Wednesday 10 December 2008

Seinni hluti

get víst ekki gert æsispenntum lesendum það að draga lok sögunnar lengur...

- vaknaði rúmlega sex á fimmtudagsmorgun og skundaði út á Schipol. Eftir fjögurra klukkutíma ferðalag með flugvél, rútu og lest kom ég til Bangor í Wales. Eftir smá labb um bæinn fann ég gististaðinn. Í þessum blessaða bæ eru sko brekkur! smá viðbrigði eftir flata Holland.

- eftir check-in þá ákvað ég að skoða bæinn betur. Ansi lítill bær, 13 þús íbúar + 10 þús stúdentar frá öllum heiminum, það leyndi sér ekki. Mikið af ungu fólki allstaðar á röltinu - gisti að vísu nálægt háskólanum - og auglýsingum um húsnæði fyrir stúdenta.
Á leiðinni út á hina frægu bryggju bæjarins kom þetta rosalega haglél og síðan hellidemba. Ég var akkúrat á einhverri íbúagötu og því engin búð eða pöbb til að leita skjóls í. Skemmtilegt þegar maður er í pilsi og opnum skóm! Með bleytuna lekandi úr hárinu og gegnblauta skó sem skvampaði í þegar ég labbaði endaði ég í Mark&Spencer, keypti smátterí í kvöldmatinn og hrökklaðist upp á hótel.

- Gleymdi að sjálfsögðu að setja skóna á ofninn og byrjaði daginn því á að eyða góðum tíma að þurrka skóna með hárþurrka - mikið fjör.
Mætti svo hálftíma of snemma í viðtalið (svona just in case ég myndi villast) sem var svo hálftíma of seint! Gerði mitt besta að sýna snilli mína í viðtalinu sem var tvíþætt. Fyrst tala við aðalfólkið og svo við hinar þrjár konurnar sem vinna við prógrammið. Allir voða kammó og spurðu um allt milli himins og jarðar, t.d. hvort ég hefði persónulega áhuga á mat. U já og byrjaði svo að lýsa sterkum fjölskylduhefðum en komst aðeins á hálan ís þegar ég fór að lýsa haustslátrun og sláturgerð - kannski ekki alveg mín sterka hlið að lýsa þessu á ensku án þess að hljóma of brútal.

- Konurnar þrjár sögðu að ég yrði bara að kíkja út á bryggju svo ég þorði ekki annað en að hlýða og skundaði af stað. Sá sko ekki eftir því, dásamlegt að fá smá rok á sig og horfa út á sjóinn og á fjöllin. Almennilegt landslag loksins. Kvöldið áður eftir haglélsárásina og hundbleytuna fannst mér þetta alveg glataður bær en þarna hlóðust inn stigin.

- Strunsaði til baka til að ná lestinni - rétt missti auðvitað af henni. Komst nú samt til Liverpool eftir lestarskipti í Chester en þá var flugrútan alltof sein og föstudags-seinniparts-umferðin alveg í hámarki og því allt of sein miðað við áætlun á völlinn. Flýtti mér í gegnum öll check til að bíða ár og öld við hliðið - auðvitað hellings seinkun á fluginu.

- Svo bara pakka draslinu fyrir flugið heim. Með örfá aukakíló í töskunni og hellings of mikið í flugfreyjutöskunni förum við á völlinn. Kát konan í check-in-inu og allt fór í gegn án athugasemda. Jess.
Ég hef virkað ægilega ósjálfbjarga á flugfreyjuna því hún leiddi mig nánast að sætinu mínu, setti allt dótið mitt og kápuna upp í hólfið og færði kallinn sem hafði sest í sætið mitt. Beið bara eftir að hún spennti á mig beltið.

- Eftir að hafa hitt nokkra vini og ættingja fyrir sunnan og mikið át var brunað norður strax á sunnudeginum. Mér til mikillar gleði var allskonar veður á leiðinni, vont skyggni, hríð og læti. Það fannt ekki öllum í bílnum það jafn skemmtilegt.

