Tuesday 9 October 2007

Gleðigleðigleði

Ég er búin með kynninguna mína!
Tíminn var í gær og ég var fyrri af tveimur að kynna. Ég var mjög stressuð og gleymdi nú að segja sumt en í heildina var það bara ágætt held ég. Umræðurnar á eftir tóku á meiri smáatriðum en ég bjóst við en ég gat svarað öllu og umræðurnar voru mjög líflegar. Á eftir sögðu stelpurnar sem voru viðræðendurnir (?, er þetta orð? discussants) að það hefði verið mjög erfitt að finna e-ð til að setja út á og þess vegna hefðu þær þurft að draga líka upp smáatriði. En það var bara gaman að fá að ræða niðurstöðurnar sínar svona. Þá fékk ég líka tækifæri til að segja sumt að því sem ég hafði ekki tíma til að segja í kynningunni. Þótt ég hefði verið komin með leið á þessu efni (hafa sálfræðilegar íhlutanir/meðferðir áhrif á lífslíkur fólks með langvinna sjúkdóma eða hafa þær einungis áhrif á gæði lífs? og ég talaði um krabbamein) undir lokin þá er þetta mjög áhugavert. Ég þurfti að skera mikið niður af efninu sem ég var upphaflega með.

Kennarinn sagði að þetta hefði verið fínt hjá mér en ég yrði að passa að reyna ekki að koma of mikið af upplýsingum á framfæri, þá gæti maður t.d. farið að tala of hratt. Hún sagði líka að ég yrði að passa öndunina, ég hefði greinilega verið að passa að tala ekki of hratt og líka verið stressuð svo stundum hefði verið eins og ég þyrfti að draga djúpt andann til að slaka aðeins á. Allt satt og rétt og við vorum sammála að það væri mest reynsluleysinu að kenna.

Ég tók samt eftir að kennarinn var alltaf að skrifa e-ð á meðan ég var að kynna en þegar stelpan á eftir mér var að kynna sitt þá skrifaði hún mjög lítið. Síðan talaði kennarinn bara við mig eftir tímann ekki hina (ekki svo ég tæki eftir). Spurning hvort það sé gott eða vont. Ég er að minnsta kosti svo ótrúlega glöð að þetta sé búið. Núna eru allir á taugum yfir sínu en ég er búin! Vúhú

Til að fagna þessum gleðiáfanga á tók ég lestina til Jóns sem var í skólanum og við fórum í IKEA í Amsterdam. IKEA í höfuðborg þessa milljónalands er svipað að stærð og IKEA á litla Íslandi! Ég var búin að gera rosalista með því sem vantaði og svo fleiru sem mig langaði í. Keypti nú ekki nærri því allt sem var á listanum, það eru takmörk fyrir því sem maður getur borið heim. Hátíðarkvöldverðurinn var kjötbollur með brúnni sósu og við keyptum líka kjötbollur, til að hafa með heim, á sænska matartorginu.

Aðalfréttirnar eru samt að mamma og pabbi eru að koma í heimsókn 1. nóvember! Það verður sko ótrúlega gott að fá þau og ég verð að tala við Grikkina mína um skipulagningu til að ég geti verið sem mest laust þessa helgi. Nú hefst ægileg skipulagning og að sjálfsögðu er ég byrjuð að hugsa um listann yfir það sem ég ætla að biðja um að fá úr geymslunni góðu.

Smá drama í lokin: gríska stelpan sem ætlaði að hætta en hætti við, er núna hætt. Hún flýgur víst heim í dag. Leiðinlegt en örugglega betra fyrir hana. Vona bara að henni líði betur.

4 comments:

Anonymous said...

Til hamingju með verkefnið! Auðvitað hefur þú staðið þig frábærlega og það er alls ekki ills viti að kennarar skrifi niður, þeir geta allt eins verið að skrifa jákvæða hluti!!!!!

Mamma

Eva said...

Úbbs, ég var að fatta að ég er ennþá með geymslulyklana þína! Redda því í skyndi :)

Anonymous said...

til hamingju með verkefnið, gott að vera búin að ljúka þessu af:o)

Anonymous said...

Glæsilegt! Til hamingju með verkefnið :-)