Sunday 2 November 2008

Safnanótt

Í gær var safnanótt hér í Amsterdam.
Við keyptum okkur miða og útbjuggum (ég semsagt) mjög metnarfulla dagskrá - nú átti aldeilis að sjá mörg söfn og vera á ákveðnum stöðum og ákveðnum tímum til að hlusta á tónlist eða sjá aðrar uppákomur.
Það reyndist alls ekki einfalt þar sem þúsundir manna voru líka að flakka á milli safna og þar af leiðandi raðir allstaðar. Jazzsöngurinn, gospelkórinn, hennatattoo-ið, galdramaðurinn, daðurkennslan að 18. aldarhætti og ýmislegt annað datt því af dagskránni. Við náðum þó að sjá ýmislegt skemmtilegt.

Kvöldið hófst á Filmmuseum þar sem Bollywood þema var í gangi. Hægt var að læra jóga, láta taka af sér mynd í indverskum klæðnaði og fá snyrtingu en við fátæklingarnir héldum okkur við ókeypis skemmtunina og horfðum á mjög absúrd klippur úr Bollywood myndum. Mjög skemmtilegt.
Næst skunduðum við á Rijksmuseum til að sjá hið rosa fræga verk Damien Hirst "For the love of God" og meistara Rembrandt. Fyrir utan var dágóð röð sem virtist ganga nokkuð hratt svo við ákváðum að skella okkur í röðina. Eftir klukkutíma bið komumst við inn og fannst þessi bið alveg sleppa til. Þegar komið var upp á aðra hæð langaði mig næstum að gráta, þar var önnur röð! biðum semsagt aftur heillengi. Vegna þess hve röðin hreyfðist hægt þá las ég mjög samviskusamlega lýsingar á öllum málverkunum sem ég hefði pottþétt ekki nennt undir venjulegum kringumstæðum. Sem er jákvætt.
Eftir að hafa séð hið rosalega 8.601 demantar á hauskúpu verk Hirst og Næturvakt Rembrandts fórum við á Tassenmuseum (Museum of Bags and Purses). Dásamleg hugmynd að hafa safn bara fyrir töskur og veski! Mér fannst það samt meira dásamlegt en Jóni.
Fjórða stopp var Portugese Synagoge sem er einungis lýst upp með kertaljósi. Þar þurftum við að fara í annað skiptið um kvöldið í gegnum vopnaleit og Jón að vera með gyðingahúfu. Það fannst mér skemmtilegt - líklega í eina skiptið sem ég sé Jón með svoleiðis.

Við enduðum kvöldið í de Nieuwe Kerk sötrandi sérdeilis fínan klausturbjór Það er ekki oft sem maður drekkur bjór í kirkju undir orgelspili en svona er lífið í Amsterdam.

4 comments:

Anonymous said...

ohh lífið í amsterdam hljómar vel:) sérstaklega töskusafnið!

Anonymous said...

mér finnst að það eigi að leyfa bjór í kirkjum alveg eins og vín!

Eva said...

ég næ þessu ekki alveg með húfuna :S

Anonymous said...

Ekkert smá huggulegt :-)
Vil líka fá betri útskýringu á húfunni!