Monday 28 July 2008

...

Móskítóflugurnar halda áfram að japla á mér en með ofnæmistöflur í annarri og krem í hinni þá tekst mér að halda bitunum ágætlega niðri. Klæjar samt alveg nóg.
Keypti svo í dag moskítófælu sem maður stingur í samband og á að gefa frá sér hátíðnihljóð sem heldur flugunum í burtu. Eleni sagði að það virkaði og nú er bara að bíða og sjá.

Um helgina var kaffihúsaseta að hætti Grikkja rifjuð upp. Klukkutímarnir voru fleiri en hægt er að telja á fingrum annarrar handar og kvöldmaturinn ekki borður heima. Ágætt að vita að hæfileikinn til að sitja á rassinum og tala lengi lengi hefur ekkert minnkað. Ég hafði nú heldur engar sérstakar áhyggjur af því...

Í gær fórum við (ég, Eleni og Dorita) á Mama Mia í bíó. Fyrst ég gat ekki farið með sama hópnum og ég fór með á söngleikinn í London þá var það bara það næst besta - að fara með Grikkjum. Svona fyrst að sögusviðið er grísk eyja. Þær voru ánægðar með myndina enda ýmislegt týpískt grískt í myndinni, eins og t.d. gamla konan með viðinn á herðunum sem kastaði honum frá sér til að dansa með hópnum. Svona eru víst gamlar konur á grískum eyjum. Ekki dansandi kannski en klæðnaðurinn passaði.
Það er alltaf gaman að fara í bíó hér, salurinn minnir meira á leikhús heldur en bíó, ekkert high tech surround dolby sound system dæmi og engar auglýsingar. Myndin byrjar bara akkúrat, ekkert í gangi á skjánum á undan.
Í þessu bíó er ekki hægt að fá popp, í staðinn getur maður fengið sér flögur með gosinu. Eða bara fengið sér bjór eða rauðvín.

Veðrið er, tja, fer eftir því hvernig litið er á málið. Það er vel heitt og rakt sem þýðir að hjólreiðar enda með mun meiri svita en venjulega. Þar sem ég hjóla líka mun meira en venjulega núna eftir að ég flutti þá endar þetta með allsherjar svitabaði. Alveg dásamlegt.
Heitt og rakt veður þýðir líka að það er leiðinda molla á svefnloftinu svo ég endist ekki svo lengi þar á morgnana. Hvort það sé gott eða vont er stóra spurningin...

3 comments:

Anonymous said...

mér finnst molla ekkert spes, sérstaklega ekki þegar maður þarf að hreyfa sig eitthvað umfram "beer-lifting"

Álfheiður said...

Já Inga hér er einmitt nóg af "facilities" til að stunda "various sports, e.g. beer- lifting" eins í interrailinu :)

Eva said...

"...and there is a big tent in front of the screen that goes up before the movie starts."

Ein besta setning sem ég hef heyrt - svo ég tali nú ekki um undrunarsvipinn á þeim sem voru að hlusta :)