harðfisk og smjör. Ég var eiginlega búin að gleyma hvað það væri gott. Ég keypti mjög sjaldan harðfisk heima á Íslandi. Svona fer mann að langa í það sem maður getur ekki fengið!

Ég skilaði enn einu verkefninu í dag. Aldrei friður, ég hef þurft að skila tveimur verkefnum á viku frá því ég byrjaði. Núna er fjórða vika búin og stuttu áfangarnir því hálfnaðir. Eftir rétt rúma viku á ég að kynna verkefnið mitt í einum áfanganum, tala í hálftíma og síðan svara spurningum úr sal í um 15-20 mín. Ég þarf að vera búin að senda gögnin mín og kynninguna mína til spyrjendanna fyrirfram svo þeir geti undirbúið sig. Þetta verður fróðlegt. Ég er fyrst í röðinni og verð því að vera búin með allt fyrst af öllum. Bæði kostur og galli, gott að vera búin en það þýðir að ég verð að vera dugleg um helgina. Kennaranum fannst ég vera búin að finna svo góðar greinar í undirbúningsvinnunni og bað mig um að byrja. Maður segir víst ekki nei við kennarann.

Áðan var ég að leita að grein sem mig vantar fyrir þetta verkefni. Hún er ekki fáanleg á netinu, svo ég fór á bókasafnið. Þá mátti ég ekki fara inn með töskuna mína en ég átti ekki pening til að setja dótið í skápa eins og á að gera. Því fór ég niður í bæ, í hraðbanka, keypti penna sem mig vantaði og aftur í skólann með pening. En þá kom í ljós að tímaritið sem greinin er í er ekki á þessu bókasafni heldur læknanemabókasafninu. Sem betur fer er sú deild stutt frá. Ég hjólaði þangað en þegar ég kom inn í bygginguna þá sá ég að þetta er alvöru sjúkrahús. Allavega ekki bara læknaskóli. Ég rölti um til að leita að bókasafninu. Fann ekkert bókasafn en í staðinn mötuneyti, hárgreiðslustofu, blómabúð, bókabúð og Body Shop. Flott sjúkrahús!

Tuesday 25 September 2007

að hjóla

Hollendingarnir gera allt á hjólinu sínu. Þeir borða, drekka, reykja, tala í símann og halda á regnhlífinni í annrri á meðan þeir hjóla.
Einu sinni sá ég konu hjóla með annan handlegginn í fatla og svo hjóla þeir að sjálfsögðu með bjórinn og matinn heim úr búðinni. Það þykir ekkert tiltökumál að hjóla með nokkur börn á hjólinu, sé oft eitt við stýrið og annað fyrir aftan sætið og sumir eiga spes hjóla með trévagni framan á og hef ég séð mann með þrjú börn og innkaupapoka í slíkum vagni.
Eva sá fólk um helgina flytja dýnu á hjólunum sínum og í dag sá ég stráka ferja innkaupin úr IKEA á hjólinu.

Það er komið haust í Leiden, laufin og hnetuhylkin með göddunum á (veit ekki hvað það heitir) detta af trjánum, það hefur kólnað og rigningin er endalaus. Hlussurigning sem gegnbleytir mann á stuttum tíma. Með haustinu fylgir ný tíska, í dag sá ég nefnilega stelpu í hvítum frystihússtígvélum. Kannski er það eina vitið?

Ingi og Eva fóru heim í gær og enginn lengur til að tala íslensku við nema Jón. Eins gott að við höfum nóg að tala um, ekki hafa áhyggjur af því. Grikkirnir reyna ennþá stundum að tala við mig á grísku, kannski ég fari í grískutíma til að ná öllu slúðrinu.

Eva kom með fullt af dóti svo núna er gestafært (komin vindsæng) og ég get skriðið undir teppið frá mömmu á meðan ég les. Sem er einmitt það sem ég ætla að gera núna!

