Tuesday 8 July 2008

Komin heim - aftur

Eftir helgarstopp í Þýskalandi er ég komin heim til Leiden.

Eftir hið ljúfa líf á Íslandi, afmæli, ættarmót og aðra hittinga með tilheyrandi áti skellti ég mér í enskt-þýskt brúðkaup í kastalanum í Rieneck.

Reyndar var þetta meira en eitt stykki brúðkaup, dagskráin byrjaði á fimmtudagseftimiðdegi og endaði á sunnudeginum og það var sko nóg um að vera. Ég var hluti af WOT (Wedding Organization Team), ó já þetta er ekki grín heldur brjáluð þýsk skipulagning, fékk barmmerki með titlinum "usherette", þjónaði ýmsum hlutverkum og þurfti að mæta reglulega á fundi til að fara yfir stöðu mála. Ég t.d. afgreiddi á barnum, hjálpaði til að skreyta salinn, sá um að koma kexi á varðeldinn og stjórnaði umferðinni til og frá kastalunum á brúðkaupsdeginum. Allt gekk smurt fyrir sig og stanslaust stuð, á dagskránni var á meðal annars grill, söngur, gönguferðir, leikir og varðeldur.

Á laugardeginum var sjálft brúðkaupið. Athöfnin var lengri en þær sem ég hef verið við á Íslandi og meira talað um Guð og Jesú. Mér fannst nú skrýtnast að brúðhjónin sátu með bakið í gestina, kannski til að vera með athyglina alveg á prestinum?
Eftir mat, ræður og skemmtiatriði var svo dansað fram á nótt. Reyndar næsta dag því þegar við fórum að sofa klukkan fimm var ennþá góður slatti á dansgólfinu þar á meðal brúðhjónin. Slökkt var á tónlistinni klukkan sjö um morgun og þá voru brúðhjónin ennþá á svæðinu!

Jón er farin til Íslands að vinna fyrir salti í grautinn (já eða öllum brúðkaupsferðunum) og er ég því ein í kotinu. Nóg af lærdómi og íbúðarstússi svo þessi á eftir að líða hratt rétt eins síðustu mánuðir. Hvert fer allur þessi tími?

1 comment:

Una said...

ertu að leita að apóteki í kanada? get líka bent þér á eitt alveg frábært apótek í vancouver sem ég notaði mikið þegar ég fór á ananaskúrinn. djók.

en já, hangikjöt segirðu, ekki beint sumarmáltíðin sem ég hafði í huga, en veistu, ég myndi ekki slá hendi á móti einni vænni hangikjetssneið. verðum í sambandi. er heima um helgina ef þú vilt kíkja í kaffi.