- Á mánudaginn hringdi svo Pauline frá Bangor University. Þau voru "very impressed", ég var "right on with my message", svör mín við spurningum þeirra var það sem þau voru að leita eftir og ég spurði góðra spurninga. Aftur, "very impressed" (hún endurtók það, ég er ekki bara að monta mig).
En því miður var einn umsækjandi búin að vinna með þetta prógramm í nokkur ár og því var ákveðið að ráða hann vegna reynslunnar EN ég var næst í röðinni (ef ég skildi hana rétt - segjum það bara). Að lokum sagði hún að þau myndu auglýsa stöðu aftur eftir ár eða fyrr og hvatti mig til að sækja aftur um.
Ég er alveg hoppandi glöð með þetta símtal og að ég hafi komið vel fyrir og greinilega ekki bullað svo mikið. Eftir viðtalið var ég nefnilega ekki viss hvernig þetta hefði farið og mundi eftir ýmsu sem ég hefði getað eða átt að segja. Gerði mér engar væntingar um þetta starf svo ég er ansi glöð að hafa fengið viðtal yfir höfuð og líka að hafa gengið svona vel.

- Núna tekur bara við smá leti, konfektgerð, bakstur og almenn gleði. Ætla að fræða bekkinn hennar mömmu um hollensk jól, aðallega Sinterklaas býst ég við og fékk líka smá vinnu á póstinum við að bera út - svona eins og í 1. bekk í MA. Svona fer lífið í hringi :)

Tuesday 9 December 2008

Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwllllantysiliogogogoch station

og þetta er ekki bull heldur lengsta nafn á lestarstöð í heimi! sem er einmitt í Wales. Ástæðan fyrir því að ég bý yfir þessum einskins nýta fróðleik er að ég skrapp til Wales í síðustu viku. Til að gera langa sögu stutta:

- sá auglýst starf við Bangor University í Wales sem var ansi nærri því að vera draumastarfið. Fannst nú ólíklegt að ég fengi einu sinni viðtal þar sem mig vantar reynslu og svona en sótti nú samt um.

- á sama tíma var ég að bíða eftir athugasemdum frá leiðbeinandanum sem var að bíða eftir að fá athugasemdir frá hinum leiðbeinandum (þessum fyrrverandi sem fór í fæðingarorlof og er núna aukaleiðbeinandi). Leið og beið og ég var farin að sjá fram á að ná ekki að klára þetta áður en ég færi heim.

- fæ póst frá Bangor University og ég boðuð í viðtal. Kemstu 5. des? ööö kíki á flugmiðann heim til Ísland, 6. des, umm já ekkert mál. Panta flug til Liverpool fimmtudaginn 4. des og til baka kvöldið 5.des.

- fæ svo loksins póst frá leiðbeinandanum á föstudegi, viku fyrir viðtal. Ég hafði beðið hana að skrifa staðfestingarbréf um að ég væri alveg að klára fyrir LÍN sem voru farnir að anda niður um hálsmálið á mér. Hún sagði að ég skildi bara laga þetta, þetta og þetta og skila þessu bara inn í næstu viku og hún skildi gefa mér einkunina þá til að ég gæti sent námsárangurinn inn. Ö ég þarf þá að skila á miðvikudaginn...

- vinn að ritgerðinni um helgin og fæ svo fund með leiðbeinandanum á mánudeginum til að fá svör við nokkrum spurningum. Hún segist vera búin að ákveða hvað ég fæ í einkunn, ég samt ekki búin með ritgerðina, og segir mér hana og gefur mér umsögn. Segir mér svo að koma bara fyrir hádegi á miðvikudeginum og sýna mér ritgerðina og þá muni hún skrifa undir einkunina, svona ef þetta lýti vel út.

- Á þriðjudagskvöldið fæ ég póst með athugasemdum við málfar, setningaruppbyggingu og svoleiðis frá enskri stelpu, sem ég þekki, sem vinnur við þýðingar. Hún sagði mér að fá ekki áfall þegar ég sæi athugasemdirnar, hún vinni nú við þetta og væri mjög pikkí. En ó mæ god.
Sem betur fer var Jón Grétar búin að lesa þetta fyrir mig líka svo e-ð var ég búin að laga.
Klukkan 5 um nóttina ákvað ég að þetta yrði að duga.

- Eftir þriggja tíma svefn tók ég lestina til Leiden (ó já við vorum flutt til Nieuw Vennep), lestin sem ég ætlaði að taka kom ekki svo ég stóð á pallinum í 40 mín.
Ritgerðin prentuð út, kallinn á prentstofunni gerði ekki alveg eins og ég vildi en hafði ekki tíma né nennu til að röfla.
Eintökunum fjórum hent í kennarann (nei grín). Hún var hress eins og ávallt og sagðist ætla að kíkja á þetta til að athuga hvort hún væri ekki ennþá sammála einkuninni, haha (það fannst mér ekki fyndið).