Saturday 22 September 2007

Takk fyrir batakveðjurnar! held að ekkert hafi borið varanlegan skaða í þessum látum nema greyið hjólið. En það er nú í lagi.
Þið þurfið nú ekki að hafa áhyggjur að ég taki upp hollenska siði þegar kemur að kökum og afmælisboðum. Það yrði nú saga til næsta bæjar (eða lands).

Á fimmtudaginn kom Eva til Leiden og í gær kom Ingi.
Á fimmtudag förum við út að borða með hluta af bekknum mínum og í partý í skólanum. Hinn hlutinn ætlaði að koma en var svo stressaður yfir verkefninu sem við skiluðum í gær að þeir gátu ekki gefið sér tíma til að borða. Greyin. Ég ber mig að sjálfsögðu vel og þykist ekkert stressuð. Vakti bara lengur á miðvikudaginn til að hafa þetta af.

Ein gríska stelpan var mjög hissa að Eva hafi komið alla leið frá Íslandi í heimsókn til mín. Ég vissi ekki hvort ég ætti að vera móðguð en svo komst ég að því að hún hélt að það tæki ægilega langan tíma að komast hingað ALLA leið frá Íslandi. Ísland er jú á hjara veraldar.

Deildinni minni var breytt í skemmtistað á fimmtudaginn. Margt skemmtilegt var í boði, t.d. bítlaband, diskótek, jazzband, póker, karókí, sólstrandarstemming, ódýrir drykkir og ávextir og súkkulaðigosbrunnur! Við (ég, Eva og Jón) skemmtum okkur með tveimur hollenskum stelpum úr bekknum og amerískum vini annarrar þeirra (hinir voru heima að læra). Við hlustuðum á skondnar konur syngja hollenska slagara í karókíinu, dönsuðum við kennara (allir mættu í partý, kennarar, starfsfólk og nemendur) og smökkuðum auðvitað á súkkulaðinu.

Í gær fór ég í hlutverk leiðsögumanns og dró gestina um Leiden en komst að því að ég gat svarað afar fáum spurningum. Held að ég þurfi að bæta úr þessu áður en fleiri mæta á svæðið (nefni engan sérstakan..).

Í morgun fór ég með Evu og Inga á markaðinn og við tókum út fiskinn og sírópsvöfflurnar. Þau tóku svo lestina til Amsterdam, Jón Ingvar er á skátaráðstefnu að kynna íslenskt mót og ég að reyna að gera mitt besta í lærdómnum. Verkefnaskil eftir helgi og engin undanþága þótt maður sé með gesti.

Wednesday 19 September 2007

STÓRSLYS!

Ég lenti í hjólaslysi í gær. Alvöru hjólaslysi meira að segja.
Ég var á leiðinni í skólann, það var smá úði en þegar ég var búin að hjóla nokkra metra bætti hressilega í rigninguna og það var eins og hellt úr fötu. Á leiðinni í skólann þarf ég að fara undir brú og þar var fólk að bíða, hélt greinilega að það myndi stytta upp. Ég ákvað að bíða líka en hugsaði með mér eftir smá stund að ég væri hvort sem er orðin blaut og ákvað því að halda áfram. Í körfunni framan á hjólinu var ég með tösku/poka með bókunum í, bækurnar byrjaðar að blotna svo ég ákvað að reyna að setja plastpoka yfir til að bjarga málunum.
Svo held ég áfram nema þá fýkur plastpokinn af, ég reyni að laga þetta með annarri hendinni en missi stjórn á hjólinu á rennblauta veginum.
(Til að útskýra nánar þá er hjólavegur við hliðina á bílaveginum og vegrið á milli á þessum stað vegna hæðarmismunar, sem sagt hjólavegurinn liggur aðeins ofar en bílavegurinn.)
Ég er nú ekki alveg viss hvað gerðist nákvæmlega en ég flýg yfir vegriðið og niður á bílaveginn með hjólið og allt með mér.
Ég fékk nett panik kast liggjandi þarna í götunni, hélt að ég væri stórslösuð, pottþétt með gat á hausnum og myndi missa af fundinum sem ég var að fara á og tímanum seinna um daginn og hugsaði að ég kynni ekkert að fara til læknis og Jón væri ekki heima og hvað hefði eiginlega gerst ef strætó hefði verið að koma?
Mér tókst þó að skrölta á fætur, reyndi að halda andlitinu (gekk mjög illa), tala við fólkið sem var þarna um að það væri í lagi með mig (fann allavega ekkert blóð og gat labbað) og hjólaði aftur heim þar sem ég var gegnblaut frá toppi til táar. Hjólið mitt rispað, karfan beygluð og fötin skítug og blaut.
Ég rétt hafði tíma til að skipta um föt, reyna að róa sjálfa mig niður og koma mér í skólann til að fara á fund með mentornum mínum, henni Chris.
Þegar ég kom til hennar var ég greinilega ekki búin að ná mér og þegar hún spurði hvernig ég hefði það þá fór ég bara að skæla yfir öllu saman! Laglegur fundur það. En svo spjölluðum við um námið og mín plön um framtíðina og svona. Hún bauðst til að fara með mig til læknis en ég ákvað að þess þyrfti nú ekki.
Þvílíkt drama!

Afleiðingarnar voru hausverkur í allan gærdag, marblettur á löpp, rispa á baki, afar stíf og aum
öxl og myndarleg kúla á haus.

En meira drama, mér var sagt í gær að ein gríska stelpan ætlar að hætta í náminu. Henni finnst þetta svo erfitt og mikið álag. Það er búið að vera mikið af skilaverkefnum og kynningum og henni finnst líka hún ekki geta komið efninu frá sér á ensku eins og hún vill. Hún er hætt að sofa fyrir stressi og ég veit ekki hvað og hvað.
Hún var í viðtölum og e-ð í gær á meðan við vorum í tíma en svo ætluðu nokkrir krakkar að hitta hana og heyra í henni hljóðið. Ég frétti á morgun hvernig þetta mál hefur endað.

Við Jón fórum aftur á móti í afmæli til Wim í gærkvöldi. Hér í Hollandi er ekki verið að troða í mann veitingum, nei, þú færð eina kökusneið. Ég var búin að heyra þetta frá Íslendingum sem búa hér og þetta passaði. Jú svo voru flögur í skál.

Sunday 16 September 2007

helgin

Á föstudaginn fórum við á þjóðhátíð í Delft. Þar hittust um 15 Íslendingar (og 3 Hollendingar), flestir sem búa þar eða eru í skóla þar. Borðuðum og drukkum en þegar liðið byrjaði að syngja Sókrates urðu Hollendingarnir skrýtnir á svipinn og enduðu á því að slökkva á laginu!
Gaman að hitta aðra Íslendinga en væri skemmtilegt að hafa einhverja nær okkur. En aldrei að vita hvort maður hitti þetta lið aftur.

Í gær var sól og blíða svo við röltum niður í bæ á markaðinn. Ég hef ekki séð svona mikið af fólki þar síðan við komum. Lét nægja að kaupa jarðaber og horfa á allt dótið.

Um helgina er síðasta helgin sem er opið í vindmyllunni sem er hér rétt hjá. Við förum upp í hana í gær og í dag var slúttið. Þá kom lúðrasveit að spila og við mættum að sjálfsögðu til að taka hana út. Hún var bara nokkuð góð en vantaði nú svoldið kraft að okkar mati!
Við sáum nú líka lúðrasveit í gær sem var að pakka saman. Það var verið að kynna allskonar félags- og sjálfboðaliðastörf (ef því sem ég best skildi) í bænum og við tókum bækling um sveitina. Sú sveit virðist nú bara kunna marsa og polka. Jón fann aðra á netinu sem okkur líst ágætlega á og bíðum við bara eftir að fá svar við tölvupósti. Kannski megum við vera með!

