Friday 30 May 2008

Eftir endalausan vetur með alvöru óveðri og sprengju rétt hjá íbúðinni okkar kemur stór jarðskjálfti! alltaf missir maður af einhverju. Ekki að það sé neitt mjög jákvætt við að lenda í jarðskjálfta heldur er það bara svo merkilegt. Ég man vel hvað ég var að gera í skjálftanum 17. júní 2000.
Það sem mér fannst merkilegt í gær var að ein grísk bekkjarsystir mín fór að spyrja mig á msn um skjálftann - bróðir hennar á Grikklandi lét hana vita af skjálftanum. Ég vissi ekki að þetta hefði komist í fréttir í útlöndum. Hún sagði mér líka að á hennar svæði fyrir einhverjum árum kom minni skjálfti en þessi heima í gær og þá dó fullt af fólki og margir bjuggu í mörg ár í bráðabirgðahúsnæði.
Þegar ég sagði henni að m.a. væri stærsta fangelsi landsins þarna sá hún fyrir sér að allir fangarnir hefðu sloppið og allt væri í uppnámi. Ég gat nú útskýrt að húsin væru nú sterk og svona. Ætli það sé extra mikið af steypustyrktarjárni á húsunum á Litla-Hrauni?

Hér í Hollandi er helst í fréttum að Jón flaug heim á miðvikudag og skildi mig eftir eina í kotinu. Sem þýðir að það er ennþá erfiðara að vakna á morgnana, ekki alveg mín sterka hlið.
En eftir rétt rúma viku koma Sissi og Agnes og svo förum við öll saman heim.
Tíminn líður hraðar og hraðar, það er að koma júní!

No comments: