Monday 28 July 2008

...

Móskítóflugurnar halda áfram að japla á mér en með ofnæmistöflur í annarri og krem í hinni þá tekst mér að halda bitunum ágætlega niðri. Klæjar samt alveg nóg.
Keypti svo í dag moskítófælu sem maður stingur í samband og á að gefa frá sér hátíðnihljóð sem heldur flugunum í burtu. Eleni sagði að það virkaði og nú er bara að bíða og sjá.

Um helgina var kaffihúsaseta að hætti Grikkja rifjuð upp. Klukkutímarnir voru fleiri en hægt er að telja á fingrum annarrar handar og kvöldmaturinn ekki borður heima. Ágætt að vita að hæfileikinn til að sitja á rassinum og tala lengi lengi hefur ekkert minnkað. Ég hafði nú heldur engar sérstakar áhyggjur af því...

Í gær fórum við (ég, Eleni og Dorita) á Mama Mia í bíó. Fyrst ég gat ekki farið með sama hópnum og ég fór með á söngleikinn í London þá var það bara það næst besta - að fara með Grikkjum. Svona fyrst að sögusviðið er grísk eyja. Þær voru ánægðar með myndina enda ýmislegt týpískt grískt í myndinni, eins og t.d. gamla konan með viðinn á herðunum sem kastaði honum frá sér til að dansa með hópnum. Svona eru víst gamlar konur á grískum eyjum. Ekki dansandi kannski en klæðnaðurinn passaði.
Það er alltaf gaman að fara í bíó hér, salurinn minnir meira á leikhús heldur en bíó, ekkert high tech surround dolby sound system dæmi og engar auglýsingar. Myndin byrjar bara akkúrat, ekkert í gangi á skjánum á undan.
Í þessu bíó er ekki hægt að fá popp, í staðinn getur maður fengið sér flögur með gosinu. Eða bara fengið sér bjór eða rauðvín.

Veðrið er, tja, fer eftir því hvernig litið er á málið. Það er vel heitt og rakt sem þýðir að hjólreiðar enda með mun meiri svita en venjulega. Þar sem ég hjóla líka mun meira en venjulega núna eftir að ég flutti þá endar þetta með allsherjar svitabaði. Alveg dásamlegt.
Heitt og rakt veður þýðir líka að það er leiðinda molla á svefnloftinu svo ég endist ekki svo lengi þar á morgnana. Hvort það sé gott eða vont er stóra spurningin...

Tuesday 22 July 2008

Nýtt lúkk

Vaknaði í gærmorgun með nokkur bit í andlitinu. Ekkert nýtt við það, ég er með svo gott blóð - tók ofnæmistöflu og hugsaði ekki meir um það.

En í morgun vaknaði ég svona sæt

Þótt ég hafi nú litið mun verr út eftir ofnæmisviðbrögð vegna dularfullra skordýrabita (fílamaðurinn í Danmörku '98) þá var hálfóþægilegt að geta ekki opnað augað almennilega. Ég ákvað því að fá tíma hjá lækni.
Eftir nokkur símtöl fékk ég tíma, meira segja samdægurs! Réttara sagt hringdi bara þangað til ég fann tíma samdægurs.

Eftir að hafa útskýrt -dóttir/-son kerfið hafði læknirinn áhuga á að vita hvort Íslendingar væru hamingjusamasta þjóð í heimi. Eftir að hafa rætt málið ítarlega úrskurðaði hann að ég væri líklegast með ofnæmi fyrir moskítóbiti og gaf mér lyfseðil fyrir ofnæmistöflum og kremi. Að lokum varð hann að sjálfsögðu að fá að pota aðeins í kúluna góðu á enninu og velta fyrir sér hvað þetta væri nú eiginlega. Virðist mjög skemmtilegt meðal lækna.

Sunday 20 July 2008

Nýja íbúðin

Best að verða við óskum um myndir af nýju íbúðinni. Þessar myndir voru teknar þegar ég fór að skoða íbúðina- núna er allt fullt af drasli því daman skildi allt dótið sitt eftir og það er ekkert geymslupláss hér. Ferðatöskurnar og allt dótaríið sem var í geymslunni á Morsweg verður bara geymt upp við vegg. Bækur, möppur, eldhúsdót og bara allt dótið sem komst inni í skáp eða í hillu verður bara geymt í kössunum eða dreift smekklega um. Mjög lekkert.

Hér eru nokkrar myndir:


úr stofunni


baðherbergið (gul klósettseta!)


eldhúsið, stiginn upp á svefnloftið og svo sést aðeins í köttinn Tómas



séð niður af svefnloftinu

Eins og sést er sú sem býr hér afar litaglöð - bleikt, gult, rautt, grænt. Hér er heldur ekkert verið með neitt pjatt eða verið að endurnýja það sem mögulegt er hægt að tjasla upp á. Bæði kraninn í eldhúsinu, glugginn á baðinu og ryksugan eru vel teipuð saman, smá lekur úr vatnskassanum á klósettinu og í sturtunni vantar plastdótið á heitavatnskrananum. En þetta virkar allt svo sem og greinilega óþarfi að vera e-ð að kosta einhverju til við viðgerðir.

