Friday 4 January 2008

Nýtt ár

Við erum komin heil og höldnu frá áramótaferðinni til Þýskalands. Ferðin var afar ljúf, mikið spjallað, sungið, spilað og skálað. Það góða við að fagna áramótunum í útlöndum er að maður getur fagnað tvisvar:) Fyrst á miðnætti að staðartíma og síðan aftur á íslenskum tíma.

Við vorum frá föstudegi til þriðjudags í Burg Rieneck sem er kastali í litlum bæ sem heitir Rieneck (um klst frá Frankfurt). Þetta er skátakastalinn sem Jón hefur varið páskum síðustu ára ásamt svona þremur fundum á ári. Loks fékk ég að sjá þennan stað og hitta suma af þeim sem Jón hefur talað um. Staðurinn stóð alveg undir væntingum og ég prófaði ýmislegt. Til dæmis lærði ég kumihimo sem er aðferð til að hnýta bönd, gerði heiðarlega tilraun til að læra slóvenska þjóðdansa og ýmis þýsk lög, spilaði Zug um Zug og smakkaði þýska drykkinn feuer eitthvað eitthvað. Rauðvín (held ég) er sett í sérstaka skál ásamt appelsínubitum og kryddi, sykurstöng sett á sérstakt apparat yfir, rommi hellt yfir og síðan kveikt í herlegheitunum. Ansi skemmtilegt.

Aldrei að vita nema að ég gerist skáti í eina viku um páskana og skelli mér aftur til Rieneck!

Einn daginn fórum við til Wurzburg og bæði á leiðinni til og frá Rieneck stoppuðum við í Bad Orb og heimsóttum Christoph og Christof sem hafa tekið á móti okkur þegar við höfum farið á lúðrasveitamót í bænum. Þeir voru hressir og fengu mann til að byrja hlakka til að fara á næsta mót sem er í september.

Í dag kom svo seinni helmingurinn af jólagjöfunum frá Íslandi. Nú höfum við nóg að lesa á íslensku og horfa á. Við horfðum á fyrri helminginn af Næturvaktinni svo núna ætti maður að kunna frasanna:) og ekki vantaði gúmmelaðið, guði sé lof:)

Nú tekur alvaran aftur við með skýrslu- og ritgerðarskilum og prófum. Það verður erfitt að komast aftur í gírinn en ég hef þó margra manna birgðir af kexi, kökum (í frysti síðan um jól) og nammi frá Íslandi til að maula.

2 comments:

Anonymous said...

Gleðilegt árið og takk fyrir gamla :) Takk æðislega fyrir jólakortið

Anonymous said...

Gleðilegt árið!! Gaman að heyra að þið hafið notið áramótanna þarna úti ;)

kv.
Maja