Næsta fimmtudag ætlar Eva að koma í heimsókn. Á meðan hún verður hjá okkur verður akkúrat mánuður síðan við komum! Það kallar á hátíðarhöld:)
Ég ætla að nýta mér ferðina og fá smá dót úr geymslunni minni. Verst að ég pakkaði öllu svo vel niður, annars hefði verið fínt að fá rifjárn, ausu, desilítramál og önnur smáleg eldhúsáhöld.
Ég ætlaði að vera rosalega dugleg að læra um helgina til að vinna í haginn áður en Eva kemur en það hefur e-ð farið ofan garð og neðan. Ojæja...

Friday 14 September 2007

Er það nú!

Í nótt geymdi ég hjólið mitt fyrir framan húsið en ekki í einka garðportinu okkar eins og venjulega. Þegar ég fór út í morgun var hjólið mitt á sínum stað, var svoldið stressuð um að því yrði stolið, og þá hafði einhver sett tóma bjórdós í körfuna mína! Eins og karfan mín sé einhver ruslakarfa!

Í síðustu búðarferð var tilboð á bjór sem þótti nauðsynlegt að skella sér á. Þegar matnum og bjórnum var púslað í bakpoka og á hjólin kom í ljós að það var svo lint í afturdekkinu hans Jóns að hann gat ekki haft bjórkassann á sínu hjóli. Þá voru góð ráð dýr, átti hann að leiða hjólið heim með kassann á bögglaberanum eða átti ég að reyna að koma kassanum í heilu lagi heim? Einn liður í að samlagast hollensku samfélagi er að geta hjólað heim með bjórinn á bögglaberanum svo ég hefði ekkert val. Ég varð að koma kassanum heim. Til viðmiðunar þá hjólaði Jón með hálfan kassa heim í síðustu bjórkaupum.

Fyrstu metrarnir voru ansi skrykkjóttir og varð ég einu sinni að svína á tvo stráka til að missa ekki jafnvægið. Þeim fannst ég greinilega mjög fyndin og kölluðu e-ð til mín og hlógu ægilega. Mikið vildi ég að ég hefði skilið þá.
En með gríðarlegri einbeitingu komst ég í gegnum þessa þolraun! Um helgina verð ég að smakka á þessum bjór sem kostaði bjór, svita og tár (og minna en þúsund kall).


Í búðinni var líka vikutilboð á kíví. Í okkar súpermarkaði er ekki hægt að velja sér það magn af ávöxtum sem maður vill, maður verður að kaupa eitt kíló í einu. Ef maður vill minna magn í einu þarf maður að fara í fínni búðir til þess. Þess vegna hefur ávaxtaát aukist eftir að ég flutti út, þótt ég kaupi bara eina tegund í einu. Ég þarf að klára kassann áður en allt skemmist og hef því borðað fleiri kíví í vikunni en allavega síðasta hálfa árið til samans.

Það er greinilegt að fólk breytist ekkert mjög mikið við að flytja til annarra landa. Matur er enn mjög mikilvægur hjá mér og Jón er ekki hættur að kaupa bjór.


P.S. ef einhver er í vandræðum með að kommenta þá er auðveldast að haka í "other" hægra megin í glugganum á þá er hægt að skrifa nafnið sitt þar.

P.P.S. ég á mynd af mér með kassann á bögglaberanum en tókst ekki að setja hana hér inn, það bíður betri tíma. Nágrannarnir halda líklega að við séum skrýtin að taka myndir af okkur að koma heim úr búðinni.