Saturday 19 July 2008

Flutt

Jæja það hafðist, komin í sveitina í Leiderdorp.

Þessi íbúð hefur nú enga kosti framyfir Morsweg svona fyrir utan það að hér ekki eins rosalegur raki innandyra og staðsetningin býður upp á gríðarlega hjólanotkun. Gaman að því.

Kötturinn Tómas lyktaði tortrygginn af öllu draslinu sem var hrúgað á gólfið og fór svo bara út. Í gærkvöldi klappaði ég honum voða mikið og hann malaði eins og hann fengi borgaði fyrir það. Hálftíma seinna sendi ég hann svo fram á gang til að sofa í kassanum sínum. Hann er sko vanur að fá að sofa í rúminu með eigandanum. Já nei takk. Ekki nema von að greyið sé ringlað í dag og haldi sig bara frammi á gangi.

Veðrið er búið að vera frekar skítt í dag, rigning með enn meiri rigningu á milli. Til dæmis einmitt þegar ég var á leiðinni heim úr búðinni áðan kom þessi hrikalega demba. Alltaf hressandi að verða gegnblaut og þurfa að byrja á því að skipta um öll föt þegar maður kemst í hús.

Thursday 17 July 2008

Síðasti dagurinn

Dagurinn í dagur er síðasti dagurinn hér á Morsweg 39.

Búin að pakka á fullu og byrjuð að þrífa, geri varla mikið annað. Á morgun hitti ég svo leigusalann okkar og skila af mér íbúðinni.
Á morgun flyt ég því sem næst út í sveit. Ekkert bakarí á horninu, engin lestarstöð rétt hjá, enginn banki, súpermarkaður, veitingastaðir já eða bara heill miðbær í göngufjarlægð. Ekkert fólk sem ég þekki nálægt.
Á morgun tek ég líka við kettinum Tómas. Mér finnst það mjög undarleg tilhugsun - vona bara að hann verði ekki með mikið vesen eða taki upp neinu til að gera mér lífið erfitt. Svona lengi sem hann heldur sér frá rúminu þá verð ég þokkalega sátt. Leyfi mér samt að stórefast um að ég verði hugfangin af köttum eftir þessa sambúð.

Þetta er búið að gerast mjög hratt, ákveðið að fara fyrr úr íbúðinni á mánudag og flyt á föstudag. Hraðar en ég hefði kosið en ágætt að rumpa þessu af og svo gerir maður ýmislegt fyrir peninga, nú á síðustu og verstu tímum.

Best að halda áfram að þrífa og njóta íbúðarinnar síðasta daginn.

Tuesday 8 July 2008

Komin heim - aftur

Eftir helgarstopp í Þýskalandi er ég komin heim til Leiden.

Eftir hið ljúfa líf á Íslandi, afmæli, ættarmót og aðra hittinga með tilheyrandi áti skellti ég mér í enskt-þýskt brúðkaup í kastalanum í Rieneck.

Reyndar var þetta meira en eitt stykki brúðkaup, dagskráin byrjaði á fimmtudagseftimiðdegi og endaði á sunnudeginum og það var sko nóg um að vera. Ég var hluti af WOT (Wedding Organization Team), ó já þetta er ekki grín heldur brjáluð þýsk skipulagning, fékk barmmerki með titlinum "usherette", þjónaði ýmsum hlutverkum og þurfti að mæta reglulega á fundi til að fara yfir stöðu mála. Ég t.d. afgreiddi á barnum, hjálpaði til að skreyta salinn, sá um að koma kexi á varðeldinn og stjórnaði umferðinni til og frá kastalunum á brúðkaupsdeginum. Allt gekk smurt fyrir sig og stanslaust stuð, á dagskránni var á meðal annars grill, söngur, gönguferðir, leikir og varðeldur.

Á laugardeginum var sjálft brúðkaupið. Athöfnin var lengri en þær sem ég hef verið við á Íslandi og meira talað um Guð og Jesú. Mér fannst nú skrýtnast að brúðhjónin sátu með bakið í gestina, kannski til að vera með athyglina alveg á prestinum?
Eftir mat, ræður og skemmtiatriði var svo dansað fram á nótt. Reyndar næsta dag því þegar við fórum að sofa klukkan fimm var ennþá góður slatti á dansgólfinu þar á meðal brúðhjónin. Slökkt var á tónlistinni klukkan sjö um morgun og þá voru brúðhjónin ennþá á svæðinu!

Jón er farin til Íslands að vinna fyrir salti í grautinn (já eða öllum brúðkaupsferðunum) og er ég því ein í kotinu. Nóg af lærdómi og íbúðarstússi svo þessi á eftir að líða hratt rétt eins síðustu mánuðir. Hvert fer allur þessi tími?