Friday 28 September 2007

að hjóla, framhald

Það er svo skemmtilegt hér í Hollandi að það hjóla allir. Þá meina ég fólk á öllum aldri, afar, ömmur, miðaldra bissnesskarlar með skjalatöskur og konur í drögtum og háum hælum.
Fólk reiðir hvort annað líka á öllum aldri, mér finnst skemmtileg tilhugsun að sjá fyrir mér mömmu og systur hennar sitja á bögglaberanum hjá mönnunum sínum!
Hér situr fólk ekki (nema afarlítill minnihluti) klofvega á bögglaberanum heldur á hlið, eins og í söðli.

Þegar Eva kom í síðustu viku þá tók Morgunblaðið með sér í flugvélinni. Þessi moggi er búinn að endast ótrúlega vel. Ég held að ég hafi aldrei lesið sama eintak af dagblaði jafnoft. Enda er ég búin að lesa um ýmislegt sem ég hefði ekki nennt að gera heima, t.d. um fjármálaráðherra Frakklands, fjölbreytileika íslenskra fyrirtækja á Írlandi, innflytjendabókmenntir, lesendabréf og um íslenska fótboltamenn í útlöndum. Stefán Þórðarson er víst að koma heim, ekki vissi ég hver hann var eða að hann væri ekki á Íslandi þessi maður! Það er svo heimilislegt að gera flett mogganum á meðan maður borðar morgun- eða hádegismatinn.

Eva kom líka með harðfisk og smjör. Ég var eiginlega búin að gleyma hvað það væri gott. Ég keypti mjög sjaldan harðfisk heima á Íslandi. Svona fer mann að langa í það sem maður getur ekki fengið!

Ég skilaði enn einu verkefninu í dag. Aldrei friður, ég hef þurft að skila tveimur verkefnum á viku frá því ég byrjaði. Núna er fjórða vika búin og stuttu áfangarnir því hálfnaðir. Eftir rétt rúma viku á ég að kynna verkefnið mitt í einum áfanganum, tala í hálftíma og síðan svara spurningum úr sal í um 15-20 mín. Ég þarf að vera búin að senda gögnin mín og kynninguna mína til spyrjendanna fyrirfram svo þeir geti undirbúið sig. Þetta verður fróðlegt. Ég er fyrst í röðinni og verð því að vera búin með allt fyrst af öllum. Bæði kostur og galli, gott að vera búin en það þýðir að ég verð að vera dugleg um helgina. Kennaranum fannst ég vera búin að finna svo góðar greinar í undirbúningsvinnunni og bað mig um að byrja. Maður segir víst ekki nei við kennarann.

Áðan var ég að leita að grein sem mig vantar fyrir þetta verkefni. Hún er ekki fáanleg á netinu, svo ég fór á bókasafnið. Þá mátti ég ekki fara inn með töskuna mína en ég átti ekki pening til að setja dótið í skápa eins og á að gera. Því fór ég niður í bæ, í hraðbanka, keypti penna sem mig vantaði og aftur í skólann með pening. En þá kom í ljós að tímaritið sem greinin er í er ekki á þessu bókasafni heldur læknanemabókasafninu. Sem betur fer er sú deild stutt frá. Ég hjólaði þangað en þegar ég kom inn í bygginguna þá sá ég að þetta er alvöru sjúkrahús. Allavega ekki bara læknaskóli. Ég rölti um til að leita að bókasafninu. Fann ekkert bókasafn en í staðinn mötuneyti, hárgreiðslustofu, blómabúð, bókabúð og Body Shop. Flott sjúkrahús!

2 comments:

Anonymous said...

Sæl
Við erum komin í hús til Sissa og Agnesar,búið að tæma og þrífa Vestursíðuna. Sofum hér í nótt, sjáum svo til á morgun hvar við verðum.
Mamma

Anonymous said...

Hahahaaa já þetta með enga bakpoka finnst mér líka bara fyndið! Samt núna þó hægt að fá skáp þar sem maður borgar í fyrra fór fólk alltaf með lykilinn heim með sér og engir skápar lausir og jú SAMT BANNAÐ að fara með bakpoka inn! Og hvað gera bændur á? Heim að læra?

heheheeee Holland Rocks!