Sunday 9 September 2007

Ég er hýr og ég er rjóð

Jón er kominn heim! er lagið ekki einhvern veginn svona?
Hann komst klakklaust heim, flaug frá Þýskalandi til Hollands. Það er nú eiginlega bara innanlandsflug:)

Ég er búin að sitja yfir bókunum og reyna að berja saman smá verkefni. Mikið fjör að lesa um af hverju fólk notar ekki smokk. Endalaust hægt að lesa um það skal ég segja ykkur.

Í kvöld var réttur hússins: hakk og spaghettí. Um daginn var tilboð á hakki í búðinni og hagsýna húsmóðirin keypti að sjálfsögðu nokkra bakka og skellti í frost. Svo sullar maður þessu saman við pastasósu úr krukku og volá, fínasta bolognese! En það má fara að íhuga að gera aðra rétti úr hakkinu;)
Hér í útlöndum er líka kvöldmatarumgjörðin flottari en heima á Íslandi. Það er lagt á borð með diskamottum, kveikt á kertum og dinnermúsík. Og vaskað strax upp eftir matinn...

Saturday 8 September 2007

Ein heima

Um helgina er ég ein heim hér í Leiden. Jón fór á skátafund í Þýskalandi svo ég þarf að passa lyklana mína extra vel. Mér hefur nú ekki enn tekist að gleyma þeim neins staðar eins og heima. Stundum skildi ég bara lyklana eftir í skránni í Furugrundinni, það gengur nú ekki hér. Í gær tékkaði ég sérstaklega hvort ég hefði ekki örugglega læst öllum hurðum áður en ég fór að sofa.

Mér leiðist nú ekki þótt ég sé heima. Ég er að reyna að lesa það sem ég ætti að klára í síðustu viku og svo þarf ég að skila verkefni á þriðjudaginn. Það er hópverkefni en ég er núna að vinna að minni spurningu hér heima.
Ég hitti grísku hópfélagana mína í morgun og við skiptum með okkur verkum. Eftir að hafa fengið tölvupóst frá kennaranum sáum við að þetta er stærra verkefni en við héldum eða 5-10 bls. Hvað er málið að þurfa að skila verkefni strax í öðrum tíma?

Grísku stelpurnar er fínar og spyrja um ýmislegt tengt Íslandi. Ein er til dæmis alveg hneyksluð að við skulum synda í útisundlaugum á veturna. Alveg sama þótt vatnið sé heitt, þessi hitamismunur hlýtur að vera hættulegur!
Svo er vodkadrykkurinn Ursus mikið auglýstur í Grikklandi sem "the surprise from Iceland", auglýsingin sýnir fólk dansa og snjóinn fyrir utan. Ég kom nú alveg að fjöllum og hef aldrei séð þennan rauða drykk, það fannst þeim drepfyndið. Hafið þið heyrt um þennan drykk?

Grikkirnir í bekknum er líka alveg að ná nafninu mínu en ein vill endilega kalla mig Al eða Alf. Mér líst nú allavega ekki á Alf, man bara eftir loðinni geimveru í sjónvarpsþætti fyrir löngu sem hét Alf. Best að vera ekkert að tengja sig við svoleiðis...

Í lokin samtal við strák frá Suður-Kóreu:
Hann: what's your name?
Ég: Álfheiður
H: what?
É: Álfheiður
H: ó
H: and where are you from?
É: Iceland
H: Ireland?
É: no, Iceland
H: where is that?
É: it's a small island in the north Atlantic, not far from Greenland
H: ó

Greyið...ég gæti alveg eins hafa sagst heita Maraparasúkulátilí og vera frá Norðurpólnum.

Tuesday 4 September 2007

Brjálað að gera

Núna er allt komin á full swing í skólanum. Kannski fullmikið swing...

Í dag var í fyrirlestur 9-11, annar 11-13, workgroup 13:30-16 svo velcome drink frá 17-19! Fyrst átti meira segja workgroup frá 13-17 en sem betur fer fengum við hálftímapásu í hádeginu og svo stóð vitlaust á netinu að tíminn ætii að vera til fimm.

