Friday 5 October 2007

Hátíð í bæ

Í vikunni var Leiden Ontzet, hátíð til að fagna því að spænsku herinn fór (fyrir löngulöngu síðan). Ballið byrjaði á þriðudagseftirmiðdag. Bærinn var fullur af tívolítækjum af öllum stærðum og gerðum og sölubásum með öllu mögulegu, t.d. sokkum, nammi, pottaplöntum og meira að segja klósettsetum! Var að hugsa að kaupa eina handa Möggu með höfrungamyndum.

Veitingastaðir og barir voru búnir að tjalda fyrir utan staðina og margir buðu upp á tónlistaratriði, og svo auðvitað mat og bjór. Svo voru líka matar- og bjórvagnar sem tengdust engum veitingastöðum út um allt. Á þriðjudagskvöldið röltum við aðeins um en mannmergðin var ótrúleg og erfitt að stoppa og sjá atriðin. Flestar hljómsveitirnar voru cover bönd svo við þekktum oftast lögin. Skemmtilegt var þó þegar hollensku slagararnir byrjuðu og allir sungu með nema við. Ég var þó fljót að ná einu lagi, viðlagið var svona: dansi, dansi, dansi, dansi. Ekki flókið það.

Við sáum skrúðgöngu og mér finnst alltaf gaman að horfa á góða skrúðgöngu. Þessi var nú skondin, öll möguleg félög voru í göngunni, íþróttafélög, skátar, lúðrasveitir og einhverjir klúbbar sem ég fattaði nú ekki hvað var. Það var greinilegt að margir lögðu mikið í sitt atriði, íþróttafélögin voru gjarnan í búningum með dót tengt sinni íþrótt. Borðtennisfélagið rúllaði t.d. borðtennisborði með sér í göngunni og fimleikastelpur stukku allskonar stökk. Þetta voru aðallega krakkar og unglingar og þjálfararnir þeirra. Skemmtilegt að hafa allskonar hópa með en þessi ganga var líka mjög löng, við sáum bara part.

Á miðvikudaginn var fjör allan daginn. Þrátt fyrir verkefnaskil var ekki hægt að sleppa því að fara aðeins í bæinn um daginn. Samkvæmt hefðinni á maður að borða haring (síld) og hvítt brauð því það var það eina sem var til þegar Spánverjarnir fóru (eða hvort nágrannarnir komu með þetta, man þetta ekki alveg). Ef maður er Leiden búi þá fær maður svona góðgæti frítt en við hin þurfum að borga. Við lögðum nú ekki í þetta, prófaði oliebollen í staðinn. Það er eins og ástarpungur í útliti en ekki jafn gott. Svo fengum við líka í fyrsta skipti franskar í pappírskeilu með góðri slumpu af majónesi með. Það er sko ekta hollenskt!

Að sjálfsögðu þurftum við að kíkja aðeins í tívolí. Við fórum í parísarhjólið og fengum ágætis útsýni yfir bæinn. Eftir það „fundum“ við aðra skrúðgöngu í miðbænum. Þessi var enn flottari en kvöldið áður. Ég gat þó ekki áttað mig á hvaða fólk var í göngunni, leit út eins og einhverjir leikklúbbar. Á undan hverju atriði keyrði bíl með skilti sem stóð á hvert þema atriðsins var, t.d. sound of music, 007, vikudagarnir, framtíðin, dans og svo fleira, sumt skildi ég nú ekki. En þetta var rosalega flott og mikið lagt í búningana, ég reyndi að taka myndir (heppnaðist misvel, maður sá mis mikið fyrir aftan þessa hávöxnu Hollendinga) og set þær seinna á netið. Svo voru aðvitað lúðrasveitir á milli. Ein var ótrúlega flott, við erum að tala um sexfaldar raðir, 18 trompeta, 4 pikkaló, 12 flautur og 6 túbur! (Og svo auðvitað fullt af öðrum hljóðfærum en bara svona til að lúðrasveitanördin skilji hvað ég er að meina) Magnað! En fyndnast fannst mér að þegar sveitin stoppaði þá drógu þeir bara upp sígó og nesti. Smá pása.

Um kvöldið hélt fjörið áfram og við kíktum aðeins, fundum út að það var best að vera hér í næstu götu þar sem er fullt af veitingastöðum. Þar voru bönd að spila og ekki eins hrikalega troðið eins og í miðbænum. Þið takið bara frá 2.-3. október á næsta ári og komið á Leiden Ontzet!

8 comments:

Anonymous said...

Vá!... höfrungamyndir... flott:o) Sé hana alveg fyrir mér..... í molum:o)

Anonymous said...

ertu búin að smakka "bitterboller"? eða eitthvað svoleiðis? Veit ekki alveg hvernig á að skrifa það, skópaði víst í hollensku tímanum sem það var kennt :)

Anonymous said...

ekki er ég lúðrasveitanörd og ég segi samt vá! en já þessi helgi er frátekin á næsta ári og svo beint á októberfest þaðan:)

Eva said...

Úff... ég hefði alveg verið til í að vera hjá þér þessa helgi :)

og já, namm, bitterbollen :)

Eva said...

Úff... ég hefði alveg verið til í að vera hjá þér þessa helgi :)

og já, namm, bitterbollen :)

Anonymous said...

Greinilega nóg að gera hjá þér :o) Kíki annað slagið á síðuna en kannski ekki dugleg að kvitta....skal reyna að bæta mig ;)
Góða helgi!
Knús,
Kristrún.

Álfheiður said...

Magga: já Magga mín það var fullt af flottum setum en ég ákvað að vera ekki að kaupa neitt handa þér sem þú eyðileggur bara...;)

Harpa: já bitterballen er ég búin að smakka, alltaf vinsælt með bjór á pöbbnum. Innihaldið er nú samt frekar dúbíus en hverjum er ekki sama?

Inga: októberfest er nú búið svo þú ættir að fara fyrst þangað og svo hingað. Októberfest er nefnilega í september væna.

Anonymous said...

ó...