Tuesday 25 March 2008

Enginn tyggur tannlaus

Svona var málshátturinn í páskaegginu mínu í ár. Opnaði eggið ekki fyrr en í dag, þriðja í páskum, sem hefur aldrei gerst áður.

Páskunum eyddi ég í í Rieneck kastala innan um 100 skáta á skátanámskeiði. Held að það sé rétta orðið fyrir þetta fyrirbæri IMWe. Endurtók nafnið mitt ótal sinnum, útskýrði hvað ég væri að gera í Hollandi þónokkru sinnum og skemmti mér vel. Alltaf gaman að hitta fólk frá mismunandi löndum en það voru svo margir Íslendingar á svæðinu að ég talaði örugglega meira af íslensku en ensku.

Gísli bróðir Jóns kom með páskaegg handa mér (ekki Jóni) svo ég gat tekið þátt í páskaeggjaleitinni sem íslensku krakkarnir skipulögðu. Hver faldi eitt egg og var gríðarlegur metnaður í gangi. Þegar ég komst að því að sá sem ég átti að fela fyrir ætlaði að gera 10 vísbendingar fyrir þann sem hann átti að fela fyrir varð ég auðvitað að gera margar líka.
Mjög seint á laugardagsnóttina þegar flestir voru farnir að sofa læddist ég um kastalann til að koma vísbendingunum fyrir. Þegar ég var að því hitti ég í kastalagarðinum Króatann Vasko sem vildi vita hvað ég var að gera. Honum fannst felustaðurinn minn ekki nógu góður og kom með þá snilldarhugmynd að fela eggið inn í litlum snjókalli sem var gerður fyrr um nóttina. Mér leist auðvitað vel á þetta og meðan Vasko lyfti kallinum mokaði ég innan úr honum til að gera nóg holrúm fyrir eggið.
Án efa besti páskaeggjafelustaður allra tíma!

Annars eyddi ég tímanum í að syngja, prútta um töfralampa, vatn, þræla og aðrar nauðsynjar á markaðnum í lokaleiknum, hlusta á fagra tóna á tónleikum, horfa á leikþætti um örlög kalífsins, prinsessunnar, D.P., vondu andanna, góða andans, Is Nogood, Nohballs, Sandali og allra hinna, drekka bjór, horfa á kynningar um skátastarf í mismunandi löndum, ræða um sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo, hlusta á söguna um Aladin í dreamtime, láta sannfæra mig um nauðsyn þess að fara til Serbíu og Makedóníu, fylgjast með hössli, borða kúskús með puttunum, læra afar góðan partýleik og hlæja oft og mikið.
Spurning að fara á næsta ári og vera allan tímann?

Annars verð ég að koma þessu kaffimáli á hreint, ég er ekkert að fara að leggja það í vana minn að drekka þetta sull. Bekkjarsystir mín var að spá í bolla og þess vegna svældi ég í mig einum bolla.
Þeir sem voru miður sín yfir þessari kaffidrykkju geta tekið gleði sína á ný og hinir verða bara að halda áfram að bjóða mér vatn að drekka...

2 comments:

Anonymous said...

Greinilega skemmtilegir páskar :)
Verst með kaffidrykkuna!!

Una said...

og hvað stóð svo í bollanum?