Í morgun fór ég í Health Promotion and Disease Prevention. Það var skemmtilegur tími en það tekur virkilega á að meðtaka allt á ensku. Maður þarf ennþá meiri athygli en venjulega sem getur verið erfitt 45 mín í einu. Í þeim áfanga eigum við t.d. að búa til okkar eigið fræðsluprógramm sem við förum með inn í skóla. Ég og nokkrar grískar stelpur munum fræða unglinga um öruggt kynlíf (safe sex). Spennandi að gera verkefni sem er notað í alvörunni en ekki bara á blaði sem endar í skúffu hjá einhverjum prófessor.

Síðan fór ég í Basic theraputic skills sem á að kenna manna að vera þerapisti, þ.e. hlusta og humma á réttum stöðum. Nei segi svona. En fyrirlesturinn var mjög klínískt miðaður, sem sagt beint að þeim sem eru í klínískri sálfræði. Sumt sem prófessorinn sagði er nú ekki í samræmi við það sem ég lærði í HÍ en best að fara ekki nánar út í það hér. Nema einhverjir með gríðarlegan áhuga gefi sig fram;)

Eftir hádegi fór í í Basic theraputic skills workgroup. Eins og í öðrum workgroup-um sem ég er í samanstendur hópurinn nokkurn veginn af mér og hópi af Grikkjum. Gaman að því. Í þessum hópi er að vísu líka tveir Hollendingar og ein stelpa frá Brasilíu. Í þessum hópi verður mikið af roleplay og æfingar í að vera sjúklingur og þerapisti. Svo á ég að skrifa dagbók um hvernig ég þróast sem þerapisti og um hvernig gengur í hópnum og stöðu mína í hópnum. Ægilega mikið reflectað. Ekki alveg minn tebolli en maður verður að vera jákvæður og sjá hvernig þetta fer:)

Í velkomin-drykknum hittust nokkrir kennarar og nemendur og spjölluðu. Það var fínt, aðallega erlendir stúdentar sem mættu (sem ég hef hitt áður) og ég hef hitt tvo af fjórum kennurunum. En gott að hitta fólk og þekkja það aðeins betur.

Í gær var upplýsingafundur og stöðupróf í tölfræði.

Það var ekki skylda fyrir mig að mæta í prófið af því það var ekki krafa um að ég tæki undirbúningsnámskeiðið. Okkur var samt ráðlagt að fara til að sjá hvar við stöndum svo ég mætti. Ég er nú ekki búin að fá niðurstöðurnar en Chris, kennari sem ég hitti áðan, sagði að hún hefði fengið þær og að ég hafi fengið 7 eða 7,5 og væri meðal þeirra efstu. Gott hjá mér:)

En prófið var nú ekki erfitt og sumt sem ég hefði átt að geta. Chris sagði að prófið hefði verið einfalt og það væri krafist mun meira af okkur.

Það er svoldið langt síðan ég var síðast í tölfræðiáfanga svo ég er að pæla hvort ég ætti að fara í áfangann. Mér veitir ekki af upprifjuninni en þetta er aukaáfangi sem er tvö kvöld í viku alla önnina. Ég hef svo sem nóg annað að gera en alltaf gott að vera með hlutina á hreinu. Hvað ætti ég að gera?


Það var líka rosaspenna í götunni okkar í gær. Þegar ég fór út kl. 15 var undercover löggan mætt að spjalla við dópistana. Þegar ég kom heim rúmlega 16:30 voru meira af fólki mætt og slökkviliðið líka. Þeir voru nú samt bara á fólksbíl svo ég giska á að þetta hafi verið brunavarnareftirlitið. Svo fór ég í prófið, ennþá fólk á svæðinu og þegar ég kom heim milli sjö og átta var búið að negla fyrir hurðina og löggan að láta nágrannana vita. Þeir sögðu víst Jóni að þeir væru að losa okkur við "óæskilega nágranna".