- restin af deginum fór í að skrá sig úr skólanum (vesen - kellingin var ekkert á því að leyfa mér það), úr bænum (ennþá meira vesen - neyðarhringing til Jóns til að koma með vegabréfið, kvittuðum 2 mín fyrir lokun) , selja hjólið fyrir sorglega lítinn pening (og fá vorkunn pólska hjólamannsins vegna þess að ég væri að fara heim til Íslands - kannski ég kæmi bara strax aftur?), síðasta kaffihúsasetan með Grikkjunum og síðasta pizzan með káli og sýrðum rjóma á Donatello fyrir hjólapeninginn.

Svo bara pakka fyrir ferðina miklu til Wales. Þessi langa saga varð nú ekkert svo stutt svo ég set inn framhaldið síðar....

Thursday 20 November 2008

Ást

Hver man ekki eftir gríðarlega vísindalegum og flóknum útreikningum á ástarprósentum?
Hægt var að sjá á milli hverra var mest ást með að reikna prósentur á milli nafnanna á afar flókinn hátt. Það einfaldaði málin að sjálfsögðu að vita hvaða strákum tók ekki að vera skotin í, best að einbeita sér að gaurnum sem gaf bestu prósentuna.

Hollendingar er nú e-ð á eftir, núna eru Hollendingar loksins búnir að fatta þessa visku. Þeir eru meira segja búnir að tæknivæða þetta - hægt er að senda sms með nöfnunum á sérstakt númer og fá prósentuna senda tilbaka! Í auglýsingunni sést stelpa og strákur á bar, hún sendir sms og úff fær 9% tilbaka! Það er auðvitað alveg glatað svo hún sturtar drykknum sínum yfir strákinn. Óþarfi að eyða meiri tíma í gaur með svona lága prósentu...

Monday 17 November 2008

Nýta tímann

Þegar dögunum hér í Amsterdam fækkar hratt þá er nauðsynlegt að nýta tímann vel.
Á laugardaginn litum við því upp frá tölvuskjánum og fórum við á Van Gogh safnið og sáum James Bond í Tuschinki bíóinu.

Með miðanum á safnanótt sem við fórum á um daginn fylgdi aðgangur að einu safni að eigin vali sem gildir fram að áramótum. Við ákváðum að sjálfsögðu að fá sem mest fyrir frímiðann og fara á stórt safn. Þar er hægt að vera í marga klukktíma ef maður er mjög áhugasamur um málarann og hans list. Kíktum meðal annars á sólblómin, krumpuðu skóna, gula húsið og akrana þar sem krákurnar fljúga yfir.
Einnig eru á safninu verk eftir aðra listamenn og núna stendur yfir sýning á mikilvægum eða merkilegum listaverkum í eigu hollenskra safna. Sáum t.d. vídjólistaverk sem sýndi óeðlilegan handþvott. Aðein sást í hendurnar sem eru þvegnar aftur og aftur, líklega einhver með þráhyggju og áráttursökun. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið þetta verk.

Að fara í bíó í Tuschinki er meira eins og að fara í leikhús heldur en í bíó. Húsið sjálft á sér merkilega sögu og er í afar sérstökum stíl. Salirnir og reyndar allt húsið er mjög flott og þeir sem eru forvitnir geta séð mynd af salnum sem við fórum í hér http://www.pathe.nl/tuschinski/ , myndin ætti að koma upp á forsíðunni.
Við tímdum ekki að spreða í meira en venjulegan miða en líka er hægt að kaupa VIP miða á svalirnar og ennþá flottara er að kaupa miða í "loveseats". Þá fær maður tvöfalt sæti í sérstökum bás og fær veitingar og vín. Ægilega rómó. Svoleiðis miða kaupi ég þegar ég verð rík.

Wednesday 12 November 2008

Gaman

Í gær var dagur St. Martin en þá ganga börn um með ljósaker eða luktir, banka uppá hjá fólki og syngja lög um þennan blessaða Martin og fá nammi í staðinn.
Þegar ég hjólaði heim sá ég fullt af krökkum með ljósaker sem þau höfðu mörg greinilega gert sjálf - mjög skemmtilegt. Þegar ég kom heim sagði Jón að það hefði enginn bankað hjá okkur - sem betur fer. Við áttum sko ekkert nammi til að gefa - var alveg tilbúin að afsaka mig "sorry, geen snoepjes" en það slapp til.