Ætli lögguhasarinn sé ekki búin í bili...

Á morgun er planið að fara á pósthúsið og sækja það sem ég er að vona að sé bankakortið mitt. Síðan þarf ég að fara og kaupa bækur í skólanum. Þar er ekki hægt að borga með reiðufé, þess vegna er ég ekki búin að redda mér bókum, ekki bara skussaskapur!

Sunday 2 September 2007

Löggan mætt á svæðið

Já tveir löggubílar og mótorhjól takk fyrir.
Við sátum hér í rólegheitum og heyrðum einhver læti og sáum svo gaur koma hlaupandi eftir þakinu á bakvið (fyrir ofan garðportið okkar) og fyrir framan sáum við löggurnar.
Vitum svo sem ekki mikið hvað er um að vera en Jón varð var við einhver læti í nótt hér við hliðina. Kannski var viagra gaurinn með partý.
Núna er löggan búin að vera hér í meira en hálftíma og ég bara vona að liðið í subbulegu íbúðinni verði hreinsað út eða hafi hægt um sig. Ekki að það hafi verið neitt að bögga okkar neitt. Svona fyrir utan viagra söluna.

Á fimmtudag og föstudag voru introduction days. Þá fór ég á kynningu hjá deildinni minni, fyrirlestur um hollenska menningu, bæjarrölt, bátsferð, á safn og á pöbbarölt.
Það var rosalega margir erlendir stúdentar og alltaf verið að skipta í hópa fyrsta daginn og þar af leiðandi var maður alltaf að hitta nýtt fólk. Hitti þó nokkra skemmtilega krakka en bara eina stelpu sem er með mér í sálfræðinni.

Asíukrakkarnir eru mjög áhugasamir um Ísland og spyrja um flóknari hluti en ég get svarað. T.d. um muninn á Evrópusambandinu og EES, af hverju göngum við ekki í Evrópusambandið, af hverju er allt svona dýrt á Íslandi? Hvernig á ég að vita það?

Það var mjög gaman að hitta strák frá Nýfundnalandi eða Newfinnland eins og hann sagði. Greinilega margt svipað þar og á Íslandi. Svo var R.J. frá Kanada í hokkýpeysu og ég að sjálfsögðu þekkti CCM (eða CMM?) og gat byrjað að spjalla um hokký. En ég veit svo sem ekkert um hokký en eins og alltaf þegar ég þarf að tala um íþróttir þá vitnaði ég bara í Steinunni villt og galið (takk Steinunn).

Í gær fórum við á markaðinn og keyptum jarðaber og hindber mmm. Þar er líka hægt að kaupa kjöt og fisk, osta, grænmeti, blóm og efni. Mjög skemmtilegt að rölta þar.

Síðan fórum við og hittum Marielle, Wim og börn (hollenskir skátar sem tóku á móti okkur fyrsta daginn) og sigldum með þeim og bátnum þeirra og svo buðu þau okkur í kvöldmat.
Á bátnum bakaði Marielle pönnukökur handa okkur. Þær voru mun þykkari og feitari (steikt upp úr meiri olíu) en þær íslensku. Ofan á fengum við síróp.
Krakkarnir þeirra, Liselle og Jacco, gefast ekkert upp á að tala við okkur á hollensku. Bara spjalla og spyrja um hitt og þetta. Svo reyndi Liselle að kenna okkur að telja upp á 10. Henni fannst við ekkert sérstaklega sleip í hollenskunni.

Í gærkvöld var svo þvottavélin prófuð í fyrsta skipti. Allt fór vel en það tekur tímana tvo (eða frekar 24) fyrir þvottin að þorna hér. Fyndið að í manualnum með vélinn er tekið fram hvað það fer mikil orka og vatn í hvert þvottkerfi. Enda Hollendinar sparsamir og spá í svona hluti.