Aðalmál síðustu daga er samt að ég er búin að panta flug heim og lendi á klakanum laugardaginn 6. desember klukkan 15:30.
Búið að vera soldið stress, ætlaði að koma nokkrum dögum fyrr en verðið á fluginu rauk upp úr öllu valdi svo þetta var eins snemma og ég komst með beinu flugi án þess að borga 100 þúsund kall fyrir. Já takk, það er verðið aðra leiðina ef maður pantar ekki nógu snemma og þetta er ekki einu sinni Saga Class sæti. Nei nei bara venjulegt Economy.
Ég farin að hugsa svo mikið um flutninga og hvernig í ósköpunum ég komi öllu draslinu heim að stefnir í vandræði. Jóni finnst ég allavega hugsa of mikið. En hvað um það, ég er alveg að fara heim!

Tuesday 4 November 2008

Útskýring

Best að útskýra gyðingahúfana betur fyrir Evu og Kötu.
Þegar gyðingar fara í synagogue-una þá hylja þeir höfuð sitt til að sýna virðingu. Gyðingahúfan sem ég talaði um heitir Kippah eða Yarmulke og held ég yfirleitt nú til dags einungis notuð af karlmönnum. Einu sinni voru Gyðingar alltaf með svona höfuðfat því það minnir þá á nærveru Guðs en núna yfirleitt bara við trúartengdar athafnir eða annað sem tengist trúnni (t.d. lesa heilagar bækur). Kannski öðruvísi hjá þeim heittrúðu því stundum sér maður menn með Kippah úti á götu.
Þeir sem eru ekki með Kippah þegar þeir koma í synagogue-una fá einfaldlega lánað. Í þá sem við förum voru allir karlmenn með svoleiðis en greinilega ekki verið að hafa áhyggjur af konunum. Ég var ekki alveg með þetta virðingardæmi á hreinu fyrst og tók niður húfuna til að sýna virðingu!

Þessi húfa er nú voða lítil - nær rétt yfir hvirfilinn. Því miður náðist engin mynd af Jóni með höfuðfatið svo mynd af Obama með Kippah verður bara að duga.

Sunday 2 November 2008

Safnanótt

Í gær var safnanótt hér í Amsterdam.
Við keyptum okkur miða og útbjuggum (ég semsagt) mjög metnarfulla dagskrá - nú átti aldeilis að sjá mörg söfn og vera á ákveðnum stöðum og ákveðnum tímum til að hlusta á tónlist eða sjá aðrar uppákomur.
Það reyndist alls ekki einfalt þar sem þúsundir manna voru líka að flakka á milli safna og þar af leiðandi raðir allstaðar. Jazzsöngurinn, gospelkórinn, hennatattoo-ið, galdramaðurinn, daðurkennslan að 18. aldarhætti og ýmislegt annað datt því af dagskránni. Við náðum þó að sjá ýmislegt skemmtilegt.

Kvöldið hófst á Filmmuseum þar sem Bollywood þema var í gangi. Hægt var að læra jóga, láta taka af sér mynd í indverskum klæðnaði og fá snyrtingu en við fátæklingarnir héldum okkur við ókeypis skemmtunina og horfðum á mjög absúrd klippur úr Bollywood myndum. Mjög skemmtilegt.
Næst skunduðum við á Rijksmuseum til að sjá hið rosa fræga verk Damien Hirst "For the love of God" og meistara Rembrandt. Fyrir utan var dágóð röð sem virtist ganga nokkuð hratt svo við ákváðum að skella okkur í röðina. Eftir klukkutíma bið komumst við inn og fannst þessi bið alveg sleppa til. Þegar komið var upp á aðra hæð langaði mig næstum að gráta, þar var önnur röð! biðum semsagt aftur heillengi. Vegna þess hve röðin hreyfðist hægt þá las ég mjög samviskusamlega lýsingar á öllum málverkunum sem ég hefði pottþétt ekki nennt undir venjulegum kringumstæðum. Sem er jákvætt.
Eftir að hafa séð hið rosalega 8.601 demantar á hauskúpu verk Hirst og Næturvakt Rembrandts fórum við á Tassenmuseum (Museum of Bags and Purses). Dásamleg hugmynd að hafa safn bara fyrir töskur og veski! Mér fannst það samt meira dásamlegt en Jóni.
Fjórða stopp var Portugese Synagoge sem er einungis lýst upp með kertaljósi. Þar þurftum við að fara í annað skiptið um kvöldið í gegnum vopnaleit og Jón að vera með gyðingahúfu. Það fannst mér skemmtilegt - líklega í eina skiptið sem ég sé Jón með svoleiðis.

Við enduðum kvöldið í de Nieuwe Kerk sötrandi sérdeilis fínan klausturbjór Það er ekki oft sem maður drekkur bjór í kirkju undir orgelspili en svona er lífið í Amsterdam.